Ísland á válista!

Kunnum við ekki að höndla hið óvænta?

Þegar litið er aftur í tímann kemur upp í hugann hin áleitna mynd af veikum dýrum sem ekki höfðu lengur nóg á heimaslóðum og leituðu nýrra leiða í leit að fæðu.  Koma dýranna, hið óvænta, olli uppnámi á eyjunni litlu, Íslandi.  Voru bjarndýrin kannski fyrirboði þeirrar hnignunar sem við horfumst í augu við núna?  Eigum við ekki lengur æðruleysið til að mæta hinu óvænta? 

Það að þekkja ekki æðruleysið lengur getur verið ein af birtingarmyndum ofgnóttar.  Þegar litið er yfir þróunina síðasta áratug, í ljósi atburða síðustu daga, þá þarf það ekki að koma manni á óvart að svona hafi farið.  Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem kapítalisminn hefur sprungið.  Þegar litið er til heimssögunnar má vera ljóst að það er í eðli hans að springa.  Það er hins vegar verra ef viðvörunarbjöllurnar ná ekki að hljóma í eyrum þeirra sem stjórna.  En spillingin sem fylgir græðginni nær auðvitað ekki síður til stjórnendanna og byrgir þeim sýn.  Hún hlýtur að hafa náð hámarki sínu þegar ljóst er að menn, orðnir yfirfullir af hroka og vissu um að þeir séu öðrum æðri og betri, hlusta ekki á þá sem hafa gefið sér tíma til að skoða málin og komið með ábendingar um að nú skuli “glannareiðin” stöðvuð. 

Í Silfri Egils í gær hafði Einar Már Guðmundsson rithöfundur orð á því hversu niðurlægjandi það væri að fá stöðugt ábendingar um það frá fyrirmönnum þjóðarinnar að fólk skuli halda ró sinni og vera gott hvert við annað.  Einar sagðist ekki sjá að við hefðum verið neitt sérstaklega vond hvert við annað en við vildum fá skýringar á því sem væri að gerast. Það væri í raun óþolandi að talað væri niður til þjóðarinnar.  Þessu er ég sammála vegna þess að ég sé ekki hvernig mynda á samstöðu með þessari litlu þjóð ef “gestgjafar hinnar kapítalísku veislu” ætla að mæta þjóðinni með hroka á meðan þeir reyna að finna leið til að laga óreiðuna.

Eins og staðan er núna virðast ekki margir vegir færir og lítur út fyrir að helsti kosturinn sé sá að þiggja aðstoð frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum, raunverulega það eina sem er í boði.  Jón Baldvin Hannibalsson fyrrum utanríkisráðherra og sendiherra sagði í viðtali við Egil í Silfrinu í gær að "ef" samningur við gjaldeyrissjóðinn væri eina leiðin til að bjarga okkur frá óviðráðanlegum skuldum væri það eðlileg krafa að allir Íslendingar stæðu saman að tiltekt.  Hann lagði það til að stjórn Seðlabankans yrði skipt út því hún væri rúin trausti, bæði á Íslandi og á alþjóðavettvangi.  Hann lagði það einnig til að fengnir yrðu erlendir, hlutlausir aðilar til að rannsaka, hvað hefði í raun og veru gerst, vegna þeirrar gríðarlegu spillingar og hagsmunatengsla sem lama íslensk stjórnmál.

Nú er bara spurningin hverjum við seljum landið!  Það reynir á biðlundina að fylgjast með því hvaða skref verða tekin og ljóst að menn stökkva ekki að Alþjóða gjaldeyrissjóðinn enda hefur hann ekki alls staðar skilið eftir sig falleg spor.  Við hljótum að horfa til þess að ef dregið verður úr útgjöldum hins opinbera og einkavæðing studd á nýjan leik að þá séum við að missa hluta af sjálfstæði okkar.  Staða okkar yrði talsvert bágari ef kæmi til einkavæðingar á orkulindunum. heilbrigðiskerfinu og menntastofnunum.  Það er erfitt að hugsa það til enda.

Það er gott að hafa sterka sjálfsmynd en hroki er afleitur.  Nú þurfum við á æðruleysinu að halda og læt ég Matthíasi Jochumssyni það eftir að eiga hér lokaorð með lokaerindi kvæðisins “Hafísinn”:

                                “Veikur maður, hræðstu eigi, hlýddu,

                                 hreyk þér eigi, þoldu, stríddu.

                                 Þú ert strá, en stórt er Drottins vald.

                                 Hel og fár þér finnst á þínum vegi;

                                 fávís maður, vittu, svo er eigi,

                                 haltu fast í Herrans klæðafald!

                                 Lát svo geisa lögmál fjörs og nauða,

                                 lífið hvorki skilur þú né hel:

                                 Trú þú: - upp úr djúpi dauða

                                 Drottins rennur fagrahvel.”


                                                               Hlín Bolladóttir

 


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir