Kreppa næstu 12 mánuði

Ásgeir Jónsson forstöðumaður Greiningardeildar KB banka

 

Ásgeir Jónsson hagfræðingur og forstöðumaður Greiningardeildar KB banka spáir kreppu á næstu tólf mánuðum.  Sagði hann blaðamanni Landpóstsins að hann teldi að samdráttur hefði sína kosti að því leyti að fólk þyrfti að skoða betur til hvers það notaði peningana. Ásgeir telur að endir kreppu velti á því hvenær Seðlabankinn geti lækkað vexti.  Það gæti dregist til ársins 2010.

Blaðamaður spurði Ásgeir hvernig hann teldi að málum væri háttað í Bandaríkjunum og hvort staðan þar hefði áhrif hérlendis.  Hann sagði banka í Bandaríkjunum vera búna að lána mikla peninga til fasteignaviðskipta og að þar hefðu orðið gífurlegar hækkanir á fasteignamarkaði. Þegar þær síðan ná hámarki þá “springur bólan” og þegar fasteignir fara að lækka í verði þá sjái fólk sitt óvænna og yfirgefi húsin. En þar sem lán eru tengd við fasteignir en ekki persónur, sitja bankarnir uppi með fasteignirnar og tapið étur upp eigið fé bankanna.  Þá skapast vítahringur og verður Seðlabanki að dæla peningum inn í kerfið.  Þar kemur skýringin á viðbrögðum Bandaríkjastjórnar undanfarið. Ásgeir telur reyndar að aðstæður í Bandaríkjunum hafi ekki svo bein áhrif hér, við töpum meira á slæmu ástandi t.d. í Bretlandi.  Í Evrópu ríkir niðursveifla og fyrirtæki sem ekki hafa góðan fjárhagslegan grunn hrynja, munum við sjá það í allan vetur, bæði hérlendis og erlendis. 

Ásgeir var spurður um stöðu bankanna hérlendis og sagði hann þá vera að byrja að tapa núna. Annars höfðu bankar hér séð stöðuna fyrir og búið sig undir niðursveifluna.  Fyrir nokkrum árum stunduðu Íslendingar viðskipti á svokölluðum heildsölumarkaði þar sem gefin voru út skuldabréf fyrir peninga.  Nú er það ekki hægt lengur en þess í stað komnir til svokallaðir netreikningar þar sem hægt er að opna sparireikning á netinu, og safna innistæðu, án þess að fjárfesta.  Þá þarf ekki að stofna útibú, borga fólki laun o.s.frv.  Þannig höfðu bæði Landsbankinn og Kaupþing undirbúið sig.  Kaupþing hefur fjárfest fyrir um 600 milljarða í u.þ.b. tíu löndum og leitar enn leiða. 

 Telur Ásgeir ríkisvaldið standa illa bæði vegna þess að það hafði ekki undirbúið sig fyrir niðursveifluna auk þess sem ríkið á ekki gjaldeyrisforða, hann er allur í höndum einkaaðila.  Það að bankarnir undirbjuggu sig olli þeim illu orðspori, vegna þess að þeir hafa hagnast, þar sem þeir voru að verja eigið fé.  Hins vegar sé það ljóst að ef við ætlum að halda í krónuna sem gjaldmiðil verður ríkið að búa sig undir að ekki skapist aftur samskonar aðstæður og nú ríkja. Ásgeir er hins vegar á þeirri skoðun að Íslendingar ættu að taka upp annan gjaldmiðil, eins og t.d evru, ef líta ætti til lengri tíma.  Ísland er lítið land og þarf að ná takti við umheiminn.

 Blaðamaður spurði hvort botninum í efnahagsmálum hefði verið náð á “svörtum mánudegi” í síðustu viku en Ásgeir taldi ekki rétt að miða við það vegna þess að verð krónunnar standi vel núna. Ástæðuna fyrir hruni krónunnar telur hann vera þá að erlendir spákaupmenn séu á leið út úr landinu og með þeim stórar fjárhæðir.  Í síðustu viku fóru tugir milljarða á dag úr landi.  Við eigum möguleika á að ná jafnvægi aftur en það veltur á hvenær Seðlabankinn getur lækkað vexti.  Ásgeir telur að það geti jafnvel dregist til ársins 2010.     


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir