Kæri bílastæðadólgur

Mynd - www.dv.is

Það hafa án efa flestir lesið eða heyrt um ökumanninn sem fyrr í mánuðinum gerðist svo djarfur að leggja bifreið sinni í tvö bílastæði ætluð fötluðum einstaklingum fyrir utan verslun á höfuðborgarsvæðinu. Fréttir af þessu tagi fá mann til að hugsa og velta því fyrir sér hvað við getum í raun og veru verið gráðug og eigingjörn. 

Kæri bílastæðadólgur
Ég veit og við vitum öll að þú ætlaðir bara „að skreppa í tvær mínútur“ við vitum að konan þín hefði eflaust fært bílinn ef einhver fatlaður einstaklingur hefði þurft að nota stæðin og við vitum líka að þetta er nú ekki versta lögbrot Íslandssögunnar.

En þannig er það ekki sem reglurnar virka. Reglurnar í samfélaginu, þar með taldar umferðareglurnar eru settar til að við fylgjum þeim, og enginn okkar, ekki þú og ekki ég megum brjóta þær eða beygja eftir okkar hentisemi. Við verðum að virða þær og fylgja, þó það sé stundum freistandi og í raun skaðar engan að beygja þær, en það má ekki. Við vitum öll að þú ert ekki eini ökumaðurinn sem hefur brotið lög eins og þessi. Við vitum líka að það er án efa mjög svekkjandi að einhver hafi endilega þurft að taka mynd af þínum bíl en aðrir gera nákvæmlega það sama og enginn tekur mynd.

Þess vegna þurfum við öll að taka okkur á og fylgja reglunum. Við þurfum að hætta að leggja þar sem ekki má leggja, þótt við ætlum að vera ótrúlega fljót. Við verðum öll að fara í bílbelti, þótt við erum rétt að skjótast og við eigum öll að hleypa gömlu konunni yfir götuna þótt við séum orðin alltof sein (og hún gangi á hraða snigilsins).

Við höfum öll lent í því að ómeðvitað leyfum við því að fara í taugarnar á okkur þegar við neyðumst til þess að leggja lengra frá inngöngum ýmissa bygginga þegar öll „bestu“ stæðin eru frátekin. Okkur finnst það ótrúlegt vesen fyrir okkur að leggja lengra frá, þurfa að labba alla þessa leið, og til baka jafnvel með þunga pokana, tala nú ekki um þegar það rignir! Það þekkja það líka margir hvað það getur verið svekkjandi þegar bílarnir okkar eru „dældaðir“ og því fylgir heljarinnar viðgerðar- og trygginga vesen. En er það ekki minna vesen heldur en að vera til dæmis fastur í hjólastól? Á meðan við bölvum þessu veseni myndu flestir í hjólastól líklegast gefa margt fyrir að fá að „brasa“ í því að labba yfir bílastæðið í rigningunni.

Þessi litla vangavelta er ekki skrifuð til að lesa þessum blessaða ökumanni pistilinn, það hafa án efa nógu margir gert það hingað til. Lítum frekar á þetta sem ágætis áminningu fyrir okkur öll. Hættum að vera eigingjörn og hugsum um aðra, virðum reglurnar sem samfélagið setur okkur og þá gengur allt betur. Komum fram við aðra eins og við viljum að aðrir komi fram við okkur.

Tenglar tengdir frétt

http://www.dv.is/frettir/2013/9/1/bilastaedadolgurinn-sibrotamadur-bilastaedum/

http://www.dv.is/frettir/2013/9/2/mer-er-bara-drullusama-hvad-folki-finnst/

http://www.dv.is/frettir/2013/9/1/er-thetta-i-lagi-eda-hvad-tvo-staedi-fyrir-fatlada-og-ein-gangbraut/


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir