Konur eru konum bestar

Ása Kolbrún ásamt Alibina og Vuong mentees

Hvernig á að klæða sig þegar það snjóar, hvað er skólaskemmtun og á að gefa pakka í afmælum geta verið flóknar spurningar fyrir þá sem ekki vita svarið. Það er því ómetanlegt að geta hringt í jafningja til að fá útskýringar á þessum hlutum. Það er einmitt það sem verkefni Rauða Krossins, Félagsvinur - Mentor er málið gengur út á.

Mentor verkefnið er byggt á danskri fyrirmynd sem mannfræðingurinn Gunnhild Riske þróaði, en hennar hugmynd var að aðstoða erlendar konur í Danmörku út á vinnumarkaðinn en erlendar konur voru oft á tíðum með góða menntun sem skilaði sér ekki inn í samfélagið. Þannig paraði hún saman konur úr sömu atvinnustétt til þess að aðstoða erlendu konuna að komast út á vinnumarkaðinn. „Verkefnið er þó aðeins öðruvísi hér á Íslandi því þegar að þetta byrjaði þá voru flestar konurnar með vinnu og eru í raun flestar enn, ég hef ekki tekið eftir mikilli breytingu út af atvinnuleysi, en það má vera að það breytist.“ segir Ása Kolbrún Hauksdóttir, verkefnastjóri Mentors verkefnisins á Íslandi.

„Verkefnið byrjaði  1. september 2007 og var hugsað sem tveggja ára tilraunaverkefni þar sem markmiðið væri að ná 17 pörum fyrsta starfsárið og 34 í heildina á öðru ári en strax í maí 2008, 9 mánuðum seinna, voru pörin orðin 30 þannig að þetta hefur gengið framar vonum hjá okkur hér í Reykjavík“ segir Ása  „Í dag hafa alls 56 pör starfað saman hjá okkur á aldrinum 18 ára og uppí 63 ára, frá löndum allt frá Tansaníu til Víetnam til Litháen“ Oft skilja konurnar ekki hvor aðra til að byrja með og hefur Ása Kolbrún þurft að kalla til túlk en oftast redda þær sér með látbragði og teikningum.

Reglulega eru haldin námskeið fyrir innlendar konur sem áhuga hafa á að gerast mentorar og þær síðan paraðar saman við erlendar konur sem kallast mentee. Mentorar gera sjálfboðaliðasamning til eins árs og mælt er með að pörin hittist 2-4 sinnum í mánuði. Eftir árið eru þó fjölmargar konur sem halda áfram að hittast þó formlegum mentorsamningi sé lokið og þróast oft samband þeirra út í vinskap.

„Það er misjafnt eftir hverju konurnar eru að leita og á það við bæði erlendu og innlendu konurnar. Stundum er þetta bara spurning um félagslegan stuðning, þær langi að hitta einhvern til að spjalla við um daginn og veginn. Það er mikilvægt að hafa jafnræðishugtakið í huga, við getum lært svo rosalega mikið af þeim líka. Það er eiginlega grundvöllurinn fyrir því að þetta virki.“ segir Ása Kolbrún.

Búið er að halda námskeið í Fjarðarbyggð og vonast Ása Kolbrún eftir því að verkefnið fari á fullt skrið þar sem fyrst.

Hafsteinn Jakobsson, framkvæmdarstjóri Rauðakrossdeildar á Akureyri segir að stefnt sé á að hefja verkefnið hér á Akureyri í vor. „Við erum að staðfæra bæklinga og höfum haft samband við fyrirtæki til að fá að kynna þetta og  vonumst við eftir í framhaldi af því, að fá næga þátttöku til að halda áfram með verkefnið” Fyrirspurnir frá konum sem áhuga hafa á að gerast Mentorar hafi borist og segist Hafsteinn vera býsna bjartsýnn á að verkefnið verði árangursríkt.

Nánari upplýsingar um Mentor verkefnið er að finna á heimasíðu Rauða Krossins http://www.redcross.is/ undir Garðabæjardeild.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir