Ljótu hálfvitarnir heimsćkja Akureyri

Ljótu Hálfvitarnir. Mynd/Hafţór Hreiđarsson

Ljótu hálfvitarnir sneru aftur úr eins og hálfs árs pásu síðastliðna helgi þegar þeir stigu á stokk á Café Rósenberg í Reykjavík og héldu tvenna tónleika. Þeir láta ekki kjurrt við liggja þar og halda norður yfir heiðar á Græna Hattinn nú um helgina.

Við slíkar kringumstæður er ekki annað hægt en að taka stöðuna á þeim köppum og varð Snæbjörn Ragnarsson, oft nefndur bibbi, fyrir barðinu á fréttamanni Landspóstsins. 

,,Pásan var mjög skipulögð, og reyndar sennilega eitt það allra skipulagðasta sem þessi kaótíski félagskapur hefur gert. Þannig er málið vaxið að við vorum búnir að vera stórkostlega duglegir að spila allt frá árinu 2006, sum sé í rúmlega fjögur ár þegar þarna er komið við sögu. Keyrslan var búin að vera gríðarleg, þrjár breiðskífur komu út á þessum tíma og hverri og einni fylgt eftir af harðfylgi. Við spiluðum alltaf og allstaðar og það er leitun að hljómsveit sem hefur verið jafn dugleg við að þræða landbyggðarplássin. En já, þegar rétt var liðið á árið 2010 fundum við að það var komin þreyta í mannskapinn, keyrslan gríðarleg, óreglan talsverð og í níu manna félagsskap fer mórallinn fljótt niður á við þegar hrikta tekur í stoðum. Og af einhverri óútskýrðri skynsemi tókum við þá meðvituðu ákvörðun að klára tónleikasumarið 2010 og leggjast síðan í dvala, áður en illa færi,” sagði Snæbjörn aðspurður um tildrög pásunnar. En hvað veldur því að hljómsveitin snúi aftur?

,,Við vissum sirka hversu löng pásan yrði, við tókum púlsinn reglulega en vorum þó í raun með það á hreinu að við myndum hefja leika aftur á vormánuðum 2012. Nú er sá tími kominn og allt á plani, við miklu spilagraðari en við vorum fyrir pásuna, ennþá vinir og félagar og almennt hefur bandið haft mjög gott af þessum hvíldartíma, Og ennþá sömu níu stofnmeðlimir frá árinu 2006, geri aðrir betur, allir glaðir og hafa gaman af þessu. Það er mikilvægast,” voru orð Snæbjörns.

Heimavöllur Ljótu hálfvitanna á Akureyri hefur alltaf verið Græni Hatturinn og þeir jafnvel haldið þrenna tónleika á tveimur kvöldum til þess að anna eftirspurn.

,,Það er eitthvað alveg sérstakt við Græna. Í fyrsta lagi verður að tala aðeins um meistara Hauk Tryggvason sem rekur þennan sérstaka stað. Starf hans í þágu tónleikamenningar á Íslandi er algerlega einstakt og hreinlega óvíst hvar málin stæðu ef hans nyti ekki við. Ofan á dugnaðinn og þennan brennandi áhuga er hann að auki konungur heim að sækja og því er engin tilviljun að þessi staður verði fyrir valinu hjá okkur aftur og aftur. Það hefur myndast mjög fallegt samstarf milli okkar og hans og þó svo að við gætum sjálfsagt fyllt miklu stærri sali hugnast okkur frekar að spila 2-3 kvöld í röð á Hattinum,”

Auk Hauks hefur húsið sjálft hlotið mikið lof fyrir að vera afbragðs tónleikastaður. Eru Ljótu hálfvitarnir á sama máli?

,,Staðurinn sjálfur hentar okkur mjög vel, sitjandi kaffihúsastemning er okkur að skapi. Auðvitað er gaman að bregða út af vananum en þó kjósum við þetta venjulega frekar en hina formlegu leikhúsuppstillingu eða standandi ball ef því er við komandi. Með þessu móti getur fólk notið tónlistar og sungið með, hlustað á gamanmál og skálað við vini sína. Við erum svona þorrablótsskemmtun. Og svo er bjórinn góður á Græna”.

Fyrir pásu voru hálfvitarnir duglegir við að heimsækja Akureyri og spila fyrir bæjarbúa en stundum héldu þeir sex tónleika hér á ári fyrir fullu húsi. Er gaman að spila fyrir Akureyringa?

,,Já, mjög. Þó hefur það ekki alltaf verið þannig. Fyrir ekkert svo mörgum árum var mjög erfitt að halda tónleika og slíkar skemmtanir á Akureyri því mætingin var alltaf mjög slæm. Kannski hefur það verið öðruvísi með innanbæjarböndin, en ég hef víst alltaf talist utanbæjarmaður á Akureyri svo ég veit það ekki. Hvort Haukur hefur hreinlega náð að kenna Akureyringum að mæta á tónleika eða hvað, þetta hefur í það minnsta breyst og því ber að fagna. Í dag er mjög skemmtilegt að skemmta sér með Eyfirðingum öllum, þeir kunna undirstöðuatriðin vel, að syngja og fá sér,”

,,Við erum ekki komnir með fastmótaða stefnu varðandi útgáfu en það kemur sjálfsagt plata áður en allt of langt um líður. Við erum nú þegar byrjaðir að semja og eitthvað mun jafnvel heyrast núna um helgina á Hattinum. Svo er það nú einn kosturinn við að vera í níu manna sveit, ef allir semja eitt lag er í raun orðinn grundvöllur fyrir plötuútgáfu. Þetta gæti því gerst hratt,” sagði Snæbjörn í umræðu um hvort að von væri á nýju efni frá þeim félögum.

Er eitthvað sem býr í brjósti þér að lokum?

,,Ég bara vonast eftir því að sjá sem allra flesta á Hattinum, bæði þá sem vita að hverju þeir ganga og ný andlit. Við mætum til leiks fullir eftirvæntingar, svo mikið er víst,”

Við þökkum Snæbirni kærlega fyrir spjallið og minnum á tónleika Ljótu hálfvitanna á Græna Hattinum um helgina. Þeir fyrri eru á föstudagskvöldið og þeir seinni á laugardagskvöldið en báðir hefjast kl.22.00. Uppselt er í forsölu á seinni tónleikana en örfáir miðar verða til sölu við innganginn. Við hvetjum alla áhugasama til þess að kíkja á hressandi tónleika.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgđ ţeirra sem ţćr skrá. Landpósturinn áskilur sér ţó rétt til ađ eyđa ummćlum sem metin verđa sem ćrumeiđandi eđa ósćmileg.
Smelltu hér til ađ tilkynna óviđeigandi athugasemdir.

Svćđi

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiđlafrćđinema viđ Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guđmundsson, Hjalti Ţór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir