Laufabrauðið snertir einhvern streng í þjóðarsálinni

Hugrún Ívarsdóttir er sjálfstætt starfandi hönnuður sem hefur vakið athygli fyrir textílvörur sem hún skreytir með laufabrauðsmynstri.

Hún hefur nú fengið styrk frá Menningarráði Eyþings til að stækka vöruhönnun sína í samstarfi við listakonuna Ingibjörgu H. Ágústdóttur. Hugmyndin bakvið samstarfsverkefni þeirra er að hanna leikmynd og vörur út frá völdum ævintýrum og þjóðsögum. „Ingibjörg hefur í mörg ár verið að vinna tálgaðar, þrívíðar myndir út frá ævintýrum og þjóðsögum og útbúa úr þeim leikmynd. Mér fannst þetta svo áhugavert efni og sá í þessu möguleika á að stækka mína eigin vöruhönnun þar sem verið væri að vinna áfram með þjóðararfinn, eins og ég hef gert frá upphafi. En ég vildi ekki fara út í þessa hugmyndavinnu nema með því að gera það í samvinnu við Ingibjörgu og þannig er hugmyndin að þessu samvinnuverkefni tilkomin.‟

Fyrir þetta verkefni verða valin ævintýri sem eru vel þekkt á Íslandi en þá kemur einnig til greina að velja verk sem eiga uppruna sinn í hinum Norðurlöndunum. „Ég hef aðeins verið að skoða norskan sagnaheim þar sem við höfum áhuga á því að vinna út frá verkefnum sem hugsanlega gætu átt rætur þar. Þjóðsögur eru náttúrulega þekktar víða um heim og þær eru oft svipaðar milli landa og með þessu verkefni höfum við hugsað okkur að reyna að finna hvað er sameiginlegt í hinum norræna sagnaheimi.‟ Samstarfi þeirra Hugrúnar og Ingibjargar mun svo ljúka með sýningu á afrakstrinum, bæði í Stykkishólmi og á Akureyri, þaðan sem listakonurnar eru.

Hugrún er lærður útstillingahönnuður sem fór að eigin sögn að fikta við vöruhönnun skömmu áður en hún flutti til Noregs árið 1998. „Í Noregi kynntist ég gömlum handverkshefðum og varð svo heilluð af þeim að ég varð staðráðin í að taka mér það fyrir hendur að fara að vinna með íslenska þjóðararfinn. En þegar ég byrjaði að skoða hann þá fannst mér allt vera svo norskt, þangað til ég rakst á laufabrauðið. Þá áttaði ég mig á því að það væri eitthvað sem enginn ætti nema við.‟ Í kjölfarið fór Hugrún að safna laufabrauðsmynstum með því að halda sérstaka laufabrauðsdaga, þar sem hún hóaði saman fólki til að skera út laufabrauð og festi svo fallegustu kökurnar á filmu.

Vörum Hugrúnar hefur verið vel tekið af landsmönnum og þeim sem hafa einhverja sérstaka tengingu við land og þjóð og þekkja hefðina. „Það sem gerir það að verkum að laufabrauðið hefur fengið svona góðar viðtökur hér, er að þetta snertir einhvern streng í þjóðarsálinni. Fólki þykir vænt um þessa hefð og ástæðan fyrir því að laufabrauðið hefur lifað með þjóðinni, en ekki týnst eins og svo margar hefðir, er að mínu mati félagslegi þátturinn í laufabrauðsgerðinni. Það gerir enginn laufabrauð einn og það er líka ástæðan fyrir því að okkur þykir vænt um laufabrauðið. Það rifjar upp fyrir okkur þessar góðu samverustundir sem við höfum átt með fjölskyldunni.‟

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir