Lomography!

Mynd tekin af: lomography.com
Lomography myndavélarnar eru langt í frá nýjar á markaðnum - þær fæddust í raun árið 1982 einhver stór kall í Sovétríkjunum ákvað að þetta væri eitthvað sem væri þess virði að skoða og skellti því í framleiðslu. 

Síðan þá hafa þær átt sín „up's & down's“ - og jafnvel nær horfið af sjónarsviðinu, en eru í dag gríðarlega vinsælar. Lomography myndavélarnar eru filmuvélar, sem taka alveg ótrúlega skemmtilegar myndir. 
Ég þekki þessar vélar persónulega alltof lítið, og reyndar flestar myndavélar ef út í það er farið - ég á ennþá mína gömlu digital vél sem ég keypti af vinkonu minni á slikk þegar hún öppgreidaði. Myndirnar mínar samanstanda af myndum teknum af nefi, hári og leggjum fólks á skemmtistöðum bæjarins, nú eða vandræðalegar barnamyndir af afkvæminu. 

Stundum hefur mig langað að gerast 'arty' - og hef því fengið vél foreldra minna lánaða, það er Canon EOS D 2002 BCB 204.. eða eitthvað.. annað kannski. Hún er allavega rosa stór og fín, og henni fylgja allskonar flass (flöss?) í öllum stærðum og gerðum. Ég dánlódaði því photoshop (fullkomlega löglega að sjálfsögðu) og ákvað að nú skyldi ég eiga fullt fullt af myndum af mér og mínum - en bara, fallegar í þetta skiptið. 

Það tókst ekki. Ég kunni ekkert á stillingarnar á þessari asnalegu vél, og hún var svo skýr að allar svitaholur og allar hrukkur sáust alltof vel, svo ég hætti snarlega notkun. 

Svo benti systir mín mér á lomography vélarnar - vélar sem festa hreina töfra á filmu! Og, samkvæmt hinum tíu gullnu reglum lomo - þá á maður ekki að hugsa of mikið um það hvernig myndirnar koma út. Bara smella af og vera snöggur að því! ... og njóta svo litadýrðarinnar og afrakstursins. 

Ég var búin að hugsa lengi um það hve mikið mig langaði að eignast svona dásemdar vél, og viti menn - ég var svo heppin að vinna eitt eintak af DIANA vél sem ég fæ afhenta eftir helgi - og mikið sem ég hlakka til að fara að smella af, og vera „arty“ án þess að hafa fyrir því! 

Allar upplýsingar um vélarnar er hægt að nálgast á: lomography.com - en þar eru líka ótal myndir sem hægt er að skoða, sem eru einmitt teknar á svona vélar. 

Njótið! 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir