Kristján Hrannar, heldur sem betur fer ekki með KR

Ég tók stutt viðtal við þennan hressa strák til að sjá hvað hann hefur að segja um tónlistina, frægðina og framtíðina.Anno

Hvar ertu fæddur og uppalinn?
Það munaði fimm mínútum að ég yrði platbarn, ég fæddist rétt fyrir miðnætti þann 31. mars. Ólst upp í vesturbæ Reykjavíkur og bý enn þá þar. En nei ég held sem betur fer ekki með KR.

Hvernig var að alast upp í Vesturbænum?              
Það var bara frábært, þetta var fyrir tíma gsm-símanna, og maður gekk bara um allan daginn eins og rolla á fjalli án þess að nokkur væri að hafa áhyggjur af manni. Rétt hjá húsinu okkar var yfirgefin lýsisverksmiðja, og maður kom stundum heim allur út í grút eftir að hafa leikið sér í fallin spýta í marga tíma. Good times!

 Hver eru helstu áhugamálin, utan við tónlistina?
Ég byrjaði í golfi fyrir nokkrum árum, eftir að hafa haft mikla fordóma fyrir því og kallað það heildsalasport fyrir teprur. En núna röltir maður bara sultuslakur um völlinn, ætli það sé ekki eini tíminn sem maður er ekki með músík í eyrunum...

 Hvernig fer tónlistarferillinn við nám og vinnu?
Ég kræki mér alltaf í aukapening með því að spila undir í veislum,     brúðkaupum og svona, bæði frumsamið stöff og svo djass í kokteilum og alls konar! Annars hefur námsferillinn hjá mér farið upp og niður, stundum er maður með hausinn annars staðar. Annars er ég núna að klára sagnfræði við HÍ, kannski skrifa ég eitthvað um tónlistarsögu?

Hvenar fórstu að hafa áhuga á tónlist og hvenar ákvaðstu að þetta væri það sem þú vilt gera?
Ég var ca 5 ára þegar mamma var beðin um að geyma píanó fyrir vinkonu sína. Ég lét það ekki í friði, þannig að hún sendi mig í píanótíma til frænku minnar. Allt frá því ég var unglingur ætlaði ég að vera tónlistarmaður. Síðan fluttist ég til útlanda og datt eiginlega úr allri músík kreðsunni, þannig að ég var hálfpartinn búinn að gefa það upp á bátinn. Það var ekki fyrr en ég byrjaði í 1860 að ég fann gamla neistann aftur. Svo skildust leiðir í góðu og ég fór að semja rafpopp á píanóið heima.

Hvaða tónlistarmanna líturðu upp til?
Björk er náttúrulega alltaf mesti töffarinn, bæði hvað karakter og tónlist varðar. Emilíana Torrini er síðan rosa heilsteypt persóna sem allir tónlistarmenn geta lært af, sérstaklega hvernig hún pródúserar lögin sín. Svo má nefna raftónlistar risa eins og Bonobo, Air og Kraftwerk, sem eru ótrúlegir listamenn þegar kemur að því að skapa sánd.

Hver er uppáhalds tónlistarmaðurinn þinn?
Það hlýtur eiginlega að vera Bach. Hann er einhvern veginn langstærstur, bæði þegar kemur að tímabilum, frumlegheitum og vinsældum. Og dugnaði, hólí sjitt. Það er ekki mannlegt að geta samið svona mikið af tónlist... án þess að vera eitthvað að endurtaka sig sérstaklega mikið!

Hvernig myndirðu lýsa tónlistinni þinni?
Hún er frekar róleg, en samt með þungri keyrslu. Mjúkir synthar, píanó, orgel, en samt drífandi taktar og hörð sömpl inni á milli. Svo langaði mig að gera íslenska texta við tónlist sem hefur kannski ekki mikið verið sungin á íslensku hingað til. Ég byrjaði á að gera demó heima, taka upp píanó, syntha, söng o.fl., og kom svo með það til Janusar í Bloodgroup, þar sem við héldum áfram að vinna í lögunum. Hann er alger snillingur þegar kemur að því að ná góðu sándi úr hlutum. Í einu lagi notum við t.d. vocoder, þar sem ég keyri röddina mína gegnum hljóðgervil til að fá svona mjúkt “tölvu”tal, á öðru var ég að bursta skó og tók upp sándið og notaði í laginu 1922, sem kom frekar vel út.  Svo eru alveg ýmis smáatriði á plötunni sem eru frekar fyndin, þegar maður veit eftir hverju á að hlusta, haha!

Mikið af íslenskum tónlistarmönnum velja að fara þá leið að syngja lögin sín á ensku, afhverju valdir þú að syngja á íslensku?
Ég hef alltaf verið að yrkja og semja ljóð frá því ég var krakki, og ég gæti hreinlega ekki samið texta á ensku þótt ég hafi margoft reynt. Það væri eins og ég væri sífellt að streitast við að gera plötu bara með vinstri hendinni...

Semuru textana þína sjálfur?
Já, ég sem meira að segja sem textana oft á undan lögunum.

Ertu hrifinn af söng- og lagakeppnum?
Já þær eru alltaf skemmtilegar... ég og vinur minn unnum einu sinni söngkeppnina í MR og fórum í úrslit, sungum Space Oddity með Bowie, rosa gaman.

Hvað er uppáhalds Júróvísjón lagið þitt?
Uppáhalds Júró lagið er Non Ho Le'tá, sem Gigliola Cinquetti song árið 1964, og varð síðan frægt sem Heyr mína bæn sem Ellý gerði ódauðlegt.

Hver er uppáhalds útvarpsstöðin?
Það er Gufan og BBC World service, einu stöðvarnar þar sem maður er ekki smurður í andlitið með uppgerðarhressleika. En ég er alltaf svo bitur og fúll. Nei djók.

Hver er draumurinn?
Að gefa lifað á því að spila mitt eigið efni, og geta einbeitt mér að því að semja og vinna í tónlist. Er það ekki?

Mun frægðin stíga þér til höfuðs?
Iss, hún hefur það nú þegar. Ég á alveg heil 251 læk á facebook, mér líður eins og ég eigi heiminn!

Ef þú gætir valið þér eina tónleika, hvar og hvenar sem er, fram og aftur í tímann, hvaða tónleikar væru það?
Úff, hlýtur það ekki að vera Queen á Live Aid ’85?

Eitthvað sem þú vilt koma á framfæri?
Já, ég vil endilega biðja ykkur kæru lesendur að halda áfram að kaupa íslenska tónlist, og þá helst beint af listamönnunum sjálfum. Þetta heldur okkur á floti og er alveg gríðarlega mikilvægur þáttur í því að við getum haldið áfram að skapa!

Það má tékka á hljóðdæmum af plötunni á gogoyokoeinnig má finna hann á soundcloud.

Plötuna sjálfa má svo nálgast í Skífunni, 12 tónum, Smekkleysu, Máli og Menningu, Eymundsson, Fríhöfninni og svo bara beint frá býli. Ég mæli eindregið með þessari plötu fyrir allan aldur, það er hægt að gleðja hvern sem er með skemmtilegum rafpoppskotnum tónum. 


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir