Íslenskur námsmaður í Svíþjóð

Sólveig María Ólafsdóttir
Fréttamaður Landpóstsins ræddi við Sólveigu Maríu Ólafsdóttur um kreppuna, lífið í Svíþjóð og námið í háskólanum í Lundi.

Fréttamaður Landpósts hafði samband við Sólveigu Maríu Ólafsdóttir sem er íslenskur námsmaður í Svíðþjóð. Hún nemur Hugfræði við heimspekideild háskólans í Lundi. Fréttamaður lagði fyrir hana nokkrar spurningar varðandi kreppuna og hvernig hún kæmi við hana. Fréttamaður spurði einnig hvernig reynsla hennar af háskólanum í Lundi væri í samanburði við aðra háskóla hér á Íslandi, en hún hefur bæði stundað nám við Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands.

            Sólveig segir mun erfiðara að komast inní kerfið í Svíþjóð og segir að kerfið þar sé mun flóknara en hér, sem dæmi þurfti hún að hafa mikið fyrir því að finna út hvernig hún átti að borga skólagjöldin. Skólagjöldin þar eru þó umtalsvert lægri en hér, önnin í háskólanum í Lundi kostar um það bil 6000 íslenskar krónur á móti 45 þúsund íslenskum krónum fyrir árið í háskólanum á Akureyri. Sólveig segir námið vera svipað upp byggt og í sumum deildum í háskólanum á Akureyri, þar er mikið um hópavinnu og verkefnavinnu ekki ólíkt símatskerfinu í HA. Í hugfræðideildinni í háskólanum í Lundi er mikið lagt uppúr umræðum, nemendum er skipt í hópa og eiga að ræða námið og námsefni bæði innan hópanna og svo líka milli hópa í kennslustundum. Hún segir fyrirkomulagið á náminu í HÍ vera gjörólíkt fyrirkomulaginu í háskólaum á Akureyri og í Lundi. Sólveig var í sálfræði í HÍ og voru þar einungis fyrirlestrar og lokapróf og lítið sem ekkert um hópavinnu eða símatsáfanga og umhverfið mun ópersónulegra.

            Þegar Sólveig er spurð út í það hvort kreppan hafi einhver áhrif á líf hennar úti í Lundi, segir hún það mikinn kost að geta stjórnað fréttaflæðinu, hún lítur um það bil einu sinni á dag inn á mbl.is en gefst oft upp á að fylgjast með öllu því sem er að gerast og finnur fyrir vonleysi þegar hún sér hvað ástandið er slæmt í landinu. Þá finnst henni gott að geta kúplað sig frá þeim fréttum sem greina frá ástandinu og finnur því lítið fyrir kreppunni. Einnig segist hún finna mikinn mun á svíum og íslendingum þegar horft er á lífsgæðakapphlaup en segja má að svíar taki lítinn sem engan þátt í slíku. Svíar hugsa mikið um notagildi og eru ekki í kappi við nágrannan um það hvor þeirra eigi stærri jeppa eða sjónvarp. Sólveig segist finna fyrir létti yfir því að þurfa ekki að taka þátt í því lífsgæðakapphlaupi sem einkennt hefur Ísland undanfarin ár. Hún er þó að fara að flytja aftur til Íslands því að íbúðin sem hún og kærastinn hennar voru að leigja er seld. Sólveig segir blendnar tilfinningar fylgja því að flytja aftur til Íslands og koma inn í þetta óvissuástand sem ríkir þar. Þó væri hún enn tregari til að flytja aftur heim ef hún væri ekki það heppin að vera örugg um vinnu og húsnæði á Íslandi. Tengdaforeldrar hennar eiga íbúð í Reykjavík sem þau leigja út og geta þau fengið að leigja hana þegar hún losnar. Einnig er Sólveig örugg um vinnu þegar heim er komið. Kærastinn hennar mun fara í staðnám í tölvunarfræði í HR og Sólveig mun fara að vinna við rannsóknarvinnu. Hún segir þetta öryggi spila stóran þátt í því að þau hafi ákveðið að flytja aftur heim því að eins og ástandið er í dag á Íslandi er ekki hlaupið að því að fá vinnu eða húsnæði.

 

 


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir