Kjarnorkuvopn

Kjarnorkusprengjuský yfir Hiroshima (t.v.) og Nagasaki (t.h.) //Mynd fengin af vef Wikipedia

Innrás Bandaríkjamanna í Íran gæti verið á næsta leyti ef marka má frétt sem birtist á vef RÚV. Ástæðan er ásakanir um að Íran auðgi úran til að þróa kjarnaorkuvopn. Mér finnst þetta ansi léleg ástæða. Ekki svo að skilja að ég sé fylgjandi því að fleiri þjóðir komi sér upp kjarnorkuvopnum en ég er alfarið á móti stríðum. Þátttakendur stríða eru ekki þeir sem eru ábyrgir fyrir stöðunni heldur er þetta venjulegt fólk eins og ég og þú. Það er sorglegt að hugsa til þess að við, mannfólkið, virðumst aldrei læra af sögunni.


Ég man ekki eftir kalda stríðinu og veit ekki hvernig fólki leið þegar hættan á að kjarnorkustyrjöld brytist út var raunveruleg ógn við heiminn. Ég get þó ímyndað mér að tilfinningin hafi ekki verið góð. En ég spyr mig hvers vegna í ósköpunum er kjarnorkuvopnum ekki eytt? Einhverjir vilja meina að stóru þjóðirnar (lesist Bandaríkin og Rússland) vilji ekki að keppinautarnir eigi kjarnorkuvopn, enda er „hinum“ ekki treystandi til að hafa slík vopn undir höndum (því restinni af heiminum líður svoooo vel að vita af því að þessar þjóðir eigi kjarnorkuvopn – lesist með kaldhæðni). Aðrir geta sér til um að kjarnorkuvopnaþjóðirnar hugsi einhvern veginn á þá leið að það sé betra að eiga vopnin til (helst á lager) og þurfa ekki á þeim að halda frekar en að þurfa á þeim að halda og eiga þau ekki til.

Ég veit að í gildi er samkomulag milli Bandaríkjanna og Rússlands um að fækka kjarnorkuvopnum sínum niður í 1550 sprengjur.1550!!! Ég vissi ekki einu sinni að það væru til svona mikið af sprengjum. Til hvers í ósköpunum þarf allar þessar sprengjur? Vilja þessar tvær þjóðir vera tilbúnar ef það þyrfti að sprengja upp hnöttinn? Nei, þá held ég að það yrði betra ef alþjóðasamfélagið mundi gera með sér samning um að eyða öllum kjarnorkuvopnum. Ef sú staða skyldi koma upp að ein þjóð myndi beita kjarnorkuvopnum gegn annarri þjóð ættu allar aðrar þjóðir á þessari plánetu að sameinast í stríði gegn kjarnorkuvopnayfirgangsseggnum. Ég er ekki að segja að þetta sé eina lausnin og reyni ekki einu sinni að halda því fram að þetta sé góð lausn en þetta er þó allavega byrjunin á að losa alþjóðasamfélagið við þessi ógeðisvopn. Það er líklega best að enda þessar hugleiðingar með því að vitna í orð Alberts Einsteins:

Ég veit ekki með hverju verður barist í þriðju heimsstyrjöldinni en í þeirri fjórðu verður barist með steinum og spýtum.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir