Ísland í augum útlendinga: Refsivistir & Giftingaraldur

Sasha Glenovich Mynd: Ari Bynjólfsson
Í hinni eilífu þekkingarleit er ekki nóg að rýna bara í bækur. Sem víðförull ferðalangur veit ég vel að til að komast að kjarnanum í skoðunum annars fólks og hópa þarf einfaldlega að tala við það. Vandinn er oftast sá að vandræðalegt er að spyrja fólk beint út í skoðanir þeirra á viðkvæmum málum líkt og peninga, fíkniefni, viðhorf í garð samkynhneigðra og trúmál. Hugsanlega setur maður óafvitandi upp annað andlit þegar maður á að tala um hversu stoltur maður er að heimabyggð sinni og fer vægt í gagnrýni á eigið samfélag.

 

Blaðamaður skellti sér í göngutúr með Sasha Glenovich, en hún kemur frá Seattle á norðvestur-strandlengju Bandaríkjanna og stundar hún nám í stjórnmálafræði við Háskólann í Washington. Það sem vakti mesta athygli er líkindi með okkar samfélögum. Þó svo hún komi hinum megin að á jarðarkringlunni þá er greinilegt að siðferðismat Seattlebúa er að miklu leyti mjög svipað, þó við bæði höfum fyrirvarann á að alhæfa yfir á samfélögin í heild.

Fyrsta sem við rekumst á er afstaða samfélaganna til refsidóma og löggæslu. Í Bandaríkjunum er undantekningalaust dæmt til langrar refsivistar fyrir hin ýmsu brot, sjálfsagt þykir að morðingi fái aldrei að sleppa úr fangelsi. Sasha öfundar okkur ekki þar sem hún á einfaldlega erfitt með að skilja hvernig manneskja sem er dæmd fyrir morð getur verið laus allra mála af höndum yfirvalda eftir 16 ár.

Hún er stolt af því að koma frá þeim hluta Bandaríkjanna sem er hvað umburðarlyndast gagnvart samkynhneigðum, Washington-fylki lögleiddi nýverið hjónaband fólks af sama kyni og kannast hún ekki við neinn úr sínu nánasta umhverfi sem sér neitt athugavert við það. Þó hún viðurkenni fúslega að hugsanlega séu aðrir hópar í Seattle sem séu mótfallnir slíku fyrirkomulagi. Um hjónaband almennt er óskastaðan í hennar samfélagi að par gifti sig áður en það hugar á barneignir. Barneignir unglinga sé vaxandi félagslegt vandamál og ungt fólk er hvatt til að gifta sig fyrr. ,,Einfaldlega fáránlegt og elur bara af sér fleiri skilnaði“ segir Sasha og finnst mikið til koma okkar Hagstofutalna sem gefur til kynna töluvert hærri giftingaraldur en fyrirfinnst í Bandaríkjunum.

Merkilegt að mínu mati er afstaða hennar til að koma frá stórborg til Akureyrar og finna ekki fyrir miklum mun. Eini munurinn að hennar mati séu styttri vegalengdir. Þjónustan og vöruframboð sé sambærileg þar sem ef eitthvað vantar er einfaldlega hægt að panta það í gegnum netið. Hér sé færra fólk á ferð í verslunarmiðstöðinni og hér dugi að hafa bara eina slíka. Helst sem hún saknar er sérverslun með búninga þar sem hrekkjavaka háskólanema er í næstu viku.

Það er mjög gaman að spjalla við manneskju sem er á sama stað í lífinu, bara ekki á sama stað á hnettinum. Sasha hefur óheftan aðgang að gríðarstórum háskóla, býr í stórborg í landi sem fjöldi manns reynir að flytja til á hverju ári. Framtíðin er þó önnur hjá henni þar sem háskólanám í Bandaríkjunum er mjög dýrt eða um 30.000 dollarar á ári Styrkir og aðstoð frá hinu opinbera gerir henni auðveldara fyrir en mörgum öðrum og vonast hún til að skulda einungis 25.000 dollara eftir grunnnám. Ofan á það bætast gjöld sem við eigum sameiginleg eins og fæða og híbýli. Þó þessi hálf-mannfræðilega greining skili manni miklu, þarf undirritaður að heimsækja hennar háskóla til að ákveða hvar sé betra að búa.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir