Klikkaði keisarinn

Mynd: bible-history.com

Á þessum degi, 17. mars, hafa ýmsir merkilegir hlutir gerst í gegnum árin og aldirnar. Ítalska líðveldinu er breytt í ítalska konungsveldið árið 1805 með Napoleon Bonaparte sem konung og  Golda Meir verður fyrsta konan til að verða forsætisráðherra Ísraels árið 1969. En það sem mér fannst merkilegast var að Markús Árelíus Rómar keisari lést á þessum degi árið 180 e.kr. og sonur hans Commodus tók við. Hann þekkja líklega flestir úr myndinni Gladiator sem leikstýrt var af Ridley Scott en Joaquin Phoenix lék Commodus. Sú mynd verður hinsvegar seint talin til áreiðanlegra heimilda um þetta tímabil rómverskrar sögu enda fátt komið frá Hollywood sem á sér stað í raunveruleikanum.

Þrátt fyrir að flest sé tilbúningur sem fram kemur um Commodus í kvikmyndinni Gladiator verður þó að viðurkennast að margt í fari hans virðist hafa verið mjög einkennilegt. Heimildir herma að hann hafi verið sterkur og öflugur maður en alveg einstaklega latur. Sérstaklega þegar kom að stjórnun ríkisins sem hann hafði engan áhuga á og vildi þess í stað einbeita sér frekar að veiðum og bardögum í hringleikahúsinu. Hann lét sér þó ekki nægja að vera áhorfandi á þeim leikum heldur tók hann virkan þátt í bardögum í hringleikahúsinu. Allt var þetta partur af þeirri ímynd sem hann reyndi að skapa sér en hann vildi meina að hann væri í raun Herkúles endurholdgaður og þ.a.l. nokkurskonar hálfguð. Til þess að geta einbeitt sér að þessum tómstundum sínum lét hann aðra sjá um daglegan rekstur ríkisins og vildi sem minnst koma þar nálægt.

Síðustu ár Commodusar á valdastóli voru mjög sérstök en hann ákvað m.a. að skipta um nafn á höfuðborginni og Róm varð Colonia Commodiana. Einnig tók hann upp á því að tilkinna það að hann ætlaði að taka embætti konsúls upp á sína arma. Það hefði líklega þótt nógu merkilegt eitt og sér en þegar hann tilkynnti um þetta var hann klæddur sem skilmingaþræll. Það fór ekki vel í einhverja og árið 192 tóku menn til sinna ráða og létu myrða hann.

Commodus er ekki eini Rómverski keisarinn sem sagður er hafa verið geðveikur en Caligula og Nero hafa einnig fengið sömu útreið í sögunni. Spurningin er auðvitað hvort allt sé satt og rétt sem fram kemur í heimildunum því eins og við vitum eru það sigurvegararnir sem skrifa söguna og í flestum tilfellum voru þessir menn drepnir af andstæðingum sínum. Kannski var Commodus allt annar maður en sá sem fram kemur í bókum og kvikmyndum.

Hver veit?


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir