Kostir og gallar þess að vera í staðarnámi

Íslandsklukkan við Háskólann á Akureyri (Mynd: HA)
Háskólanám hefur sína kosti og galla, þegar valið er hvort stunda skuli námið sem staðar- eða fjarnemi þarf einnig að vega og meta þessa þætti. Ástæður þess að nemendur velja þá leið sem þeim hentar eru eflaust eins margar og þeir eru. Ég get eingöngu gert grein fyrir minni leið og mun ég rekja þá sögu hér á eftir.
Ég er fædd og uppalin á Akureyri. Ég tók þá ákvörðun haustið 1999 að fara til Reykjavíkur ognema þar við Kennaraháskólann. Það var lítið mál að rífa mig upp og flytja þar sem ég hafið eingöngu mig sjálfa til að annast. Þar dvaldi ég í þrjú ár og líkaði vel en ákvað að flytja aftur í heimahagana að námi loknu.

Eftir að hafa starfað sem kennari í nokkur ár fór að blunda í mér löngun til frekara náms og þá heillaði guðfræðin mig mest. Ég setti þó alltaf í baklás þar sem námið var eingöngu í boði sem staðarnám í Reykjavík. Þrátt fyrir að hafa átt góðar stundið þar nokkrum árum  áður þá langaði mig ekki að flytja aftur suður, ég var nýbúin að festa kaup á íbúð og koma mér ágætlega fyrir. Allt tal um frekara nám var svo kæft endanlega niður þegar ég kynntist núverandi eiginmanni mínum og í kjölfarið eignaðist ég börnin mín tvö.

Ég var í fæðingarorlofi í tvö samfelld ár og fékk sæmilegt frí frá vinnunni og hélt að ég hefði náð að endurhlaða batteríin og væri nú meira en til í að hella mér aftur út í kennsluna. Ég  hafði þó alltaf annað slagið látið mig dreyma um að fara aftur í nám en fjárhagsstaða leyfði það ekki og við vorum í engu standi til að pakka niður og flytja suður.

Mér líkaði sæmilega í vinnunni en það ólgaði samt allaf eitthvað í mér. Í kjölfar hrunsins horfði ég mikið á fréttir, hlustaði á útvarp og las netmiðla og áhugi minn á fjölmiðlum jókst hægt og bítandi og mig langaði að vita hvað lægi að baki. Ég var orðin nokkuð sátt við að ég færi ekki suður í guðfræðinám, alla vega ekki á næstu árum, þannig að ég fór að skoða hvað væri í boði í Háskólanum á Akureyri. Mjög fljótlega rak ég augun í fjölmiðlafræðina og fór að skoða þann möguleika betur og með hverju skipti sem ég las um námið kviknaði stærri og stærri blossi. Á endanum ræddi ég málið við manninn minn og hann studdi mig eindregið í því að skella mér aftur í skóla.

Ég vissi að ég ætti rétt á eins árs launalausu leyfi frá vinnu án þess að missa minn rétt og ákvað að nýta hann. Ég ákvað að það væri mun betra að geta verið á staðnum, mætt í tíma og hellt mér út í þetta svona fyrsta árið. Ég þekki sjálfa mig líka ágætlega og veit að ég hef sennilega ekki agann í fjarnám. Maðurinn minn er einnig farinn að vinna aftur sem sjómaður og getur verið í burtu í allt að 6 vikur í senn og þann tíma er ég ein um að sjá um ung börn.

Því fannst mér gáfulegast að ég myndi gefa mér 8:00-16:00 tímann í námið. Ég ákvað líka strax að ég ætlaði að vera dugleg að mæta í tíma. Í fyrsta sinn sem ég þurfti að hlusta á upptöku af einum slíkum, eftir veikindi sonar míns, vissi ég að ég hafði spilað þetta rétt.

Það hentar mér miklu betur að vera á staðnum en að hlusta bara á upptökurnar. Mér finnst námið svo skemmtilegt að ég vil geta tekið þátt í tímunum, spurt og séð hvað kennarinn er að gera. Eftir því sem liðið hefur á námið og reynt á það að þurfa einstaka sinnum að stóla á upptökurnar, hef ég séð hvað það er miklu betra að vera á staðnum. Síðast í gær lenti ég í því að vera að fara í gegnum upptöku á tíma þar sem kennarinn gekk um stofuna og í burtu frá upptökutækinu þannig að hljóðið dó næstum út. Sami kennari skrifaði líka á töfluna í stofunni, en slíkt sést ekki á upptökunni.

Ég notfæri mér líka að rifja upp tíma eða finna eitthvað sem ég er ekki klár á og þarf frekari staðfestingar á og nota þá upptökur úr tímum. Þær eru mjög misjafnar, hljóðið er mis gott og það truflar.

Ég hef þó séð það að fjarnemar fá oft lengri tíma til að vinna verkefni og fá stundum að vinna í samvinnu eitthvað sem við staðarnemar þurfum að vinna einir. Einnig fá þeir í sumum tilfellum að taka próf á annan hátt en við sem erum á staðnum, t.d. með heimaprófi.

Ég er þó á því að sú ákvörðun að stunda staðarnám sé rétt fyrir mig. Ég hafði ætlað mér að fara aftur að vinna að hluta í haust og notfæra mér upptökur og fjarbúnað að hluta í náminu. Eftir reynslu mína hef ég skipt um skoðun og hyggst segja upp vinnunni og hella mér í staðarnámið enn frekar og njóta þess að læra meira og meira.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir