Íslensk ull – afbragðs almannatengsl

Það skyldi aldrei vera að sauðkindin ætti eftir að bjarga orðspori Íslendinga.
Breskir fjölmiðlar hafa margir fjallað um söfnun sem stjórnendur þáttarins Í Bítið á Bylgjunni hafa staðið fyrir að undanförnu, en söfnunin ber yfirskriftina Ull til UK. Með söfnuninni tókst að fylla heilan gám af íslenskum ullarfatnaði, sem senda á til Bretlands og dreifa á meðal eldri borgara þar í landi. Eiga breskir fjölmiðlamenn margir hverjir vart orð til að lýsa þeirri gjafmildi sem Íslendingar sýna með þessu, „þrátt fyrir að landið eigi enga peninga“, eins og blaðamaður The Sun kemst að orði. Talsmaður samtaka ellilífeyrisþega í Bretlandi segir þetta svo sýna vel hversu illa þarlend stjórnvöld hafi staðið sig í að takast á við þá köldu staðreynd að sennilega muni um 1 af hverjum 12 eldri borgurum þar í landi láta lífið í komandi vetrarhörkum.

Hér er komið afbragðsgott dæmi um jákvæða almannatengslavinnu, sem er sennilega engin vanþörf á þessa dagana. Ekki aðeins eru Íslendingar gjafmildir þrátt fyrir að eiga varla nokkurn aur, heldur er líka Gordon Brown, góðvinur okkar, algjör skúrkur sökum vanhæfni. Nú veit ég það með vissu að PR-mál voru ekki í hugum þessa ágæta útvarpsfólks þegar það fór af stað með söfnunina, en engu að síður fara fjölmiðlar nú fögrum orðum um Íslendinga, allavega svona inn á milli. Spáið í því hvað hefði verið hægt að gera ef við hefðum virkilega látið vinna svolitla almannatengslavinnu fyrir okkur þegar (og jafnvel áður en) lætin voru hvað mest.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir