Íslensk staðarheiti

Mynd: strandaspjall.blogcentral.is

Ég er frá Borgarnesi og þar sem ég er í námi á Akureyri þýðir það að ég ferðast reglulega á milli þessarra staða á litla bílnum mínum til að hitta fjölskyldu og vini. Á þessu ferðalag hefur maður tíma til að láta hugann reika og á seinasta ferðalagi mínu þá fór ég að hugsa um íslensk staðarheiti. 

Að mínu mati þá eru staðarheiti á Íslandi leiðinlega umhverfislýsandi (Reykjavík - það er reykur í þessari vík sem við búum í, frumlegt) eða orðin gamaldags (Egilsstaðir - hver er þessi Egill? Þetta var viðeigandi á 15. öld).


Ég geri mér grein fyrir því að Íslendingar elska sögu landsins sem er auðvitað frábært og aðdáunarvert en ég legg til skemmtilegri lausn.

Ég legg til að við endurnefnum staði sem eru með leiðinleg eða ófrumleg nöfn og köllum þá eitthvað hresst og skemmtilegt. Þetta gæti til dæmis verið Jíbbí, Hallóhæ, Jííííhaaa, Vúhú og Vííííí.

Við gætum byrjað á því að endurnefna Holtavörðuheiði og Þrengslin.


„Já ég er að keyra yfir Vúhú" - Þetta hljómar bara léttara og hressara.


Næsta skref væri að endurskoða nöfn á íslenskum eldfjöllum og umsvifalaust breyta nöfnum á þeim eldfjöllum sem eru líkleg til að gjósa á næstunni. Ef við hefðum verið nógu skynsöm til að endurnefna Eyjafjallajökul áður en hann gaus hefðum við auðveldað vinnu fréttamanna úti í heimi og hlíft okkur frá því háði sem við fengum útaf þessu flókna nafni.


„Jibbídú er byrjað að gjósa!" - Mun þægilegra og ekki svona alvarlegt.


Þegar þetta frumkvæði er komið getur fólk svo farið að huga að því hvort að það megi ekki hressa upp á nöfn bæjarfélaga.


Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að fyrir mörgum hljómar þessi hugmynd bjánalega. Tilgangur þessa pistils er heldur ekki að hefja herferð til að breyta staðarnöfnum á Íslandi heldur væri einfaldlega gaman ef fólk myndi hugsa hvernig  viðbrögð þeirra yrðu ef það væri hresst aðeins upp á staðarnöfn. Þegar á botninn er hvolft erum við tilfinningaverur og allskonar áreiti hefur áhrif á líðan okkar.


Ég legg bara til að við aukum jákvætt áreiti í heiminum, kannski myndum við brosa aðeins meira. 
Að auki, hverskonar nöfn eru Hólmavík og Skagafjörður? Eru þetta ekki mótsagnir? Hvort ertu á þessum hólmi eða í víkinni?Aðalsteinn Hugi Gíslason


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir