Kynjahalli á landsbyggđinni

Fámenn samfélög eru oft karllæg og byggja á hefðbundnum störfum í iðnaði og frumframleiðslu. Dreifbýlisstörf fyrir konur eru yfirleitt þjónustustörf eða störf í fiskvinnslu og hafa konur frekar en karlar flutt úr dreifbýlum, sérstaklega konur á aldrinum 20-29 ára.

Launakjör kvenna eru töluvert lægri á landsbyggðinni heldur en á höfuðborgarsvæðinu; árið 2005 voru laun kvenna á höfuðborgarsvæðinu almennt um 25% hærri en á landsbyggðinni á móti 10% mun á launum karla. Í kjölfar efnahagshrunsins minnkaði þessi munur en kannanir hafa sýnt að launakjör landsbyggðarkvenna hafi farið versnandi aftur.

Akureyri er eina byggðarlagið á landsbyggðinni þar sem konur eru fleiri en karlar. Akureyri hefur það fram yfir aðra staði á landsbyggðinni að þar er fjölbreyttara atvinnulíf, þjónusta og háskóli sem nýtur töluverðra vinsælda.

Til að koma í veg fyrir þennan mikla kynjahjalla á landsbyggðinni þarf meðal annars fjölbreyttara atvinnulíf þar sem menntun fólks nýtist svo fólk vilji flytja til baka, flytja opinber störf út á land og fara með menntakvennastörfin út á land. Ekki hafa einungis verkamannastörf heldur gefa fólki tækifæri til að nýta menntun sína og þekkingu.

Samhæfing atvinnu- og fjölskyldulífs

Nýverið stóð kennaradeild Háskólans á Akureyri fyrir Jafnréttistorgi og fékk til sín áhugaverða fyrirlesara. Meðal þeirra var Andrea Hjálmarsdóttir en hún greindi frá niðurstöðum rannsókna á breytingum viðhorfa unglinga til eðlilegrar verkaskiptingar á heimilum. Nokkur breyting hefur orðið á viðhorfum unglinga frá því að fyrri spurningalistinn var lagður fyrir árið 1992 og þar til sá síðari var lagður fyrir árið 2006. Niðurstöður hins nýja spurningalista sýna berlega að almenn heimilisstörf eigi að falla í verkahring konunnar. Andrea telur að grundvöllur fyrir jafnrétti á vinnumarkaði sé jöfn verkaskipting inni á heimilinu. Það gefi auga leið ef annar aðilinn beri meiri ábyrgð inn á heimilinu hljóti það að koma niður á atvinnuþátttöku.

Þetta rímar við niðurstöður rannsóknar Guðbjargar I. Óskarsdóttur um samræmingu atvinnu- og fjölskyldulífs hjá íslenskum stjórnendum. Þar kemur fram að konur beri megin þungann af barnauppeldi og heimilisstörfum þrátt fyrir að vera útivinnandi. Þá finni konur, sérstaklega mæður, sem gegna ábyrgðarstöðu meira fyrir togstreitu á milli vinnu og einkalífs heldur en karlar.

En hvað með samþættingu fjölskyldulífs við nám?

Færst hefur í vöxt að skólar bjóði upp á fjarnám og hefur Háskólinn á Akureyri slegið öðrum skólum við í framboði á fjarnámi. Fjöldi nema við skólann hefur aldrei verið meiri og fer þeim fjölgandi ár frá ári.

Háskólinn á Akureyri hefur getið sér gott orð fyrir að vera lítill, notalegur og persónulegur skóli sem sinnir persónulegri þjónustu við hvern og einn og hefur það án efa haft mikil áhrif á aðsóknina en fjarnámsmöguleikarnir eru einnig stór þáttur. Með fjarnámi gefst nemum tækifæri til að haga náminu eftir aðstæðum hverju sinni og er það því mjög góður kostur fyrir fjölskyldufólk.

Jafnréttisáætlanir skila árangri

Jafnréttisfulltrúar hafa verið starfandi nú um nokkurt skeið og hafa flest fyrirtæki og stofnanir sett sér jafnréttisáætlun og markmið eins og lagt var upp með í jafnréttisáætlun stjórnvalda. Vísbendingar eru um að nokkur árangur hafi unnist í jafnréttismálum hér á landi.

Er ekki úr vegi að skoða þennan árangur með hliðsjón af þeirri vinnu og stefnu stjórnvalda í jafnréttismálum.  Ber þar fyrst að nefna lög sem samþykkt voru á Alþingi 2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sem miða að því að koma á og viðhalda jafnrétti kynjanna á öllum sviðum samfélagsins.  Í lögunum er sérstaklega kveðið á um skyldur atvinnurekenda og stéttarfélaga í þeim efnum og ákvæði um skipun jafnréttisfulltrúa  innan vinnustaða sem hafa yfir 25 eða fleiri starfsmönnum að ráða á ársgrundvelli sem og að setja sér skýra jafnréttisáætlun og markmið.  Hlutverk jafnréttisfulltrúa er að gæta að þeirri áætlun sé fylgt eftir sem og að koma að úrlausn jafnréttismála.  Auk þessa ber jafnréttisfulltrúa að afla og miðla upplýsingaefni tengdu jafnréttismálum. 

Háskólinn á Akureyri er dæmi um stofnun sem markað hefur sér stefnu samkvæmt þessum lögum.  Stefnumörkun HA er aðgengileg og skýr.  Í inngangi að jafnréttisáætlun HA segir orðrétt „Markmið Háskólans á Akureyri er að tryggja jafna stöðu og jafna möguleika kvenna og karla í allri starfsemi skólans. Þetta á við nemendur, starfsfólk, stjórnendur og þau sem koma að starfseminni á annan hátt.”  Áætlunin gildir fyrir árin 2009 til 2012 og er frábrugðin fyrri áætlun frá 2002 á þann hátt að hugtakið jafnrétti er túlkað á þrengri hátt auk þess að ekki er lögð jafnmikil áhersla á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga og í fyrri áætlun.  Með vísan í lög um jafna stöðu um rétt kvenna og karla er jafnréttisáætlun og jafnréttisstefnu eingögu beint að jafnrétti kynjanna.  Jafnrétti á sviðum kynþáttar, uppruna, trúarbrögðum, fötlun og kynhneigð er fundinn staður í mannauðsstefnu háskólans og gerð skil þar.  Má telja þetta skýrt dæmi um áhrifamátt laganna og vilja stofnana til þess að bæta og jafna stöðu kynjanna.

Að lokum má nefna skýra aðgerðaáætlun stjórnvalda um launajafnrétti kynjanna sem og viljayfirlýsingu stjórnvalda annars vegar og samtaka atvinnurekenda, sveitarfélaga og launamanna hins vegar um stofnun aðgerðahóps.  Orðrétt segir í viljayfirlýsingunni um aðgerðahópinn; „Markmið slíks samstarfs er að eyða kynbundnum launamun sem er enn viðvarandi á innlendum vinnumarkaði“.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, fagnaði árangri Íslands á málþingi sem haldið var á Kvennafrídeginum í október síðastliðnum í sal Hörpu.  Boðaði Jóhanna þar til frekari sóknar í jafnréttismálum með lögum um kynjakvóta í stjórnun fyrirtækja og lífeyrissjóða sem koma eiga til snemma á þessu ári. 

Jafnrétti á Akureyri

Á Akureyri er rekið eina jafnréttisembætti íslenskra stjórnvalda, Jafnréttisstofa. Jafnréttisstofa starfar samkvæmt lögum frá árinu 2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Framkvæmdastýra Jafnréttisstofu er Kristín Ástgeirsdóttir en hún hefur löngum tekið þátt í íslenskri jafnréttisbaráttu. Kristín starfaði í Rauðsokkahreyfingunni á árunum 1976 til 1981 og var meðal stofnenda Kvennaframboðsins í Reykjavík árið 1982 og Samtaka um kvennalista árið 1983. Hún sat á þingi fyrir Kvennalistann og var formaður þingflokksins um tíma.

Jafnréttisstofu er að finna á Borgum, örfáum metrum frá Háskólanum á Akureyri. Kristín sat einbeitt við vinnu sína þegar við litum inn til hennar.

Starfssvið Jafnréttisstofu

Jafnréttisstofa hefur ráðgjafarhlutverk gagnvart stofnunum og ráðuneytum ríkisins en jafnframt sinnir hún eftirliti með því að farið sé eftir jafnréttislögum. Stór þáttur í ráðgjafarhlutverkinu felst í leiðbeiningum um hvernig gera skuli jafnréttisáætlanir innan vinnustaða.

Kynjajafnrétti er langstærsti þáttur allrar jafnréttisumræðu hér á landi og enn sem komið er er það eina viðfangsefni stofnunarinnar. „Jafnrétti kynjanna er grundvöllurinn að baki allrar jafnréttisbaráttu“, segir Kristín og ítrekar að mismunun á grundvelli fötlunar, kynhneigðar, trúarbragða falli ávallt fyrst og fremst undir jafnrétti kynjanna. Hagsmunasamtök sjá um jafnréttismál félaga sinna, t.d.  Öryrkjabandalagið. Í bígerð er þó að innleiða tilskipun Evrópusambandsins um bann við mismunun á grundvelli trúar eða trúarskoðana, örorku/fötlunar, aldurs eða kynhneigðar.


Ísland í fyrsta sæti

World Economic Forum (Alþjóða efnahagsráðið) hefur allt frá árinu 2006 gefið út árlega skýrslu um stöðu kynjajafnréttis á alþjóðavísu. Norðurlöndin hafa frá upphafi verið ofarlega á lista og hefur Ísland verið í efsta sæti listans undanfarin ár.

En hvaða mælikvarða er miðað við og þýðir þetta að fullkomnu jafnrétti sé náð?

Matið skiptist niður í fjóra meginflokka; þátttöku í efnahagslífi, þátttöku í stjórnmálum, aðgang að menntun og aðgang að heilbrigðisþjónustu. Innan hvers flokks er fjöldi breyta sem varpa nánari ljósi á stöðu mála. Þegar á heildina er litið er Ísland næst því að hafa náð fullu jafnrétti; erum t.d. í 1. sæti hvað varðar þátttöku í stjórnmálum (þar er m.a. spurt um kvenkyns þjóðarleiðtoga síðustu 50 ár) og í 1. sæti um aðgang að menntamálum (t.d. tekið tillit til læsi landsmanna).

Mat efnahagslegrar stöðu Íslands samanstendur af ýmsum þáttum, svo sem þátttöku á vinnumarkaði (21. sæti), sömu laun fyrir sömu vinnu (44. sæti) og fjölda kvenna í embættis- og stjórnunarstöðum (41. sæti). Ísland er yfir meðaltali í þessum þáttum, en áberandi er hve mikið vantar upp á síðastnefnda atriðið.

Áðurnefnd aðgerðaáætlun stjórnvalda gildir til loka ársins 2016 og verður áhugavert að sjá hvort framkvæmd hennar muni þoka Íslandi ofar á efnahagshluta lista Alþjóða efnahagsráðsins.

Nemendur:
Guðrún Sif Gísladóttir

Hermundur Guðsteinsson

Iðunn E. Kristinsdóttir

Ingibjörg Sunna Finnbogadóttir

Lilja Nótt Sævarsdóttir


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgđ ţeirra sem ţćr skrá. Landpósturinn áskilur sér ţó rétt til ađ eyđa ummćlum sem metin verđa sem ćrumeiđandi eđa ósćmileg.
Smelltu hér til ađ tilkynna óviđeigandi athugasemdir.

Svćđi

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiđlafrćđinema viđ Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guđmundsson, Hjalti Ţór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir