Mannanafnanefnd

Eitt vanmetnasta starf á Íslandi seinustu ár hefur líklega verið það óeigingjarna starf sem mannanafnanefnd Íslands hefur unnið. Samkvæmt orðrómum og upplýsingum byggðum á ótraustum heimildum er þessi nefnd skipuð einhverju fræðifólki sem hittast reglulega til að ákveða hvað Íslendingar mega heita. 

Nánast undantekningarlaust eftir að þessir fræðingar hafa fundað og samþykkt og hafnað einhverjum nöfnum koma fréttir á helstu fréttamiðla landsins til að skýra frá þessum niðurstöðum.

Þá fer fólk að tjá sig á facebook og þá finnst mér fólk oftast hafa neikvæðar skoðanir á starfi þessarar góðu nefndar. Það sem ég skil ekki varðandi kvartanir fólks um þetta mál og hversu fáránleg einhver nöfn eru, er eftirfarandi: er einhver að neyða þig til að nefna barnið þitt Vagnfríði eða Lauga?

Eins og ég skil þetta er mannanafnanefnd einfaldlega að gefa okkur meira frelsi til að nefna börn okkar. Ef fólk vill nefna börnin sín hefðbundnum íslenskum nöfnum þá gerir fólk það. Síðan eru hipsterar eins og ég sem leggja mikla áherslu á að vera einstakt blóm og allt það og vill þessvegna hafa þann kost á að nefna barnið mitt eitthvað sérstakt. 

Auk þess sem það er komin timi fyrir íslenska stríðnispúka í grunnskóla til að fá smá áskorun. Eru ekki öll rím fyrir nöfn eins og Jón, Gunna og Siggi að verða þreytt?

Því vil ég nota þetta tækifæri til að þakka mannanafnanefnd fyrir störf sín í þágu íslensks frumleika.


Og eitt að lokum. Ég fattaði við gerð þessa pistils hvað Hamingja væri gífurlega fallegt stúlkunafn.


Aðalsteinn Hugi Gíslason


(Ath. Það skal taka þennan pistil hæfilega alvarlega).


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir