Lóan lýgur

Mynd: visindavefur.hi.is

Alltaf er maður jafn vitlaus þegar komið er framyfir febrúar og vorið virðist vera að færist nær og nær með hverjum deginum. Það er sama sagan ár eftir ár, maður fær alltaf þá flugu í höfuðið þegar snjórinn hverfur í smá stund að vorið sé komið. En eins og allir vita er þessi árstími oft nokkuð köflóttur og ekki hægt að búast við því að sólin sem skein í gær skíni á morgun líka. Veðrið breytist nefnilega dag frá degi og stundum er sól, stundum rok, stundum rigning, stundum snjór og stundum ekki, ásamt öllu sem þarna er á milli. Þrátt fyrir að maður viti þetta full vel, af fenginni reynslu síðustu ára, tekst manni samt alltaf að ljúga því að sjálfum sér að núna sé snjórinn farinn og að hann komi ekki aftur fyrr en næsta vetur.

Þetta er nokkurnvegin það sem ég hef verið að berjast við síðustu daga og vikur. Snjórinn fór og ég var alveg einstaklega sáttur við það og sagði við sjálfan mig að þetta hlyti að vera komið núna. En svo var auðvitað ekki og núna er allt orðið hvítt aftur og gott betur en það. Er maður með svona lélegt minni eða hvað? Þarf maður að ganga með minnismiða á sér sem segir manni það að þó að snjórinn hverfi sé ekki þar með sagt að sumarið sé komið? Ég er allavega farinn að hallast að því að eitthvað þurfi maður að gera í þessu. Einfaldlega vegna þess að ég þoli ekki mikið fleiri veðurfarsleg vonbrigði þennan veturinn.

Svo má einnig benda á það að Lóan er ekki vorboði, hún lýgur.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir