Magnaðir tónleikar

Mynd: www.facebook.com/suede

Það er fátt meira hressandi en að skella sér á góða rokk/popp tónleika. Njóta tónlistarinnar í botn og fá rafmagnaða stemmningu beint í æð þannig að maður gleymi algerlega stund og stað.

Þó að aðal áherslan sé auðvitað alltaf á tónlistina og tónleikana sjálfa þá er margt annað í kringum þá sem gerir upplifunina enn skemmtilegri. Í fyrsta lagi stemmningin fyrir tónleikana þegar allir eru að koma sér í gírinn. Einnig finnst mér mjög gaman að líta í kring um mig og sjá fólkið sem er á tónleikunum en það er af öllum stærðum og gerðum. Svo er það náttúrulega eftirvæntingin sem er í loftinu þegar beðið er eftir að  bandið stígi á sviðið.  Svo hin magnaða stund, sem allir eru að bíða eftir þegar hljómsveitin kemur á sviðið.

Nákvæmlega þetta upplifði ég um síðustu helgi þegar ég skellti mér á frábæra tónleika með hljómsveitinni SUEDE í Leeds á Englandi. Hljómsveitin er komin saman á ný eftir 10 ára hlé. Þeir eru nú á tónleikaferðalagi um Evrópu til að fylgja eftir sjöttu plötu sinni Bloodsports sem kom út fyrr á þessu ári. Suede voru í miklu stuði og spiluðu efni af nýju plötunni í bland við eldra efni. Brett Anderson söngvari var í hörkuformi og hefur greinilega engu gleymt. Ekki spillti fyrir að staðurinn var mjög lítill og nálægðin við bandið mikil sem magnaði upp stemmninguna.

Hljómsveitin Suede var stofnuð árið 1989 í London. Hún náði hvað mestum vinsældum í kringum 1996 með þriðju plötu sinni Coming up. Hún fór á toppinn í Bretlandi og fimm lög hennar náðu inn á top 10 listann. Árið 2000 kom Suede til Íslands og spilaði í Laugardalshöllinni en hún var aðalnúmerið á Airwaves það árið.


Hérna má sjá smá sýnishorn af stemmningu kvöldsins.

 


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir