Steven Gerrard leggur skóna á hilluna.

Mynd: ESPN

Steven Gerrard, fyrrum fyrirliði Liverpool og enska landsliðsins, ákvað í dag að láta af atvinnumennsku í knattspyrnu. Á 19 ára knattspyrnu ferli sínum spilaði Gerrard 17 tímabil með Liverpool, en undanfarin tvö tímabil hafði kappinn leikið með LA Galaxy í bandarísku MLS deildinni.

Gerrard sem er í guða tölu hjá aðdáendum Liverpool, lék 710 leiki með liðinu, skoraði 186 mörk og vann með því átta titla. Þá er hann fjórði leikja­hæsti leikmaður í sögu enska landsliðsins með 114 leiki. Var hann lengi fyr­irliði landsliðsins, eða á þrem­ur af þeim sex stór­mót­um sem að hann spilaði á.

Með Liverpool varð Gerrard þrisvar enskur deildarbikarmeistari, tvisvar bikarmeistari en jafnframt var hann fyrirliði Liverpool, þegar liðið vann meistaradeildina árið 2005. Þá var Gerrard meðal annars tvisvar valinn leikmaður ársins í ensku úrvalsdeildinni og þrisvar valinn í UEFA lið ársins í Evrópu.

Í tilkynningu frá Gerrard í dag segist hann ekki vera hættur öllum afskiptum af knattspyrnu, þó skórnir séu komnir á hilluna. En nýlega var hann orðaður við knattspyrnustjórastöðuna hjá MK Dons í ensku C-deildinni. Því tilboði hafnaði Gerrard í síðustu viku, þar sem honum finnst hann ekki vera tilbúinn í að gerast knattspyrnustjóri strax, en hins vegar hefur hann verið orðaður við stöðu í þjálfaraliði Liverpool.   


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir