Flýtilyklar
Atvinnumennirnir okkar - Hallgrímur Jónasson
Atvinnumennirnir okkar er liður hér á Landpóstinum þar sem við munum gera grein fyrir þeim atvinnuíþróttamönnum sem Akureyri hefur alið af sér á undanförnum árum. Akureyringar geta státað af því að eiga marga framúrskarandi íþróttamenn og ætlum við að skoða þau þeirra sem nú stunda íþrótt sína erlendis. Liðurinn einskorðast við boltaíþróttir en nokkrir af fremstu íþróttamönnum þjóðarinnar hafa tekið sín fyrstu skref á Akureyri.
Hallgrímur Jónasson
Fæðingardagur: 4.maí 1986.
Núverandi lið: OB (Danska úrvalsdeildin)
Leikmannaferill: Völsungur, Þór, Keflavík, GAIS, SönderjyskE, OB.
Landsleikir: 14
Hallgrímur Jónasson hóf meistaraflokksferil sinn með Völsungi á Húsavík árið 2002 en þá var hann sextán ára gamall. Í kjölfarið gekk hann til liðs við Þór en þrátt fyrir að vera enn á 2.flokks aldri gekk Hallgrímur beint inn í liðið hjá meistaraflokki Þórs sem var nálægt því að fara upp úr 1.deildinni árið 2003 en lenti í 3.sæti og lék Hallgrímur 16 af 18 leikjum liðsins það ár. Hallgrímur lék með Þór í tvö ár til viðbótar en meiddist illa á síðasta ári sínu hjá Þór.
Eftir það tímabil gekk hann í raðir Keflavíkur og varð bikarmeistari með Suðurnesjarliðinu á sínu fyrsta tímabili, árið 2006. Tveimur árum síðar var Keflavík hársbreidd frá því að landa Íslandsmeistaratitlinum en þurfti að gera sér annað sætið að góðu. Hallgrímur var lykilmaður í liðinu það ár og vakti frammistaða hans athygli erlendra liða.
Úr varð að hann samdi við sænska úrvalsdeildarlið GAIS og lék með liðinu í tvö ár áður en hann færði sig um set til Danmerkur þar sem hann samdi við úrvalsdeildarlið SönderjyskE. Hallgrímur festi sig fljótt í sessi hjá SönderjyskE og var einn mikilvægasti leikmaður liðsins á þeim tíma sem hann var hjá liðinu en hann samdi við danska stórliðið OB á síðasta ári og hóf að leika með liðinu um síðustu áramót. Hallgrímur hefur fest sig í sessi í vörn OB og er orðinn fyrirliði liðsins sem situr í áttunda sæti dönsku úrvalsdeildarinnar þegar þetta er skrifað.
Hallgrímur hefur leikið 14 A-landsleiki fyrir Íslands hönd og hefur verið fastamaður í landsliðshópnum undanfarin ár en hefur þurft að verma varamannabekkinn ansi oft. Hann hefur skorað þrjú mörk í þessum 14 leikjum. Tvö þeirra komu í frægum leik gegn Portúgal en hann tapaðist 5-3 þar sem ofurstjarnan Cristiano Ronaldo lék á als oddi í liði Portúgals.
Sjá einnig
Atvinnumennirnir okkar - Arna Sif Ásgrímsdóttir
Atvinnumennirnir okkar - Oddur Gretarsson
Atvinnumennirnir okkar - Haukur Heiðar Hauksson
Atvinnumennirnir okkar - Birkir Bjarnason
Atvinnumennirnir okkar - Atli Ævar Ingólfsson
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
Athugasemdir