Vilja ekki safna veraldlegum auði

Hugmynd að trúarsetri Zúista. Mynd: Facebook

Trúarfélag Zúista hvetja landsmenn til að skrá sig í félag sitt fyrir 1. desember og heita því að endurgreiða öll félagsgjöld aftur til félagsmanna að frátöldum umsýslukostnaði sem fer til endurskoðanda og lögfræðings félagsins en enginn stjórnarmeðlimur fær greidd laun. Áætlað er að sóknargjöld til trú- og lífskoðunarfélaga fyrir 16 ára og eldri verði 810 krónur á mánuði árið 2015.

Yfirlýst markmið Zúista er að ríkið veiti ekki trúfélögum ákveðin forréttindi fram yfir önnur. Með því er aðalega átt við stuðning ríkisins við þjóðkirkjuna en þjóðkirkjan lýtur öðrum lögum en önnur trú- og lífsskoðunarfélög.

Á heimasíðu Zúista, Zusitar.is, segir að ,,Stjórn Zúista vill afnema að öllu leyti forréttindi trú- og lífsskoðunarfélaga. Í núverandi kerfi birtast þessi forréttindi á margvíslegan hátt, meðal annars í formi fjárstyrkja frá ríkinu, afsláttar af opinberum gjöldum og að ungabörn séu sjálfkrafa skráð í þessi félög án vitneskju foreldra. Stjórn Zúista vill að sérstök lög um trú- og lífsskoðunarfélög verði einfaldlega felld úr gildi og að um þessi félög gildi sömu reglur og um önnur félagasamtök.” 
Zúistum er heimilað að stunda öll önnur trúarbrögð innan trúfélagsins en í yfirlýsingu stjórnar stendur ,,​Trúfélagið Zuism er vettvangur fyrir fólk til að iðka trú sem byggir á trúarbrögðum hinnar fornu þjóðar Súmera. Zúistar styðja fullt og óskorað frelsi til trúariðkunar og trúleysis. Höfuðmarkmið Zúista er að hið opinbera felli úr gildi öll lög sem veita trú- og lífsskoðunarfélögum forréttindi eða fjárstyrki umfram önnur félög og að núverandi gagnagrunnur yfir trúfélagaaðild landsmanna verði lagður af.”

,,Hópurinn sem er á bak við félagið núna tók það yfir síðasta vor svo þetta er þannig séð glænýtt verkefni. Það átti að afskrá félagið vegna þess hve fáir voru í því en við náðum að bjarga því frá falli með því að fá nógu marga til að skrá sig, lágmarksfjöldinn er 25 manns. Um síðustu áramót voru aðeins fjórir meðlimir skráðir en eftir endurreisn félagsins náðum við meðlimafjöldanum upp í um 40 manns. Í byrjun október voru 45 skráðir í félagið samkvæmt Þjóðskrá en þeim fer vonandi ört fjölgandi.” segir Snæbjörn í viðtali við Pressuna.

Snæbjörn Guðmundsson situr í stjórn Zúista

Mynd: Pressan

Snæbjörn segir fornsúmerisk trúarbrögð ein þeirra elstu sem til eru í heimssögunni. Súmerar voru þjóðflokkur sem var uppi um 2-3.000 árum fyrir okkar tímatal og bjó á Mesapótamíusvæðinu, sem í dag er Írak. ,,Þau [trúarbrögðin] byggja á einhverjum fornum áletrunum á steintöflum og álíka heimildum en satt best að segja hef ég sjálfur ekkert kynnt mér þetta sérstaklega vel. Eftir því sem við komumst næst eru þessi trúarbrögð hvergi lifandi, þótt það geti verið að einhverjir hafi stofnað áhugafélög um þau eins og gengur. Miðað við nokkuð umfangsmikla leit á netinu virðist hins vegar hugtakið zuismi aðeins vera notað um okkar félag hér á Íslandi og því eru engin tengd félög erlendis,” segir Snæbjörn.

Hægt er að gifta sig í félaginu en kostar hún um 100 milljónir króna. Snæbjörn sagði í samtali við Pressuna að verðið ætti að vera fráhrindandi og ekki við því að búast að Zúistar gifta einhvern innan félagsins. ,,Verðskráin endurspeglar það viðhorf okkar eiginlega bara, við ráðum auðvitað því hvað við rukkum fyrir athafnaþjónustuna svo við ákváðum að hafa verðlagið svona í hærri kantinum. En ef fólk vill samt splæsa þá mun gjaldið fyrir athöfnina renna beint til góðgerðamála, við viljum alls ekki að þetta félag safni veraldlegum auði. Er það nokkuð í anda trúarbragða?” segir Snæbjörn.

Þó svo að trúariðkuninn sjálf viðist vera hálfgert djók er félagið það alls ekki. Zúistar boða jafnrétti í trúarmálum og hvetja alla þá sem eru andsnúnir forréttindum þjóðkirkjunar yfir önnur trúarbrögð að skrá sig í félagið.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir