Lífið án útvarps

Mynd: hypebot.com
Ég hugsa mér lífið án útvarps og það fyrsta sem mér dettur í hug er bíllinn minn. Bíllinn er svo að segja eini staðurinn sem ég hlusta á útvarp og þá oftast á leið í eða úr skóla. Mér finnst notalegt að hlusta á útvarpið í bílnum og þá aðallega umræður eða fréttir. Ef þessu yrði kippt úr lífi mínu held ég að bílferðirnar milli Akureyrar og Reykjavíkur myndu lengjast talsvert. Annað sem mér dettur í hug þegar ég hugsa mér líf án útvarps eru jólin. Það er ómissandi hefð á mínu heimili að hlusta á messu við borðhaldið á jólunum. Ég held samt að ég myndi alveg lifa það af ef útvarp væri ekki lengur til staðar. Það yrði vissulega viðbrigði að hlusta ekki á fréttir á leiðinni í skólann eða röflið í Valtý Birni á X-inu á leiðinni heim. Ætli ég fari ekki bara að hugsa meira í þessum bílferðum ef ég hefði ekki útvarp. Miðað við það sem ég hef lesið hefur það ekki skaðað nokkurn mann að hugsa aðeins meira.
Svo fer ég að líta í kringum mig og hugsa um hvernig mínir nánustu tækju því að hafa ekkert útvarp. Mér er strax hugsað til afa míns. Dagurinn hans er mjög innihaldslítill eftir að hann hætti að vinna, ég þarf ekki lengur að heyra í kallinum til að athuga hvað hann er að gera. Ég fer bara inná netið og skoða hvaða þáttur er á Rás 1 hverju sinni. Svo ég held að sá gamli yrði ekki sáttur við þessar breytingar.
Þegar öllu er á botninn hvolft held ég að líf án útvarps væri ekki svo slæmt fyrir mína kynslóð.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir