Líkar lífið fyrir norðan

Elías í leik með Þórsurum. Mynd Palli Jóh.
Njarðvíkingurinn Elías Kristjánsson hefur komið sér kirfilega fyrir í höfuðstað Norðurlands. Elías sem er 24 ára stundar nám í lögfræði við Háskólann á Akureyri en hann leikur auk þess körfubolta með Þórsurum í 1. deild. Hann kann ákaflega vel við sig í skólanum þar sem öflugt félagslíf og gott aðgengi að kennurum fá að njóta sín að hans mati. Elías er auk þess ánægður með menninguna í bæjarfélaginu. En hvernig gengur annars Suðurnesjamanninum að fóta sig á Akureyri?


„Bara mjög vel. Fólkið hér tekur manni með opnum örmum og manni leið strax vel. Það tók því ekki langan tíma að eignast marga vini hérna. Fyrirtækin á Akureyri eru líka dugleg að veita námsmönnum hér afslætti af sinni þjónustu og hentar það fátækum námsmönnum mjög vel,“ segir Elías sem upphaflega kom til Akureyrar vegna þess að honum þótti tími kominn til þess að breyta til hjá sér.

Árið 2010 byrjaði Elías í vélarverkfræði við Háskólann í Reykjavík en áttaði sig fljótlega á því að það nám hentaði honum ekki. Hann hætti í námi og fór að sækja sjóinn. Hann hafði þó alltaf hug á því að snúa sér aftur að bókunum. Með breytingar í huga sóttist hann eftir því að hefja lögfræðinám á Akureyri og fékk inngöngu í HA haustið 2011.

„Sá strax að þetta hentaði mér vel“

„Ég sá strax að þetta nám hentaði mér vel og sé ég ekki eftir því að hafa komið hingað í dag,“ segir Elías en hann viðurkennir að körfuboltinn hafi haft sitt að segja í þessari ákvörðun sinni. Nú er Elías á þriðja ári í lögfræði og eins og áður segir líkar honum lífið vel á Akureyri.

„Skólinn er frábær. Lögfræðin er byggð á símati sem þýðir að námskeiðum lýkur ekki með einu stóru lokaprófi, heldur eru námsþáttunum skipt niður í verkefni, ritgerðir, fyrirlestra eða próf. Þetta kerfi hentar mér vel þar sem ég er ekki mikið fyrir lokapróf, mér finnst ég líka læra töluvert meira með þessu fyrirkomulagi. Skólinn er frekar lítill og er því aðgengi að kennurum mikið og ef spurningar vakna í tíma er ekkert mál að koma þeim á framfæri. Félagslífið í skólanum er mjög öflugt og nánast hverja einustu helgi er eitthvað um að vera.“

Elías segir að körfuboltinn hafi vissulega hjálpað honum að aðlagast í nýjum bæ en í kringum körfuna hefur hann kynnst góðu fólki. Elías hefur staðið sig vel með liðinu sem var nálægt því að komst í efstu deild í vor. Í dag er hann annar af tveimur fyrirliðum liðsins.

Þó svo að lífið sé ljúft og gott á Akureyri þá segist Njarðvíkingurinn ekki vera viss um að hann verði þar til frambúðar „Ég hef nú alltaf talað um að ég vilji flytja aftur suður eftir námið og þá aðallega vegna þess að fjöldskyldan býr fyrir sunnan. Akureyri er samt frábær staður og ég gæti alveg séð mig hérna í framtíðinni ef hlutirnir spilast þannig.“

Mikið um að vera á Akureyri

Elías er hrifinn af menningunni sem þrífst á Akureyri en hann segir staðinn vera eins konar milliveg frá Reykjanesbæ, þar sem hann ólst upp, og höfuðborginni Reykjavík.

„Það er aðeins meira hægt að gera á Akureyri en í Reykjanesbæ, t.d. er hægt að fara á skíði, skauta, tónleika, tvö bíóhús eru hér í boði og hér er mikil kaffihúsamenning, eitthvað sem hefur ekki náð fótfestu fyrir sunnan. Það er þó kannski ekki jafn mikið líf hérna og í Reykjavík,“ segir lögfræðineminn að lokum.

Elías (lengst til hægri) ásamt skólafélögum sínum á árshátíð HA 2013.Það er alltaf eitthvað um að vera í félagslífinu.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir