Millilandaflug til Húsavíkur?

Mynd: mbl.is

 Hringbraut greinir frá því í dag að minkandi hrepparígur á milli Þingeyinga og Eyfirðinga í seinni tíð gæti liðkað fyrir því að horft verði til þess að millilandaflugi fyrir Norðurland verði í framtíðinni beint í gegnum Aðaldalsflugvöll sem er staðsettur skammt utan Húsavíkur. Akureyringar hafa í mörg ár barist fyrir því að fá beint millilandaflug um Akureyrarflugvöll; en erfið lendingarskilyrði í þröngum Eyjafirðinum er staðreynd. Það hefur fengið fólk til að hugsa út í þann möguleika að fara heldur með það í Aðaldal, svæðinu öllu til bóta. Vitnað er í Loga Már Einarsson, bæjarfulltrúa á Akureyri og formann stjórnar Eyþings í frétt Hringbrautar sem segir: „Sú leið hefur ekkert verið rædd. Það hefur auðvitað verið fjárfest mikið í Akureyrarflugvelli og í markaðssetningu á vellinum, sem millilandaflugvelli. Það  er því eðlilegt að láta reyna á þá vinnu til hins ítrasta, enda brýnt hagsmunamál landshlutans að fá fleiri ferðamenn beint inn á svæðið.“

Fréttin hefur vakið mikla athygli Húsvíkinga nær og fjær og hafa þeir verið duglegir að deila fréttinni og ræða hana á samfélagsmiðlum. Friðrik Sigurðsson oddviti Sjálfstæðisflokks og forseti bæjarstjórnar í Norðurþingi deilir fréttinni á Facebook og segir:

"Ég hef talað fyrir þessu frá því ég man eftir mér, þ.e. að millilandaflug á Norðurlandi verði um Aðaldalsflugvöll sem opin væri fyrir þotuumferð nánast alla daga ársins! Loksins!!"

Nokkrir tjá skoðun sína við færslu Friðriks, m.a. Heiðar Hrafn Halldórsson framkvæmdastjóri Húsavíkurstofu en hann segir: "Mér finnist athyglisverðast í þessu að umræðan sé sprottin upp frá Akureyringum sjálfum. Bæjarfulltrúum og fleirum. Það er rétt að mikilvægast sé að millilandaflug hefjist á Norðurlandi yfir höfuð. Eðli málsins samkvæmt hlýtur öryggi að vera forgangsatriði sem og að lent sé þar sem bestar líkur eru á að hægt sé að lenda sem oftast. Þar hlýtur Húsavíkurvöllur að hafa vinninginn."

Annar Húsvíkingur búsettur í Noregi deilir einnig fréttinni og segir við hana: "Breyta nafninu. Kalla Aðaldalsflugvöll Akureyrarflugvöll. Málið leyst."

Það er nokkuð ljóst að það hlakkar í Húsvíkingum yfir þessari þróun mála.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir