Kynjaímyndir á villigötum?

mynd google

„Strákaherbergið var með landakort á veggnum, væntanlega til að leggja áherslu á kraft og fróðleiksþrá, en stelpuherbergið bara með einhver bleik blóm og dúllerí“… Eitthvað á þessa leið hljómaði setningin í fjölmiðlafræðitíma í morgun sem varð kveikjan að þessum skrifum.

Hver segir að bleik blóm og prinsessukóróna séu ómerkilegra veggskraut í barnaherbergið en landakort?

Af hverju gerum við svona lítið úr kvenlegum gildum, smekk og áhugamálum? Við gerum þetta alls staðar alveg hugsunarlaust, konur eru síst betri en karlmenn hvað þetta snertir - og femínistar eru hreint ekki barnanna bestir að þessu leyti.

Er það ekki einmitt hér sem við þurfum að staldra við og athuga okkar gang? Getur ekki verið að gildismat okkar allra sé litað af áratuga löngu einræði karla í fjölmiðlun og forystuhlutverkum? Karlmenn hafa lagt línurnar og ákveðið alla skapaða hluti allt frá hlutverkaskipan innan fjölskyldunnar til þess hvaða lög, reglur og siðvenjur skuli gilda fyrir samfélagið alveg frá örófi alda. Í raun er bara örstutt síðan konur fóru að hafa einhver réttindi, sé aldur alls mannkynsins skoðaður. Auðvitað tekur tíma að breyta hugmyndum fólks og mér hefur stundum fundist að jafnréttisumræða sé á villigötum. Rauðsokkurnar fannst mér oft ganga of langt, til dæmis þegar þær brenndu brjóstahaldarana sína og settu sig upp á móti fegurðarsamkeppnum. Þeirra markmið virtust beinast að því að ná sama hlut og karlar og standa jafnfætis þeim á öllum sviðum, helst með þeirra aðferðum.

Femínistar eru með aðra nálgun, en ekkert endilega betri. Til dæmis finnst mér ekki vænlegt til árangurs að horfa á heiminn gegnum jafnréttisgleraugu og stilla öllu upp frá því sjónarhorni. Eins er tilhneiging til að gera alla karlmenn að andstæðingum og vera í sífellu að bendla karlkynið sjálft við klámvæðingu og mansal. Eða það nýjasta, að safna saman ljótum ummælum karla um konur og flagga framan í þjóðina. Ummælin eru aðeins fárra karlmanna og þeim sjálfum til vansæmdar, en ekki körlum almennt, án þess að ég sé að afsaka þau á nokkurn hátt. Margar konur hafa líka sagt og skrifað ljóta hluti um karlmenn og ég fæ ekki séð að það gæti orðið nokkrum málstað til framdráttar að safna slíkum ummælum saman á einn stað. Gleymum því líka ekki að á sumum sviðum hefur hallað umtalsvert á karlmenn í okkar þjóðfélagi, ekki síst í skólakerfinu, sem frá leikskólastigi hefur verið sniðið æ meir að kvenlegum gildum á kostnað drengja, sem virðast margir hverjir eiga erfitt uppdráttar í kerfinu.

Konur, hættum skítkastinu og hættum líka að reyna að standa jafnfætis karlmönnum í hverju sem er. Gerum frekar kröfu um að vera virtar á okkar eigin forsendum. Leyfum karlmönnum að eiga sín gildi fyrir sig. Gerum kröfu um að okkar starfsval, áhugamál og gildismat sé jafn gilt og verðmætt og það sem karlar (og við öll) setjum alltof oft ofar hinum kvenlegu þáttum. Lítum í eigin barm – og verum ánægðar með hann.

Borghildur Kjartansdóttir


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir