Lokað!

Mynd af heimasíðu Vegagerðarinnar að kvöldi 9. janúar 2012, sem sýnir ófærð á Hellisheiði.
Hvenær er lokað lokað? Er til að mynda lokaður þjóðvegur næstum opinn eða er hann lokaður? Eins og flestir Íslendingar vita þá gekk yfir landið mjög slæmt veður 9. og 10. janúar síðastliðinn. Vegagerðin varaði fólk við að fara Hellisheiðina að kvöldi 9. janúar og var heiðinni lokað seinna um kvöldið vegna veðurs og færðar. Þar sem ég er alin upp, á Austfjörðum, þýddi lokaður fjallvegur það að hann var lokaður og þá var ekki lagt af stað fyrr en búið var að opna fjallveginn aftur. Þar sem ég bý nú, á Akureyri, þýðir lokaður líka lokaður þjóðvegur og ekkert lagt af stað fyrr en búið er að ryðja hann. Á suðurlandsundirlendinu virðist hins vegar lokaður þjóðvegur ekkert endilega þýða lokaður þjóðvegur og það fengu björgunarsveitarmenn að finna fyrir 9. og 10. janúar.

Ófá útköllin fengu björgunarsveitarmenn við að aðstoða fólk á Hellisheiðinni þetta örlagaríka kvöld og nótt og þurftu að bjarga mörgum niður af heiðinni. Á þriðjudeginum þá var þessi sami vegur enn lokaður en það þurftu að vera bílar, með blikkandi ljósum, þversum sitthvoru megin við Hellisheiðina til að varna því að fólk legði á heiðina.

Þá spyr ég, eins og kjáni kannski, hvað er að fólki sem hagar sér svona? Er þetta einhver ævintýramennska eða hvað er þetta? Eru allir að flýta sér svona mikið að þeir láta sem vind um eyru þjóta þær viðvaranir sem gefnar eru út? Svo mikið er víst að ég skil þetta alls ekki. Þar sem ég bjó fyrir austan og þar sem ég bý nú eru margir fjallvegir sem þarf oft að fara til að komast á milli staða. Ég tala að sjálfsögðu bara fyrir mig en ef búið er að loka einhverjum þjóðvegi vegna ófærðar og veðurs þá fer maður að sjálfsögðu ekkert af stað. Þó er það morgunljóst að fréttaflutningur af fólki sem þarf að bjarga niður af fjallvegum og heiðum er mun minni á Austurlandi, Norðurlandi og Vestfjörðum. Kannski er ástæðan sú að fólk á þessum svæðum er vanari alvöru vetrum, kannski vegna þess að fólk á þessum svæðum keyrir um á nagladekkjum, kannski notar fólk á þessum svæðum þann ágæta vef sem Vegagerðin heldur úti, http://www.vegagerdin.is/.  Kannski þetta, kannski hitt, maður veit ekki.

En að öllu jöfnu er að mörgu að hyggja þegar verið er að keyra í snjó um þjóðvegi landsins. Fólk verður að fara að hugsa aðeins út fyrir rammann og hugsa! Erum við ekki oft að bölva erlendum ferðamönnum sem koma til landsins og ana út í einhverja vitleysu, kannski af því þeir vita ekki betur, fyrir vitleysuna í þeim? Þá eru björgunarsveitarmenn sendir á vettvang til að bjarga þeim. Er þá ekki komin tími á þá sem bölva erlendu ferðamönnunum að líta í eigin barm og hugsa aðeins. Eigum við Íslendingar ekki líka að gefa þeim frí með því að hætta að kalla út björgunarsveitir til að bjarga fólki af fjallvegum landsins, sem þegar er búið að loka? Eiga þeir það ekki alveg skilið af okkur?

Að lokum er vert að minna á þann ágæta vef, http://www.vegagerdin.is/, en þar má finna allar upplýsingar um færð og veður um ALLT land. Það er hægt að velja þann landshluta sem ferðast á um í og þar koma fram allar upplýsingar sem vert er að vita áður en lagt er af stað í langferð. Nokkur tákn er þar að finna sem þýða t.d. LOKAÐ, hált, flughált o.fl.

Á heimasíðu mbl.is má finna eftirfarandi tvær fréttir Innlent

Hafa þegar aðstoðað þó nokkra

„Ætli við séum ekki búin að aðstoða sjö eða átta bíla og höfum náð að snúa einhverjum við til Hveragerðis. Það er mjög vont veður, leiðinleg færð og hált undir,“ segir Lárus Kristinn Guðmundsson, formaður Hjálparsveitar skáta í Hveragerði, sem er að störfum við að hjálpa ökumönnum á Hellisheiði. (9.1.2012 | 22:06).

Ekkert ferðaveður

Tugir björgunarsveitarmanna voru að störfum í nótt út um allt land við að aðstoða fólk sem sat fast í bílum vegna veðurs og ófærðar. Mjög vont veður er enn á landinu og lögregla og Neyðarlínan hvetur fólk til að fara ekki af stað nema hafa fullvissað sig um að vegir séu færir. (10.1.2012 | 6:31).

Bjarney Hallgrímsdóttir


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir