Leikir fyrir börn og þenkjandi fólk

Guðný Þorsteinsdóttir og Friðrik Magnússon eru hjónin að baki Gebo Kano
Gebo Kano er lítið hugbúnaðarfyrirtæki sem rekið er af hjónunum Guðnýju Þorsteinsdóttur og Friðriki Magnússyni. Fyrirtækið stendur að baki fjölda lítilla tölvuleikja, gagnvirks íslensks námsefnis og nú síðast snjallforrita fyrir Ipad, Iphone og Ipod Touch. Þeirra stærsta verkefni til þessa er útgáfa Segulljóða, forrits sem snýst um að semja ljóð úr orðum sem notandi fær afhent af handhófi. Nú í lok nóvember var fyrirtækið að senda frá sér Jólasveinadagatal og vinnur hörðum höndum að formþrautaleiknum IKEU sem væntanlegur er í byrjun árs 2014.

Gebo Kano 
Nafnið á fyrirtækinu er svolítið framandi en þegar þýðing þess er skoðuð þá sér maður samhengið. Nafnið er dregið frá FUÞARK stafrófinu og tákna stafina G og K. G stendur fyrir gjöf og gjafmildi en K fyrir eld lífsins, visku, sköpunargáfur og uppgötvanir. 

Guðný starfar við að hanna og semja rafrænt námsefni og tölvuleiki. Hún sér einnig um myndskreytingar og jafnvel forritun. Friðrik er svo forritari af lífi og sál. Þau hjónin hafa því náð að sameina starf og áhugamál sín í fyrirtækinu Gebo Kano. Þau eru einu starfsmennirnir en eru einnig í samstarfi við aðra aðila. Sem dæmi má nefn fá þau oftast aðstoð með tónlist frá vini þeirra Ingimari Oddsyni, skrímslasetursstjóra á Bíldudal. Friðrik og Guðný vinna ekki eingöngu að eigin hugmyndum. Þau taka einnig að sér verkefni fyrir aðra sem forritarar og hönnuðir og vinna þá eftir hugmyndum annarra og þá eru það þeir aðilar sem stjórna verkinu.

Segulljóð 
Stærsta og þekktasta verkefni þeirra til þessa er Segulljóð sem þau gáfu út á degi íslenskrar tungu 16. nóvember 2012 og má segja að það hafi slegið í gegn. Það náði efsta sæti í íslensku App búðinni og ruddi þar stórleiknum Angry Birds Star Wars til hliðar. Eins og áður segir ganga Segulljóð út á það að semja ljóð og nota til þess orð sem viðkomandi fær úthlutað af handahófi. Þau hjónin segja að forritið sé töluvert notað í kennslu og að það sé enn að seljast ágætlega þrátt fyrir að rúmt ár sé liðið frá útkomu þess. Nú vinna þau að því að koma Segulljóðunum yfir á ensku og geta þannig aukið markaðshlutdeild sína til muna. Upphaflega unnu þau það eingöngu fyrir Ipad, Iphone og Ipod Touch en nú eru þau að vinna að vefútgáfu sem og sérstakri krakka útgáfu. Guðný og Friðrik segja að börn hafi sýnt forritinu mikinn áhuga og því sé um að gera að koma til móts við þau.

Jólasveinadagatal 
Í lok nóvember gaf Gebo Kano út Jólasveinadagatal fyrir Ipad en ekki vannst tími til að aðlaga stærðina að Iphone fyrir þessi jól. Forritið er bæði á íslensku og ensku og inniheldur lítinn leik og upplýsingar um íslensku jólasveinana. Þegar þeir byrja að koma til byggða minnir forritið svo fólk á hvaða jólasveinn kemur þá og þá nóttina. Það gæti því komið sér vel fyrir marga nú í desember að hlaða því niður í spjaldtölvuna sína. 

IKUE 
Auk viðbóta við Segulljóðin þá er Gebo Kano að vinna að gerð frábærs formþrautaleiks, IKUE, í samstarfi við höfund þess sem hannaði borðspilið. Þetta er leikur sem allir geta spilað, alveg sama hvar í heiminum þeir eru, þar sem tungumál kemur ekkert við sögu. Leikurinn ætti að höfðar til þeirra sem hafa gaman af krossgátum, Suduku og heilabrotum hvers konar. Börn jafn sem fullorðnir geta spilað hann og reynir hann á útsjónasemi og rökhugsun. 

Nóg að gera 
Eins og sést þá hafa þau hjónin Friðrik og Guðný nóg fyrir stafni og eru oftast með nokkur járn í eldinu hverju sinni. Þrátt fyrir það leggja þau oftast aðaláherslu á eitt verkefni í einu en geta þá alltaf gripið í eitthvað annað þegar aðstæður skapast. Þau leggja sérstaka áherslu á rafrænt námsefni og gerð heilbrigðs rafræns afþreyingaefnis. Þau vilja að það sem þau vinna að skilji eitthvað meira eftir sig en afþreyingu og miða því að því að forritin og leikirnir séu líka lærdómsríkir, þroskandi og jákvæðir. Þetta helst því jafnt í hendur hvort heldur sem þau vinna að gagnvirku kennsluefni eða afþreyingu. 

Engin heimsyfirráð á stefnuskránni 
Íslenskur markaður er mjög lítill partur af tölvuleikjamarkaði heimsins og erfitt að ætla að lifa af því að hanna og markaðssetja vörur eingöngu fyrir hann. Þau hafa því valið að selja afurðir sínar í öllum App búðunum, um allan heim, enda töluvert af íslendingum víðsvegar um heiminn sem eru með aðgang að erlendum App búðum en ekki þeirri íslensku. Einnig er mikilvægt að vinna forritin líka á ensku og stækka þannig markhópinn enn frekar. Gebo Kano sér um að markaðssetja sig sjálft og hefur hvað mest notast við Facbook, fjölmiðla, ráðstefnur og einstaka auglýsingu. Fyrirtækið stefni þó ekki á heimsyfirráð eða frægð heldur vill fyrst og fremst halda áfram að vinna að góðu og flottu efni fyrir börn og þenkjandi fólk. Friðrik og Guðný segjast elska það sem þau eru að gera og leggja mikinn metnað í vinnu sína. Það væri svo ekki verra að geta einbeitt sér að þessu eingöngu og þurfa ekki að hafa fjárhagsáhyggjur og vita að það sem þau eru að gera gleðji og fræði fólk.

Nánari upplýsingar má finna á Facbook síðu Gebo Kano eða gebokano.com

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir