Knattspyrnuáhugi eða fótboltaböl

úr myndasafni google.com

Þótt íþróttir séu í flestum tilvikum af hinu góða, má flestu ofgera. Þegar tilvera einstaklingsins sjálfs og allra annarra sem honum tengjast er farin að snúast um íþróttaiðkunina, íþróttaáhorfið eða annað sem tengist viðkomandi íþrótt er dálítið langt gengið. 

Tilveran snerist um bolta

Mín daglega tilvera litaðist um árabil af ástandi sem mætti ef til vill kalla fótboltaböl. Þetta ástand lýsir sér í óstjórnlegum áhuga annarra fjölskyldumeðlima á knattspyrnu. Sem betur fer hefur oft verið gaman að þessu brölti og stundum eru knattspyrnuleikir spennandi. Jafnvel hefur það hent að afkvæmin hafi komið heim með bikar eða verðlaunapening, sem auðvitað er skemmtilegt. Yngsta dóttirin varð t.d. eitt árið Íslandsmeistari með sínum flokki í Þór og hefur í tvígang síðan lent í 2. sæti í Íslandsmótinu. Hún er enn á kafi í fótboltanum, 16 ára gömul. Eldri dóttirin, yngri sonurinn og tengdasonurinn, öll rúmlega tvítug, stunda fótboltaæfingar af einhverju tagi og sá elsti er enn í boltanum orðinn 28 ára gamall og útskrifaður úr háskóla.

Ekki eru nema þrjú ár síðan eiginmaðurinn lagði fótboltaskóna, -vonandi endanlega,- á hilluna. Tel ég að það hafi löngu verið tímabært. Mönnum, komnum af léttasta skeiði, hættir nefnilega til að gleyma sínu líkamlega ástandi þegar í leikinn er komið og meiðslahætta er þar af leiðandi afar mikil, sem dæmin sanna. Ég verð þó að viðurkenna að hafa á köflum haft gaman af, bæði þátttöku hans í Pollamótum og einnig vikulegum æfingum sem stundaðar voru um árabil í íþróttahúsinu á Þelamörk. Þær æfingar voru yfirleitt fjölskylduferðir hjá okkur, sem öllum fannst ómissandi liður í tilverunni.

Sumarfrísferðir á fótboltamót

Talandi um fjölskylduferðir, þá hefur mín fjölskylda ekki mikið ferðast annað en á fótboltamót. Sumarfríin hafa verið skipulögð í kringum knattspyrnumót, eða með það fyrir augum að sem fæstar æfingar tapist. Eitt árið var samt ákveðið að fara í sólarlandaferð. Tímasetning var auðvitað valin út frá fótboltaæfingum og leikjum krakkanna og því farið í ágúst, þrátt fyrir að það væri dýrasti tíminn og sá heitasti líka og því óhentugur fyrir skjannahvíta og kuldaþolna fjölskylduna. Það verður að segjast, að þótt þetta hafi allt saman blessast, hefði önnur tímasetning nú verið heppilegri.

Í aldarfjórðung á hliðarlínunni

Já – mitt daglega líf hefur snúist mjög mikið um fótbolta í heilan aldarfjórðung og þeir eru ófáir leikirnir sem ég hef verið viðstödd. Hefi ég mátt leggja á mig ferðalög, vosbúð og ýmis óþægindi  önnur til þess að geta staðið með mínu fólki. Stöku sinnum sem fararstjóri, en oftast sem áhorfandi og stuðningsmaður. Ég hef staðið á hliðarlínu fótboltavallar í öllum veðrum, hingað og þangað um landið innan um aðra argandi foreldra, sem ekki eru allir jafn skemmtilegir. Eiginlega er hryllilegt til þess að hugsa, að það er ekki fyrr en fyrst núna, sem ég er búin að koma mér upp fullnægjandi skjólfatnaði fyrir slíka útivist.

Það, að mæta á völlinn er þó bara lítið brot af minni þátttöku í þessu boltastússi öllu, því auðvitað hefur þurft að passa upp á að æfinga- og keppnisfatnaður sé til taks, það hefur þurft að nesta fólk í keppnisferðir, minna á æfingatíma, skutla og sækja. Svo eru það blessuð gúmmíkornin úr Boganum sem smjúga um allt heima hjá mér. Þá er ótalin ýmis sjálfboðavinna og fundarsetur að ógleymdum heimsóknum til lækna og sjúkraþjálfara. Knattspyrnuiðkunin hefur heldur ekki verið ókeypis. Reyndar tel ég þeim peningum sem í hana fara vel varið, því auðvitað hefur það að æfa, keppa og vera hluti af góðum hópi þroskandi áhrif og styrkir einstaklinginn sem félagsveru.

Áhorfsfíknin illskiljanleg

Allt er þetta þó hátíð í samanburði við áhorfsfíknina hjá fótboltaáhugafólkinu. Það þarf að horfa á enska boltann, íslenska boltann, deild, bikar og hvað þetta heitir nú allt saman, í sjónvarpinu. Já – og helst þarf að sjá þetta allt aftur í endursýningu ef mögulegt er. Oft erum við á ferðinni, t.d. á leið heim eftir borgarferð og þá er bóndinn grunsamlega mikið að flýta sér. Kemur þá, við nánari eftirgrennslan yfirleitt í ljós, að hann hefur hugsað sér að vera kominn heim áður en einhver fótboltaútsending hefst í sjónvarpinu. Alltaf verð ég jafn undrandi, því mér finnst þetta svo „út í hött“ og algerlega andstætt því að lifa í núinu. Hámarki nær þó dellan þegar brestur á með Heimsmeistara- eða Evrópumóti. Þá er affarasælast fyrir mig að afskrifa að mestu samskipti við eiginmanninn og líka synina ef þeir eru heimavið. Dæturnar eru heldur skárri, það er oftast hægt að ná sambandi við þær.

Fátt er svo með öllu illt

Að ofangreindu mætti ef til vill álíta að öll mín tilvera sé táradalur hinn mesti. Að ég sé óánægð nöldurkerling að nota tækifærið til að kvarta yfir eiginmanninum, en því fer fjarri. Augljóslega eru hann og afkvæmin haldin mjög slæmri fótboltabakteríu, en ég þekki mitt fólk ekki öðruvísi en svona og veit ekki hvort ég vildi nokkuð breyta því mikið. Á köflum finnst mér eins og ég sé eina manneskjan á heimilinu sem er með fullu viti, en er það nokkuð svo slæmt? Ekki má svo gleyma því að fótboltadellan getur haft sína kosti. Það er nefnilega enginn vandi að finna út hvenær ég get verið örugg með að fá frið fyrir eiginmanninum, t.d ef ég þarf að fela eitthvað gómsætt fyrir honum. Maður bara les sjónvarpsdagskrána og kannar hvenær næsti leikur er sýndur. Einfalt mál.

Borghildur Kjartansdóttir


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir