Listastefna óskast

Vægi listsköpunar þarf að aukast

Á baksíðu Morgunblaðsins, mánudaginn15. september, er sagt frá hugmyndum Hjálmars H. Ragnarssonar rektors Listaháskóla Íslands en hann var í hópi málshefjenda í málstofu Menntaþings 2008.  Málstofan fjallaði um list- og verknám, skapandi starf á öllum skólastigum.  Hjálmar segir listastefnu vanta í skólakerfið og leggur til að harðræði stundarskrárinnar verði afnumið.

Hjálmar vill gera skólann að meira spennandi vinnustað með óvæntar uppákomur sem krydd í tilveruna. Hann nefnir að það geti varla verið tilviljun að mörgum, sem síðar fari í listnám, hafi af ýmsum ástæðum ekki liðið vel í grunnskóla.  Hann telur að það yrði mjög til bóta ef verkefnum á borð við leiksýningar og aðrar uppákomur yrði gert hærra undir höfði, og leggur til að innan skólanna starfi teymi listamanna og hugmyndasmiða. 

 Ég tel mig hafa ástæðu til að fagna þessum hugmyndum Hjálmars þar sem ég hef starfað sem grunnskólakennari í 20 ár og tel mig hafa orðið nokkuð góða yfirsýn.  Mér finnast hlutirnir töluvert hafa breyst og tel ég að máttur skrifræðis hafi tekið öll völd í skólakerfinu auk þess sem peningar skipta orðið töluverðu máli og komi þá helst niður á umræddum greinum.  Það þarf líklegast heldur ekki að fjölyrða um það að laun kennara bjóða ekki uppá sveigjanleika og þeir frekar litnir hornauga sem vilja vinna hugsjónastarf.  Ég hef alla trú á því að innan hvers skóla finnist fólk sem hafi áhuga á skapandi starfi en sé ekki ætlaður tími né fjármagn til að vinna að slíkum hlutum. 

 Það verður ekki hjá því horft að íþróttum er gert hátt undir höfði og er það vel því það reynist hin besta forvörn.  En það þarf að taka tillit til þess að það hafa ekki allir sama áhugann á þeim og því miður hefur ekki ríkt sama samstaðan um önnur áhugasvið barna og unglinga.  Það er orðin þekkt staðreynd að drengjum líður mun verr í skólum en stúlkum og hvort sem það skrifast á eðli þeirra eða ekki þá virðist löng seta yfir bókum kalla á vansæld og óróleika.  Ég hef reyndar gengið svo langt að telja það mannréttindabrot að láta drengi, sérstaklega, sitja í klukkutíma löngum kennslustundum, þegja og kúra sig yfir bækur. Það gæti verið einn hlutur sem þyrfti að skoða varðandi agaleysi í skólum.

 Það er vissulega hlutverk okkar fullorðna fólksins að standa vörð um framtíð barnanna en við verðum líka að hlusta á þau og ekki síst gera okkur grein fyrir því að mannlífsflóran er breytileg.  Hjálmar stingur upp á því að listamenn, vísindamenn og fólk úr atvinnulífinu verði fengið inn í skólana til að sinna einstökum verkefnum og finnst mér það frábær hugmynd.  Ef við ætlum í raun að standa undir væntingum með einstaklingsbundnar námskrár þá er ég hrædd um að Aðalnámskrár verði að endurskoða með tilliti til þess að ekki séu allir sniðnir að bóknámi þegar að því kemur að meta frammistöðu.  Varðandi framhaldsskólana langar mig að koma því að hér að í Verkmenntaskólanum á Akureyri er starfrækt listnámsbraut sem er í jákvæðri þróun og eftir því sem ég hef andað að mér sjálf þá ríkir þar alveg sérstakt andrúmsloft. 

 Við viljum öll vinna á þannig vinnustað að við hlökkum til að fara í vinnuna, það sama gildir um börnin og unglingana.

 

                                                                                Hlín Bolladóttir

Mynd: af netinu

 

     


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir