Lauslæti eða jafnrétti?

Roosh Vörek og kápa bókarinnar //mynd tekin af dv.is

Ég er dolfallin yfir viðbrögðum Íslendinga við bók Roosh Vörek Bang Iceland og hef ákveðið að deila með lesendum nokkrum hugleiðingum mínum í tengslum við fréttir af henni.

Af hverju að taka þessu svona alvarlega? Íslenskar konur þurfa ekki að skammast sín fyrir kynlöngun sína og ættu frekar að vera stoltar af því að geta farið út og fundið sér karlmann til að stunda einnar nætur gaman með án nokkurra vandkvæða. Upp að vissu marki grunar mig að bókin fari meira fyrir brjóstið á íslenskum karlmönnum sem finnist illa að sér vegið, án þess þó að ég hafi nokkra ástæðu til að ætla það aðra en þá að höfundinum hefur verið hótað barsmíðum snúi hann aftur til landsins. Ég vona þó að sú verði ekki raunin ef hann heimsækir landið aftur en mig grunar að hann muni eiga erfiðara með að ná sér í íslenska konu eftir útgáfu bókarinnar.

Þegar ég las grein um bókina í síðustu viku tengdi ég hana við frjálslyndi Íslendinga og femínisma (þ.e. jafnrétti). Hér á landi eru konur það sjálfstæðar að þær geta gert nákvæmlega það sama og karlpeningurinn, þ.e. tekið fyrsta skrefið í kynnum og farið heim með þeim sem þær langar til án nokkurra vandkvæða. Mér finnst þó heldur langt gengið að segja að íslenskar konur vilji ekki langtíma samband en hvað á aumingja maðurinn að halda. Þetta eina skipti sem hann hringdi til baka í stelpu sem hann hafði eytt nótt með þá vildi hún ekkert með hann hafa.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem íslenska kvenþjóðin fær á sig druslustimpilinn. Hann hefur loðað við hana í mörg ár og gott ef tíminn er ekki frekar talinn í áratugum en árum. Ég man umræðuna varla öðruvísi. Hvar man ekki eftir auglýsingum Icelandair sem hljóðuðu upp á One Night Stand In Iceland? Reyndar heyrði ég einu sinni ágætis rök fyrir því af hverju íslenskar konur svæfu hjá erlendum mönnum. Rökin hljóðuðu á þann veg að þær væru að reyna að koma í veg fyrir innræktun þjóðarinnar. Líklega var rökunum þó frekar hent fram í gríni en af alvöru. Þetta er engu að síður skemmtilegt sjónarhorn.

Auðvitað má færa rök fyrir því að með bókinni sé vegið að heiðri íslenskra kvenna en ætlum við í alvöru að láta eina litla bók breyta því hvernig við erum og hvað við gerum? Það væri þá frekar að einhver myndi kaupa hana, skanna hann inn á pdf-form og gera hana aðgengilega öllum Íslendingum svo aðferðirnar yrðu þekktar meðal okkar allra og hægt væri að gera grín að þeim sem reyndu að fylgja þeim. Ég er allavega viss um að íslenskar konur séu upp til hópa ekki jafn lauslátar og erlendir lesendur bókarinnar koma til með að halda. En það verður aftur á móti gaman að sjá hvort miðbær Reykjavíkur fyllist af sveittum karlpungum sem halda að íslenskar konur glenni út fæturna við smábros og framandi hreim.


Vinsamlegast athugið að ég hef ekki lesið bókina, aðeins greinar um hana og athugasemdir bæði útlendinga og íslenskra kvenna. Þær athugasemdir sem ég hef lesið frá íslenskum konum hljóða flestar á þann veg að þær séu alls ekki auðveldar en geri það sem þeim sýnist. 


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir