KSÍ vaknar loks af værum blundi

Það kemur engum á óvart að Eyjólfur Sverrisson hafi verið látinn taka níþungan sekk sinn og honum hent öfugum út úr höfuðstöðvum KSÍ. Í dag var tilkynnt að samningur landsliðsþjálfarans yrði ekki endurnýjaður og hann er því hættur með liðið. Gengi liðsins innan vallar hefur verið ömurlegt, þrátt fyrir að ágæt úrslit hafi vissulega litið dagsins ljós á myrkustu tímunum. Eyjólfur Gjafar stýrði liðinu í fjórtán leikjum. Af þeim vann Ísland tvo leiki sem báðir voru gegn Norður-Írum, fjögur voru jafnteflin en heilir átta töpuðust. Þessi tölfræði segir bara sitt.

Eyjólfur var klárlega rekinn. KSÍ gaf út að hann myndi stjórna liðinu gegn Dönum nú í nóvember en það hefur nú breyst. Í gær kom verst geymda leyndarmál íslenska karlalandsliðsins í fótbolta opinberlega í ljós, agavandamál utan vallar. Leikmenn eru að skemmta sér langt fram á nótt, jafnvel rétt fyrir leiki. Auðvitað er ekki hægt að nefna nein nöfn í þessum málum en ég veit um einn landsliðsmann sem hætti með landsliðinu vegna agaleysisins.

Þessar fréttir, auk þess sem allt í einu kom í ljós að samningur Eyjólfs er ekki einu sinni framyfir Danaleikinn, urðu að mínu mati til þess að KSÍ boðaði til neyðarfundar í dag. Forkólfarnir þarna á KSÍ funda yfirleitt ekki á laugardögum að mér best vitandi.

Það sem ég held að gerist næst er að maður verði ráðinn tímabundið til að stýra liðinu framyfir leikinn gegn Dönum. Hver það verður? Willum Þór Þórsson eða Ólafur Jóhannesson. Willum er með Val en undirbúningstímabilið er varla byrjað og hann hefur alveg tíma. Óli er ekki að þjálfa neitt lið þessa stundina. Það ætti því að vera lítið mál að fá þá.

Margir vilja sjá Guðjón Þórðarson taka aftur við liðinu. Það er kalt á milli hans og KSÍ og ég held að það sé hreinlega of mikið vesen til að KSÍ nenni að reyna að Gaua að taka tímabundið við liðinu. Willum eða Óli held ég, og hallast meira að Willum. Ég held meira að segja að við munum ekki tapa illa á Parken, eins og svo oft, og umræða muni spretta upp hvort Willum sé ekki bara maðurinn. Allt spekúleringar hjá mér bara.

Eftir Danaleikinn mun KSÍ grúfa sig yfir málin. Mikil umræða hefur verið uppi hvort ekki sé rétt að ráða erlendan þjálfara. Ég er alveg sammála því að það sé málið. KSÍ á nóg af peningum og þegar ég vann á Fréttablaðinu í sumar tókum við saman langan lista yfir menn sem gætu komið til greina.

Hérna má lesa frétt sem Eiríkur vinur minn skrifaði, og sjá lista yfir nokkur nöfn sem gætu alveg komið til greina. Þarna er einnig rökstutt af hverju KSÍ hefur vel efni á “stóru” nafni úr boltanum.

Hérna má svo sjá frétt, sem var líka í Fréttablaðinu, um árangur íslenska liðsins og þess finnska. Finnland er á hinum margfrægu pappírum, alls ekki með betra lið en Ísland. Finnarnir hafa náð frábærum árangri með hinn hressa Roy Hodgson við stjórnvölin.

KSÍ batteríið þarf virkilega að vanda valið þegar það ræður þjálfara. Ég ber lítið traust til þeirra sem þar ráða en þeir sýndu þó loksins eitthvað vit þegar þeir ráku Eyjólf í dag.

Áfram Ísland!

Hjalti Þór Hreinsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir