Riðuveiki staðfest í Skagafirði

Landpóstur/Ómar

Á heimasíðu Matvælastofnunar segir að í síðustu viku hafi gangnamaður í Skagafirði fengið grun um riðuveiki í kind í Bólstaðarhlíðarfjalli. Haft var samband við héraðsdýralækni og að lokinni skoðun var kindinni lógað, sýni úr henni sent til Tilraunastöðvar Háskóla Íslands á Keldum sem svo staðfesti að um hefðbundið riðusmit væri að ræða.

Kindin kemur frá bænum Stóru-Gröf-Ytri, er bærinn skammt frá Brautarholti en þar var skorið niður fyrir skemmstu vegna riðu. Bæirnir eru báðir innan Skagahólfs, en undanfarna tvo áratugi hefur riða komið tólf sinnum upp innan Skagahólfs og þar af fimm sinnum á síðastliðnum tveimur árum. Á bænum Stóru-Gröf-Ytri eru nú rúmlega 300 fullorðið fjár, verður því öllu lógað til að fyrirbyggja frekari smit.

Í tilkynningu Matvælastofnunar kemur fram að þó vel hafi gengið að uppræta riðu þá sé baráttunni ekki lokið. Enn vanti herslumuninn uppá til að kveða sjúkdóminn alveg niður.

„Fram til ársins 2010 greindist riða á nokkrum bæjum á landinu á hverju ári en engin tilfelli hefðbundinnar riðu greindust á árunum 2011-2014. Riðuveikin er því á undanhaldi en ekki má sofna á verðinum. Á undanförnum árum hafa sýni verið tekin við slátrun úr u.þ.b. þrjúþúsund kindum á ári. Jafnframt hafa bændur verið hvattir til að senda hausa til Keldna af fé sem drepst eða er lógað heima vegna vanþrifa, slysa eða sjúkdóma, eða hafa samband við dýralækni um að taka sýni úr slíku fé. Aukin áhersla er á að fá slík sýni þar sem það eykur líkur á að finna riðuna.“

Héraðsdýralæknir vinnur nú að öflun faraldsfræðilegra upplýsinga. Á grundvelli þeirra er meðal annars hægt að sjá hvaða bú eru í mestri hættu á að hafa smitast eða að smitið hafi komið frá. Þau bú verða skoðuð og sýni tekin úr fénu við slátrun. Jafnframt er hafinn undirbúningur að framkvæmd þeirra verka sem framundan eru, þar eða niðurskurði á fénu, förgun á hræjum og hreinsun húsa. Því næst fer málið í hefðbundið ferli hvað varðar gerð samnings um niðurskurð.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir