Hve lífið er hverfult

Þar sem himinn og haf mætast
Það hafa orðið fjögur banaslys á sunnanverðu landinu á innan við viku. Allt voru þetta karlmenn komnir yfir miðjan aldur nema einn.

Fyrsta banaslysið varð í Hafnarfirði þar sem karlmaður á sjötugs aldri varð undir bíl sem hann var að gera við. Svo ótrúlega vildi til að annað hliðstætt banaslys var þremur dögum seinna í Reykjavík, þar lést ungur maður á þrítugs aldri. Hverjar skyldu vera líkurnar á að svona slys verði tvisvar á fjórum dögum.   

Sama dag og ungi maðurinn lést í Reykjavík, lætur karlmaður á áttræðisaldri lífið í umferðarslysi á Eyrarbakkavegi, þar sem hann ekur inná aðalveg í veg fyrir vörubíl. Nú getum við sagt við okkur að þesssu banaslysum hljóti að vera lokið í bili þar sem þau eru orðin þrjú. Það er jú sagt allt er þegar þrennt er, en nei því miður átti það ekki við í þetta skiptið. 
Þrem dögum seinna lætur karlmaður á sextugs aldri lífið í umferðarslysi á Suðurlandsvegi, stutt frá Hveragerði. Bíll ökumanns sem kemur úr gagnstæðri átt, rekst í hornið á vörubíl sem sendibíll ekur á eftir, rennur aftur með vinstri hlið hans og framan á sendibílinn með þeim afleiðingum að ökumaður sendibílsins deyr. 
Voru þessir menn allir orðnir bráðfeigir, það er til orðtak sem segir að það verði ekki feigum forðað né ófeigum í hel komið. Ég get ekki varist þeirri hugsun að kannski sé bara mikið til í þessu, fólk lifir af ótrúlegustu slys en svo verða óskiljanleg óhöpp sem draga menn til dauða. 
Öll þessu skyndilegu dauðsföll vekja mig til umhugsunar um það hve lífið er hverfult. Við ættum ekki að geyma það til morguns að segja vinum okkar og ættingjum að okkur þyki vænt um þá, og reyna að forðast að eiga í illdeilum vegna ómerkilegra hluta. 
Það er erfitt að missa einhvern nákominn, þó maður sé ekki líka að álasa sér fyrir að hafa nú ekki gert þetta eða hitt fyrir viðkomandi meðan hann var á lífi. 
Þegar ég er að leggja lokahönd á þennan pistil, kemur í fréttum að karlmaður á fimmtugsaldri hafi látist í bruna á Blönduósi. Fer þessum ósköpum ekki að linna.
 
Ingibjörg Jónsdóttir

Mynd: Ingibjörg Jónsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir