Flýtilyklar
Millilandaflug til Húsavíkur?
Hringbraut greinir frá því í dag að minkandi hrepparígur á milli Þingeyinga og Eyfirðinga í seinni tíð gæti liðkað fyrir því að horft verði til þess að millilandaflugi fyrir Norðurland verði í framtíðinni beint í gegnum Aðaldalsflugvöll sem er staðsettur skammt utan Húsavíkur. Akureyringar hafa í mörg ár barist fyrir því að fá beint millilandaflug um Akureyrarflugvöll; en erfið lendingarskilyrði í þröngum Eyjafirðinum er staðreynd. Það hefur fengið fólk til að hugsa út í þann möguleika að fara heldur með það í Aðaldal, svæðinu öllu til bóta. Vitnað er í Loga Már Einarsson, bæjarfulltrúa á Akureyri og formann stjórnar Eyþings í frétt Hringbrautar sem segir: „Sú leið hefur ekkert verið rædd. Það hefur auðvitað verið fjárfest mikið í Akureyrarflugvelli og í markaðssetningu á vellinum, sem millilandaflugvelli. Það er því eðlilegt að láta reyna á þá vinnu til hins ítrasta, enda brýnt hagsmunamál landshlutans að fá fleiri ferðamenn beint inn á svæðið.“
Fréttin hefur vakið mikla athygli Húsvíkinga nær og fjær og hafa þeir verið duglegir að deila fréttinni og ræða hana á samfélagsmiðlum. Friðrik Sigurðsson oddviti Sjálfstæðisflokks og forseti bæjarstjórnar í Norðurþingi deilir fréttinni á Facebook og segir:
"Ég hef talað fyrir þessu frá því ég man eftir mér, þ.e. að millilandaflug á Norðurlandi verði um Aðaldalsflugvöll sem opin væri fyrir þotuumferð nánast alla daga ársins! Loksins!!"
Nokkrir tjá skoðun sína við færslu Friðriks, m.a. Heiðar Hrafn Halldórsson framkvæmdastjóri Húsavíkurstofu en hann segir: "Mér finnist athyglisverðast í þessu að umræðan sé sprottin upp frá Akureyringum sjálfum. Bæjarfulltrúum og fleirum. Það er rétt að mikilvægast sé að millilandaflug hefjist á Norðurlandi yfir höfuð. Eðli málsins samkvæmt hlýtur öryggi að vera forgangsatriði sem og að lent sé þar sem bestar líkur eru á að hægt sé að lenda sem oftast. Þar hlýtur Húsavíkurvöllur að hafa vinninginn."
Annar Húsvíkingur búsettur í Noregi deilir einnig fréttinni og segir við hana: "Breyta nafninu. Kalla Aðaldalsflugvöll Akureyrarflugvöll. Málið leyst."
Það er nokkuð ljóst að það hlakkar í Húsvíkingum yfir þessari þróun mála.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
Athugasemdir