MA-ingar í óvissunámsferð til Þýskalands og Frakklands

Katharina, Alexandra, Salome og Kolbrún | Mynd: SE
Á miðvikudaginn var lögðu nokkrir nemendur Menntaskólans á Akureyri upp í óvissuferð til Þýskalands og Frakklands. Hópurinn er skipaður 19 nemendum 4. bekkjar í ferðamálafræði og gengur ferðin út á að skoða heiminn og vinna svo verkefni þegar heim er komið. Nemendunum var skipt upp í 5 hópa og hver hópur fékk eina borg til að skoða og fjalla um. Tveir hópar fóru til Þýskalands, annar til Koblenz og hinn til Wiesbaden. Þrír fóru svo til Frakklands, til Rennes, Reims og Orleans, einn til hverrar borgar. Nemendurnir komu svo til baka á sunnudagsmorgunn.


Þær Kolbrún Kara Pálsdóttir, Alexandra Dögg Stefánsdóttir, Salome Konráðsdóttir og Katharina Lethaus eru einar af nítján nemendum í ferðamálafræði og öll þessi önn hefur snúist um að skrifa ritgerð um þessar fimm fyrrnefndu borgir. Þær fengu þó ekki að vita fyrr en rétt fyrir flug til hvaða borgar þær myndu fara og með hverjum þær yrðu í hóp. „Það var dregið í fyrsta tímanum á fyrri önninni og við fengum ekki að vita neitt. Þetta var voða spennandi hjá kennurunum að segja okkur ekki neitt.“ segir Kolbrún. Það kom svo í ljós í Leifstöð að þær væru saman í hópi og þeirra biði flug til Parísar og þaðan lestarferð til Rennes í norðvestur Frakklandi.

Þær voru ekki alveg sammála hvernig þeim leið að vita ekki hvert þær væru að fara, sumum þótti það spennandi en öðrum óþægilegt, en þegar til Rennes var komið „tékkuðum við okkur inn á hostelið. Við vorum í pínulitlu herbergi með fjórum rúmum sem brakaði frekar mikið í. En þetta var alveg nóg, þetta var hreint og það var sér bað, en reyndar bara sameiginlegt klósett.“ Rennes er 200.000 manna borg en mun þjappaðri en höfuðborgarsvæðið á Íslandi. „Það er allt í 5 mínútna göngufæri og það er stutt í allt.“ sögðu stúlkurnar

Tilgangurinn með ferðinni er að nemendur nýti sér þekkinguna sem þeir hafa viðað að sér á önninni og geri kynningarmyndband um borgina. „Við vorum að vakna um sjö, hálfátta á morgnana, fórum með myndavélina og skoðuðum eiginlega allt sem var í ritgerðinni.“ Þær hafa lært frönsku í nokkur ár og sögðust hafa náð að bjarga sér sæmilega með hana. „Við vorum búnar að búast við því að Frakkar hefðu enga þjónustulund og vildu ekki tala ensku við okkur og það var búið að lýsa þeim sem mjög dónalegum en eiginlega allir sem við hittum voru mjög góðir. Töluðu litla ensku en buðust alltaf til að hjálpa okkur þannig að við fengum mjög góða mynd af Frökkum í ferðinni."

 Upptaka í gangi 

Ferðin var þó ekki eintóm alvara því „á laugardaginn klukkan tvö vorum við búnar með efnið og búnar að fylla minniskortin svo við fórum í garðinn að sleikja sólina og að versla. Á kvöldin fórum við út að borða og kíktum kannski aðeins á pöbb. Aðeins að kynnast því hvernig menningin er öðruvísi. Við kynntumst líka nokkrum strákum sem við hittum á bar og erum í smá sambandi við þá í gegnum facebook. Alltaf gaman að eignast vini.“

Smá afslöppun


Ferðin var frábær að þeirra sögn þrátt fyrir smá stress í byrjun. „Svo var þetta ekkert mál. Bara gaman að komast út. Betra veður, enginn snjór. Fínt að vera í sólinni í 15 stiga hitanum. Við vorum mjög heppnar með veður, hjá einum hópnum var mígandi rigning allan tímann. Það var samt smá stress að koma sér í lestar og svoleiðis á réttum tíma. Við ætluðum t.d. að láta panta taxa fyrir okkur á sunnudagsmorguninn en maðurinn í móttökunni á hostelinu skildi ekki orð, þannig að morguninn eftir spurðum við konu í móttökunni og hún sagðist ekkert vita. Þá vorum við búnar að bíða í 10 mínútur eftir leigubíl sem var ekki einu sinni búið að panta. Við ætluðum að vera tímanlega en á endanum þurftum við að fara í neðanjarðarlest sem við höfðum aldrei notað áður til að komast til Parísar og í flugið heim, en það tókst á endanum. Þetta er miklu auðveldara en maður hélt að það yrði.“

Á næstu vikum bíður þeirra svo það verkefni að vinna úr öllu því efni sem þær söfnuðu á þessum 3 dögum í Rennes, klippa kynningarmyndbandið, vinna úr viðtölum og vinna ljósmyndir. Verkefni hópanna fimm verða svo til sýnis í lok annar. Þær voru allar mjög ánægðar með ferðina og með ferðamálafræðina í heild. „Ég held að ferðamálafræðin sé að verða mjög vinsæl í háskólum svo ég held að það sé gott að MA sé með svona gott prógram á því sviði“, sagði Alexandra og Kolbrún bætti við „ég öfunda krakkana í 3. bekk sem eru að fara á næsta ári.“


Í miðbæ Rennes. Frá vinstri: Salome, Katharina, Alexandra og Kolbrún


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir