Leysir töfra úr læðingi

Mynd - Ágúst Atlason
„Þegar ég bjó í Reykjavík, sat ég heima og beið eftir að einhver byggi til leikrit eða tónleika og svo mætti ég og horfði eða hlustaði, en hérna er ég ekkert að bíða eftir að eitthvað sé búið til, maður bara framkvæmir sjálfur eða tekur þátt, svo verði gaman“, segir Matthildur yfirstýra Söluvarningshóps Aldrei fór ég suður

Landpósturinn náði tali af Matthildi Helgadóttur Jónudóttur, sem stýrir Söluvarningshópi Aldrei fór ég suður og spurðist frétta af undirbúningi. Segir hún undirbúninginn vera markvissari og formlegri eftir að fleiri bæjarbúar komu að honum, en í fyrra var skipað í nefndir eða hópa sem sjá um hin ýmsu verk sem áður voru á hendi fárra aðila. Segir hún sér hóp taka að sér að t.d. búa um rúm tónlistarmanna, einn sjái um móttöku listamanna, annar  um snyrtingar, enn einn hópurinn sjái um morgunverð, en sjálf stýrir hún hópnum sem sér um að panta og halda utan um söluvarning.

„Þó fólk sé lært í einhverju og geri vel það sem það hefur lært og kann, má ekki gleyma að við höfum öll hæfileika og okkur getur öllum dottið eitthvað í hug og hægt að gera mjög flotta hluti“, heldur Matthildur áfram.

Lögð er áhersla á að koma inn með nýja hönnun og eitthvað sérstakt, en vera jafnframt með vandaða og góða vöru.  Kynning á varningi verður á heimasíðu aldrei.is og forsala í Vestfirsku Versluninni á Ísafirði. Frá upphafi hafa verið til sölu bolir og barmmerki, en fjölbreytni varnings hafi aukist ár frá ári og sé nú allt frá sér merktum gítarnöglum upp í hettupeysur og stefna þau að því að ungir sem aldnir finni eitthvað sitt hæfi, senda hátíðin ætluð fólki á öllum aldri.
Aldrei.is - Ljósmyndari Baldur Pan

Sala á varningi er aðal fjáröflun hátíðarinnar og svo eru auðvitað líka styrktaraðilar, segir Matthildur, en hún tók líka þátt sem sjálfboðaliði í fyrra. Segir hún þetta mjög skemmtilegt og gefandi starf og hvetur fólk til að leggja sitt af mörkum og alla til að mæta vestur, en hátíðin stendur dagana 6.- 7. apríl n.k.

Segir Matthildur að mikill fjölda smáatriða þurfi að falla saman til að svona hátíð geti gengið og virkað flott. Í hópnum sem hún stjórnar eru jafnt hönnuðir sem venjulegt fólk og bæði kyn og fjölbreyttur aldurshópur. Settu þau sér markmið, fóru í gegnum hvaða varningur hefur gengið vel í gegnum tíðina og hvað ekki og leggja meiri áherslu á gæði og fjölbreytni. Bolir og barmmerki ganga alltaf, en í fyrra bættust við t.d. hettupeysur. Þetta er annað árið sem söluhópurinn er að störfum og eru þau að móta sér stefnu og  vilja bjóða upp á sérstaka vöru í takmörkuðu upplagi. Það mun verða gert í ár, en þó verður ekki uppboð eins og í fyrra, þar sem Mugison lopapeysa var slegin á 200 þúsund. Á næsta ári, 2013, verður hátíðin 10 ára og á Matthildur von á að þá verði tekinn fram eldri lager þannig að safnarar geta farið að setja sig í stellingar.

„Í litlum bæjafélögum eins og á Ísafirði, er svo auðvelt að fá alla í lið með sér og það auðvitað hjálpar okkur“, segir Matthildur, „allir gefa sér tíma og eru boðnir og búnir að aðstoða“.

Matthildur segir hátíðina leysa einhverja töfra úr læðingi.  „Það er eitthvað sérstakt við það að vera á tónleikum þar sem fjöldinn kemur og þú hittir fólk, allt frá nýfæddum börnum upp í hundrað ára ungmenni. Allir eru saman og þetta er engu líkt. Líka að þeir elstu sjá og hlusta á tónlist, sem þeim dytti aldrei í huga að hlusta á annars, jafnvel þunga rokkhljómsveit. Þeir hlusta á nokkur lög og sjá allt í nýju ljósi og þeir ungu heyra kántrý sem þeim hefði aldrei dottið í hug að hlusta á. Þetta er bara svo svo mikil gjöf“. 

Ingibjörg Snorra

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir