Internet fyrir aðeins x krónur á mánuði - eða hvað?

Hvað kostar þetta í alvöru?
Ég er ein af þeim fjölmörgu sem finn fyrir áhrifum kreppunar og vanda mig mikið þessa dagana að skoða í hvað ég eyði peningunum mínum. Sumt er erfitt að spara á meðan hægt er að skera niður í öðru. Ákveðin nægjusemi kemur upp og vandlega er farið í hvað má sleppa og hvað má minnka.


Eitt af því sem ég hef skoðað er síma og internetnotkun á heimilinu. Þar sem internetið er aðeins notað fyrir almennt flakk gegnum fjölmiðla og facebook, til að svara póstum og gera verkefni þá er ekki nauðsynlegt fyrir mig að vera með einhvern stóran netpakka sem geymir ótakmarkað niðurhal og þessháttar. Ákvað ég að því skoða þau fyrirtæki sem bjóða internet þjónustu en þau eru allnokkur og augljóslega hefur gegnum tíðina verið mikil samkeppni milli þeirra. Endalausar auglýsingar frá hinu og þessu símafyrirtæki koma fram bæði í sjónvarpi, á netinu, í blöðum og útvarpi og allir með sama markmið, að reyna að ná sem flestum viðskipavinum til sín.

Þegar ég var að hugsa um að endurskoða það fjármagn sem ég setti í internetið mánaðarlega kom fram mjög áberandi auglýsing frá ónefndu símafyrirtæki þar sem kom fram að internet væri aðeins á x krónur á mánuði. Þetta kom fram bæði í sjónvarpi og blöðum og engin stjarna í horninu sem benti til þess að væri einhver viðbót til að kynna sér og ekkert smátt letur. Bara gæða internet fyrir aðeins x krónur á mánuði.

Sú upphæð sem var gefin upp fannst mér tilvalin fyrir mig að greiða mánaðarlega fyrir internet og var mjög ánægð með þetta framtak hjá þessu tiltekna símafyrirtæki. Ég ákvað að kynna mér málið betur og hringdi í fyrirtækið sem sagði ekkert mál að græja þetta fyrir mig og nefndi engan auka kostnað að fyrra bragði.
Síðan ákvað ég að spyrja hvort auglýsingin væri rétt, hvort þetta væri verðið til þess að fá þetta fínasta internet heim til sín?

Þá komu þau svör að til þess að fá internetið þyrfti tvennt, ADSL tengingu og router frá símafyrirtækinu. Auk þess þyrfi ég að greiða fyrir að fá greiðsluseðil sendan í heimabankann ef ég óskaði þess.

Með þessum upplýsingum hækkaði verðið fyrir mig til að fá internet heim til mín um 50,5% frá því verði sem stóð í auglýsingunni.

Í dag virðist svo margt loðið sem kemur fram í auglýsingum og finnst mér þetta gott dæmi. Hvaða sannleikur er þá í að gæða internet sé á aðeins x krónur á mánuði þegar það er í raun ekki alveg satt eins og venjuleg manneskja sem hefur ekki sérþekkingu í interneti les auglýsinguna.

Væri ekki heiðarlegra og betra að koma fram strax með réttar staðreyndir og tölur? Ég veit það sjálf að þegar ég finn þjónustuaðila sem skefur ekkert undan hvað hlutirnir kosta og hver aukakostnaðurinn er, treysti ég þeim aðila best og held mig við hann.

Heiðrún Villa

 


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir