Lyftistöng Akureyrar

Háskólinn á Akureyri.
Háskólinn á Akureyri á sér ekki langa sögu en er orðinn eitt helsta einkenni bæjarins. Fjöldi nemenda stundar þar nám við ólíkar námsbrautir og setur með nærveru sinni lit á mannlífið. Skólinn er lítill og persónulegur og býr yfir sérstöðu á mörgum sviðum, til dæmis varðandi námsframboð og notalegt andrúmsloft.


Skóli í hröðum vexti

Háskólinn á Akureyri var stofnaður árið 1987. Í fyrstu var skólinn lítill í sniðum og ólíkur þeim sem við þekkjum í dag, starfsmennirnir voru fjórir og nemendurnir 31. Til að byrja með var skólinn með aðstöðu í húsi gamla Iðnskólans við Þingvallastræti. Kennt var í tveimur stofum og í tveimur deildum, rekstrardeild og heilbrigðisdeild.

Árið 1990 var sjávarútvegsdeild stofnuð og skapaði skólinn sér sérstöðu þar, því hvergi annars staðar er boðið upp á nám í þeim fræðum hérlendis. Þremur árum seinna var kennaradeild komið á laggirnar og því var flutningurinn í framtíðarhúsnæði skólans, Sólborg, afar kærkomin árið 1995. Síðan hefur námsframboð aukist jafnt og þétt og er nú boðið upp á grunnnám í 11 greinum og framhaldsnám í fjórum.

Árið 1998 hófu fyrstu fjarnemarnir nám við skólann og grunnur var lagður að því fjarnámi sem nú er boðið upp á.

Borgir, rannsókna- og nýsköpunarhús var tekið í gagnið 2004 og þar fer hluti kennslu háskólans fram, þá aðallega á sviði raunvísinda. Í sama húsi eru aðrar rannsóknarstofnanir sem starfa náið með háskólanum.
Þessi hraði vöxtur skólans og fjölbreytni í námsframboði sýnir hve mikil þörf var fyrir öflugan háskóla á landsbyggðinni, þess skal einnig getið að flestir þeir nemendur sem stunda nám við Háskólann á Akureyri fara til starfa úti á landi. Annað einkenni skólans er hve lítill og persónulegur hann er.

Margir þeirra nemenda sem stunda nám við hann völdu hann einmitt vegna þessa. Sumu fólki finnst tilhugsunin að nema við stóra stofnun ýmist fráhrindandi eða ógnandi. Við Háskólann á Akureyrir fær það persónulegri kennslu, bekkjarstærðir eru minni og því er almenn þátttaka í tímum auðveldari og persónulegri.

Vöxtur skólans hefur verið ör og nú eru um 200 starfsmenn og 1.500 nemendur við skólann. Á tiltölulega stuttum tíma hefur skólanum tekist að byggja upp gott orðspor í háskólaflórunni á Íslandi. Með því að mennta fólk, búa það undir þátttöku í atvinnulífinu og jafnvel frekara framhaldsnám er lagður grunnur að því góða starfi sem fram fer innan stofnunarinnar og gamlir nemendur bera vitni um.

Auk alls þess sem greint er frá skipar skólinn stóran sess í samfélaginu á Akureyri í dag og hefur breytt bæjarmyndinni og anda bæjarins. Aðkomufólk er boðið velkomið og allt mannlíf hefur blómstrað sem aldrei fyrr.


Fjölbreytni, samvinna og fjarnám
Háskólinn á Akureyri býður upp á fjölbreyttar námsleiðir. Framboð á fjarnámi hefur aukist og fjöldi nemenda nýtir sér þá námsleið. Skólinn er einnig í samstarfi við Háskóla Íslands og Háskólann að Hólum. Nemendum í HA er oft bent á fög í þessum skólum sem gætu hjálpað þeim að fá betri skilning á sínu sérsviði.

Það er því algengt að nemendur við Háskólann á Akureyri nemi einhver fög annað hvort á Hólum eða í HÍ, og svo auðvitað öfugt.

Haustið 2011 hófst kennsla í fjarnámi á hug- og félagsvísindasviði.Við það kom þó nokkur fjöldi nemenda frá HÍ yfir til HA. Varð sálfræðibrautin fjölmennust fyrir vikið. Vegna framboðs á fjarnámi innan þessa sviðs varð mikil fjölgun nemenda á öllum brautum. Er það fjölmennasta svið skólans en um helmingur nemenda stundar nám innan þess.

Hinn hlutinn skiptist á milli heilbrigðisvísindasviðs annars vegar og viðskipta- og raunvísindasvið hins vegar.
Mikill munur er á fjölda kynjanna innan skólans. Samkvæmt tölum frá haustinu 2012 eru karlkyns nemendur ekki nema rétt um 20% og eru í minnihluta á öllum sviðum. Fæstir karlmenn eru á heilbrigðissviði en flestir á viðskipta- og raunvísindasviði.

Hlýjar móttökur
Sæunn Mjöll Stefánsdóttir er konan sem vinnur á þjónustuborði Háskólans á Akureyri og hefur starfað við skólann síðan 2008. Hún tekur á móti fólki þegar það kemur inn í skólann. Sæunn þjónustar nemendur og starfsfólk við hin ýmsu verkefni og það eru mjög margir sem leita til hennar. Helst eru það nemendur að spyrja í hvaða tíma þeir eigi að fara og í hvaða stofu. Hún sér líka um að bóka stofur fyrir kennara, tekur við vottorðum vegna veikinda og sér um óskilamuni.

Svo er hægt að leita til hennar með nánast hvað sem er. Sæunn er sem sagt svolítið allt í öllu innan Háskólans. Henni finnst vinnan skemmtileg og fjölbreytt. Hún segir að flestir nemendur séu jákvæðir, hressir og kurteisir. Það hafa ekki orðið miklar breytingar á skólanum síðan hún hóf störf þar, fyrir utan að skólinn hefur stækkað. Hópur fjarnema fer líka sífellt vaxandi, en hann er orðinn stærsti hluti nemenda. Því færist mikið líf og fjör í skólann þegar staðlotur fjarnema standa yfir.


Hjarta skólans
Virðing og samkennd eru lýsandi fyrir andrúmsloftið innan veggja skólans sem og utan. Umgengin er til fyrirmyndar og nemendur eru almennt duglegir við að flokka sorp í þar til gerðar tunnur. Allir eru tilbúnir til að fylgja reglum og virða aðra sem og eigur þeirra. Kennarar eru viðkunnanlegir og alltaf boðnir og búnir að aðstoða nemendur. Þeir gefa jafnvel upp símanúmer sitt svo hægt sé að ná á þeim. Lýsandi fyrir þessa samkennd eru kaffistofan og fatahengið.

Allir nemendur skólans hafa aðgang að lítilli kaffistofu en þar er ískápur sem þeir geta nýtt sér til þess að geyma nestið sitt og það fær að vera í friði. Það sama á við um mat sem er settur í örbylgjuofninn jafnvel þó eigandinn skreppi frá. Kaffivélin er hjarta kaffiteríunnar þar sem hún dælir kaffi í nemendur þegar þeir þurfa mest á því að halda. Hún heldur ótrauð áfram þrátt fyrir að dæla út mörgum lítrum af kaffi á dag.

Fatahengið er í kjallara skólans og þar geyma nemendur útifötin sín, skóna og húfurnar ef þannig viðrar og engu er stolið.

Hjálpsemi og nánd þrátt fyrir fjarlægð
,,Að koma sem fjarnemi í staðlotur háskólans er mjög gaman og manni líður eins og maður sé hluti af heildinni", segir Lísbet Sigurðardóttir sem stundar fjarnám í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri. Henni finnst gott viðmót mæta henni og Sæunn í anddyrinu hefur reynst henni vel og að allir innan skólans taki henni opnum örmum. Fjarnemar njóta mikils skilnings þegar þeim finnst þeir hálf týndir og allir eru boðnir og búnir að hjálpa. Henni finnst andinn í skólanum mjög notalegur og finnur fyrir honum þvert yfir landið þaðan sem hún stundar nám sitt. Kennararnir eru alltaf til taks og gefa jafnvel upp símanúmer sín og sumir þeirra eiga það til að hringja í nemendur og ræða við þá persónulega. Öllum tölvupóstum er svarað og séð er til þess að sambandið sé gott og skilvirkt.

Háskólinn á Akureyri hefur vaxið og dafnað undanfarin 26 ár. Nemendum og námsframboð fjölgar sífellt en þó ekki á kostnað persónulegrar þjónustu og hlýlegs viðmóts. Skólinn einkennist af jákvæðu andrúmslofti, hjálpsemi og faglegum vinnubrögðum. Allir, jafnt kennarar sem nemendur, leggjast á eitt við að skapa þá stofnun sem skólinn er í dag.

 

Hópur 2

Erna Kristín Kristjánsdóttir

Guðrún Lárusdóttir

Jón Ólafur Eiríksson

Kristín Einarsdóttir

Lísbet Sigurðardóttir

7. mars 2013


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgđ ţeirra sem ţćr skrá. Landpósturinn áskilur sér ţó rétt til ađ eyđa ummćlum sem metin verđa sem ćrumeiđandi eđa ósćmileg.
Smelltu hér til ađ tilkynna óviđeigandi athugasemdir.

Svćđi

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiđlafrćđinema viđ Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guđmundsson, Hjalti Ţór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir