Kvennabolti í Boganum

Boginn. Mynd/vaarkitektar.is
Mikið var um æfingarleiki í meistaraflokki kvenna í Boganum um helgina. Kvennalið KR og Hauka voru bæði stödd fyrir norðan í æfingarferð en á föstudagskvöldið spiluðu Haukar við 2.flokk Þór/KA og gerðu liðin 2-2 jafntefli. 


Í kjölfarið á þeim leik öttu Völsungur og KR kappi og enduðu leikar með 2-0 sigri KR. Á laugardeginum áttust KR og Haukar við þar sem KR vann auðveldan 7-1 sigur og á sunnudeginum unnu KR-ingar 3-0 sigur á 2.flokki Þór/KA. Þá unnu Völsungsstúlkur 4-1 sigur á Haukum.

,,Við erum þakklát þessum liðum sem velja að koma hingað norður til að æfa og spila og útvega okkur leiki í leiðinni,” sagði Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þór/KA um leikjahelgina.

 Erfitt er fyrir norðanliðin að fá æfingarleiki en frá Fáskrúðsfirði og vestur til Hólmavíkur eru einungis 5 lið: Fjarðabyggð/Leiknir, Höttur, Völsungur, Þór/KA og Tindastóll. Þar af er Þór/KA eina liðið með 2.flokk og því lítil von fyrir þær að fá æfingarleiki gegn jafnöldrum sínum. Því er töluvert mikið um ferðalög ef leiki á að fá og margir leikir milli sömu liða en sem dæmi má nefna að Völsungur og Þór/KA hafa spilað í kringum fimm leiki sín á milli í vetur.

,,Það er auðvitað mikilvægt að fá lið norður í leiki. Við erum að spila talsvert minna af leikjum heldur en liðin fyrir sunnan flest hver. Ástæðan fyrir að þessi lið eru að koma norður er þó ekki því þeim vantar leiki heldur til þess að brjóta upp æfingaplanið og gera eitthvað annað í leiðinni heldur en að æfa því nóg er af leikjum fyrir sunnan. Það er vonandi að fleiri lið fari að gera þetta í auknum mæli,” sagði Jóhann Kristinn að lokum við Landpóstinn.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir