Listhagur prestur

Sr. Sighvatur Karlsson mundar pensilinn.

Á dögunum hitti greinarhöfundur fyrir sóknarprestinn á Húsavík Sr. Sighvat Karlsson. Sighvatur er leikinn myndlistarmaður og vinnur að listsköpun sinni ásamt öðru,þegar hann ekki er að messa yfir sóknarbörnum sínum. Sighvatur er núverandi formaður Myndlistarklúbbs Húsavíkur  og svaraði fúslega spurningum blaðakonu um starfssemi klúbbsins. Klúbburinn var stofnaður í kjölfar fimm daga námskeiðs sem Örn Ingi Gíslason fjöllistamaður á Akureyri hélt í apríl 1996. Hann var þá með olíumálunarnámskeið fyrir fullorðna í núverandi húsnæði Geðræktarmiðstöðvarinnar Setursins á Húsavík, hann var með námskeið fyrir myndlistarfólk á kvöldin, en skapandi verkefni fyrir leikskólabörn að deginum til. Helgina eftir námskeiðið var efnt til samsýningar þessa tveggja hópa í Safnahúsinu á Húsavík sem vakti mikla athygli. Örn Ingi tók sýninguna upp á myndband, auk þess sem hann tók viðtal við sýnendur og eru þau viðtöl enn til í fórum þess fólks.
Sighvatur segir sig hafa verið sjálfskipaðan fyrsta formann klúbbsins, en ritari hafi verið, og sé enn Guðrún Steingrímsdóttir og segir hana enn geyma fundargerðir sem margar séu fróðlegar, stuttar og hnitmiðaðar.
Félagar í klúbbnum voru á upphafstímum hans um 20 en í dag telji hann að  félagar séu í kringum 30 manns, og fólk sé á öllum aldri.
 Klúbburinn gekk að sögn Sighvats í endurnýjun lífdaga árið 2010. „Þá sótti ég um styrk fyrir hönd klúbbsins án þess að spyrja kóng eða prest, það er að segja aðra stjórnarmenn eða félaga“.

Síðastliðið sumar vakti athygli samsýning Myndlistaklúbbsins á norrænu Siglingarhátíðinni á Húsavík sem haldin var í kringum Mærudagana í sama bæjarfélagi. Börn fengu einnig að spreyta sig á listsköpun á sýningunni og héngu verk þeirra líka uppi meðan á sýningunni stóð. „Við settum okkur markmið að vera með á þessari sýningu, hún var fjölsótt og um 700 manns skráðu nafn sitt í gestabók, við höfum fullan hug á að endurtaka þennan leik á næstu Mærudögum, með börnunum“,segir Sighvatur.
 Aðspurður segir Sighvatur þó nokkra kennara og listamenn hafa komið til klúbbsins með námskeið auk Arnar Inga, og nefnir þau Kristínu Blöndal, Daða Guðbjörnsson og Soffíu Sæmundsdóttur í því samhengi. Nýverið hafi Derek Mundell haldið lærdómsríkt og vel heppnað vatnslitanámskeið hjá klúbbnum og áhugi sé á að hann komi aftur.

Blaðamaður þakkar Sighvati kærlega fyrir skemmtilegt spjallið og óskar Myndlistarklúbbi Húsavíkur alls hins besta í framtíðinni. Jafnframt má geta þess að áhugasamir geta haft samband við Sighvat hafi þeir hug á að ganga í klúbbinn, og fá þá nánari upplýsingar um starfsemina.Alma Lilja Ævarsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir