Flýtilyklar
Atvinnumennirnir okkar - Oddur Gretarsson
Atvinnumennirnir okkar er liður hér á Landpóstinum þar sem við munum gera grein fyrir þeim atvinnuíþróttamönnum sem Akureyri hefur alið af sér á undanförnum árum. Akureyringar geta státað af því að eiga marga framúrskarandi íþróttamenn og ætlum við að skoða þau þeirra sem nú stunda íþrótt sína erlendis. Liðurinn einskorðast við boltaíþróttir en nokkrir af fremstu íþróttamönnum þjóðarinnar hafa tekið sín fyrstu skref á Akureyri.
Oddur Gretarsson
Fæðingardagur: 20.júlí 1990
Núverandi lið: Emsdetten (Þýska B-deildin)
Leikmannaferill: Þór, Akureyri Handboltafélag, Emsdetten
Landsleikir: 18
Oddur ólst upp í yngri flokkum Þórs og 15 ára gamall lék hann sína fyrstu leiki með meistaraflokki félagsins. Í kjölfarið sameinuðust Þór og KA undir merkjum Akureyrar Handboltafélags og lék Oddur ekkert með meistaraflokki á fyrsta ári nýstofnaðs félags. Oddur kom inn í liðið á öðru tímabili félagsins, 2007/2008 og er óhætt að segja að hann sé einn besti leikmaður í sögu Akureyri Handboltafélags. Oddur var valinn efnilegasti leikmaður Íslandsmótsins árið 2010 og á næsta tímabili á eftir var hann algjör lykilmaður í liði Akureyrar sem vann sinn fyrsta og eina titil í sögu félagsins þegar liðið varð Deildarmeistari á vormánuðum 2011. Á þessu tímabili komst liðið einnig í bikarúrslitaleik en beið þar lægri hlut fyrir Val. Oddur meiðist svo illa í leik gegn Haukum í upphafi tímabilsins árið 2012 þegar hann slítur krossband.
Þrátt fyrir að hafa verið meiddur nær allt tímabilið 2012/2013 var Oddur keyptur til þýska úrvalsdeildarliðsins Emsdetten sumarið 2013. Liðið var þá nýliði í deildinni og átti erfitt uppdráttar þar sem liðið féll úr úrvalsdeildinni á sínu fyrsta tímabili þar. Oddur er enn hjá Emsdetten, er á sínu þriðja tímabili og er helsti markaskorari liðsins. Hann skoraði 15 mörk í leik í þýsku B-deildinni á dögunum og er langmarkahæsti leikmaður liðsins á þessu tímabili með 110 mörk í 15 leikjum. Til að setja magnaðan árangur Oddurs í vetur í samhengi þá skoraði hann 128 mörk í 36 leikjum í fyrra og var þá næstmarkahæsti leikmaður liðsins. Emsdetten situr í 6.sæti deildarinnar þegar þetta er skrifað en setur stefnuna á að komast upp um deild á þessu tímabili.
Oddur hefur leikið 18 A-landsleiki fyrir Íslands hönd og gert í þeim 31 mark en hann var tvítugur að aldri þegar hann fór á sitt fyrsta stórmót sem var HM í Svíþjóð árið 2011. Ári síðar fór Oddur með íslenska liðinu á EM í Serbíu en var skipt út eftir riðlakeppnina. Hann hefur ekki hlotið náð fyrir augum landsliðsþjálfaranna á undanförnum stórmótum en samkeppnin í stöðu Odds er mikil þar sem goðsögnin Guðjón Valur Sigurðsson á fast sæti í byrjunarliðinu og þeir Bjarki Már Elísson, leikmaður Fuchse Berlin og Stefán Rafn Sigurmannsson, leikmaður Rhein-Neckar Löwen,hafa verið á undan Oddi sem varamenn Guðjóns Vals.
Sjá einnig
Atvinnumennirnir okkar - Haukur Heiðar Hauksson
Atvinnumennirnir okkar - Birkir Bjarnason
Atvinnumennirnir okkar - Atli Ævar Ingólfsson
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
Athugasemdir