Látiđ ekki samfélag hvers tíma ráđa hvađa kýr skulu heilagar og hverjar ekki

Fréttamađurinn Helgi Seljan

Helgi Seljan sjónvarpsfréttamaður í Kastljósinu er Íslendingum góður kunnur. Helgi er þaulreyndur fréttamaður og þekktur fyrir hispurslausar spurningar sínar jafnt sem glettni og góðan húmor. Helgi hefur starfað við fjölmiðla í tæpan áratug og unnið hjá helstu fréttamiðlum landsins. Blaðamaður Landpóstsins tók viðtal Helga og spurði hann út í starfið og einstaka hluti innan fjölmiðla. 

Lýstu sjálfum þér sem fréttamanni? 

Úff, ég get það ekki.             

Fyrstu skrefin í fjölmiðlabransanum?

Ég hóf störf á Austurglugganum árið 2004. Var þar blaðamaður á héraðsfréttablaði Austurlands.

Hjá hvaða fjölmiðlum hefurðu starfað? 

Austurglugganum, DV, Talstöðinni, NFS, Stöð 2, Kastljósi RÚV.

Hver er fyrsta minnisstæðasta fréttin þín? 

Ég get eiginlega ekki valið eina sérstaklega. Frétt sem ég vann um meðferð íslensks samfélags á geðsjúkum afbrotamönnum fyrr og nú, fyrir áramót, er mér þó minnisstæð fyrir margra hluta sakir.

Hefurðu lært fjölmiðlun? 

Ekki í skóla, nei.

Hvernig er starfið? 

Það er fínt. Það er hins vegar sígilt umkvörtunarefni að óska eftir meiri tíma og minna vinnuálagi. Læt það fylgja með.

Hvað kom þér mest á óvart þegar þú fórst að vinna við fjölmiðla? 

Ég veit það ekki. Líkast til hefur það verið sú staðreynd að flestir hafi, þá að minnsta kosti, talið sig geta stýrt, stóru og smáu, í umfjöllun um þá sjálfa.

Regla fréttamanns númer eitt, tvö og þrjú? 

Þorsteinn Erlingsson skáld og blaðamaður rammaði þetta vel inn í þessum ljóðlínum "Jeg trúi því sannleiki að sigurinn þinn að síðustu vegina jafni".

Hvernig er dæmigerður dagur í starfinu þínu? 

Ég er mættur hér um níu, nema annað liggi fyrir. Fer á ritstjórnarfund um tíu í svona hálftíma. Síðan hefst nokkuð hefðbundið hark; ýmist í símanum, úti eða í annarri vinnu. Síðan er misjafnt hvernig dagurinn þróast; hvort ég verði í útsendingu um kvöldið eða ekki. Yfirleitt er ég ekki kominn heim fyrr en undir kvöldmat.

Semurðu spurningarnar sjálfur sem þú spyrð í Kastljósinu? 

Já, ég geri það. Annars hjálpumst við oft að við undirbúning á stærri viðtölum, umsjónarmenn hér í Kastljósi.

Hver er klassískasta spurningin þín? 

Hvers vegna...?

Nefndu þrjá einstaklinga sem þú myndir öðrum fremur vilja fá í viðtal í Kastljósið?

Barack Obama, Bob Dylan og Aung Sang Su Ky. Listinn er reyndar miklu lengri en þetta var það fyrsta sem ég mundi.

Hver eru vandræðalegustu mistök þín í beinni útsendingu? 

Í minni fyrstu útsendingu í sjónvarpi horfði ég í vitlausa myndavél langt fram í viðtalið. Svanhildur Hólm var með mér í viðtalinu og strauk – að mér fannst – á mér lærið. Ég hélt reyndar að hún væri bara að reyna að vera næs, en seinna kom í ljós að það var ekki.

Hver er skemmtilegasti viðmælandi sem þú hefur fengið í viðtal? 

Ég get ekki gert upp á milli.

Nú er mun róttækari fréttastefna hjá DV þar sem þú starfaðir áður en hjá RÚV núverandi vinnuveitanda þínum, hvernig hefur þér gengið að aðlaga þig að þrengri fréttaramma RÚV? 

Ég hef nú frekar reynt að aðlaga RÚV að mér, ég veit svo sem ekkert hvernig það hefur gengið.

Hver er þín skoðun á nafn og myndbirtingum í fjölmiðlum á viðkvæmum málum? 

Ég hef í sjálfu sér enga  eina skoðun á því. Eins og svar mitt við næstu spurningu ber með sér eru einhlítar reglur í slíkum málum oft þannig að þær bíta í skottið á sér. Almennt á þó að nefna nöfn fólks í tengslum við fréttir, en það þarf að meta í hvert og eitt sinn. Um myndir gildir í raun það sama að mínu áliti. En ég endurtek að skoða verður hvert mál.

Nú hefur engin verið nafngreindur í fréttum RÚV í Gillz-málinu svokallaða hvað finnst þér um það? 

Mér finnst það aðallega kjánalegt og til marks um að ein regla þvert á öll mál virkar ekki.

Hver eru erfiðustu málin að fjalla um? 

Kynferðisbrot gegn börnum eru eðli málsins samkvæmt erfið umfjöllunar.

Ráðleggingar þínar til aðila sem er að stíga sín fyrstu skref í fréttamennsku? 

Segið satt og sanngjarnt frá. Efist og  látið ekki samfélag hvers  tíma ráða hvaða kýr skulu heilagar og hverjar ekki. Gefist ekki upp.

 


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgđ ţeirra sem ţćr skrá. Landpósturinn áskilur sér ţó rétt til ađ eyđa ummćlum sem metin verđa sem ćrumeiđandi eđa ósćmileg.
Smelltu hér til ađ tilkynna óviđeigandi athugasemdir.

Svćđi

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiđlafrćđinema viđ Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guđmundsson, Hjalti Ţór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir