Er réttlætisvitund samstíga lögum eða eru lög samstíga réttlætisvitund? – Lokahluti

Vogun vinnur, vogun tapar

Fordæmisgildi dómsins og margþættar afleiðingar hans.

Eftir að hafa skoðað ofan í kjölinn dóm Félagsdóms nr. 22/2015 mál Ljósmæðrafélags Íslands gegn íslenska ríkinu, talað við málsaðila þ.e.a.s. formann Ljósmæðrafélags Ísland og lögfræðing hjá Fjármálaráðuneytinu. Ekki var unnt að ná tali af fulltrúa Landspítalans vegna verkfalla eða annarra orsaka þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, jafnframt lágu svör frá BHM varðandi verkfallssjóðinn ekki á lausu. Í fyrri greinum hefur verið fjallað um atburðarás þess tíma sem liðinn er þ.e.a.s. forsöguna og dóminn, jafnframt hafa annmarkar á lögmálum reiknireglunnar verið rýndir. Hvað er þá framundan hjá þessum aðilum í kjölfar dómsins? Stór og áhrifamikil orð hafa fallið í fjölmiðlum frá fulltrúum stéttarfélaga, þar sem þeir gera sér grein fyrir fordæmisgildi og áhrifum þessa dóms.

Fordæmisgildið á við þá sem eru að semja við ríkið og er í raun meira en virðist við fyrstu sýn, vegna þess að dómurinn undirstrikar í raun að það eru einungis fimm vinnudagar í hverri viku. Laugardagar og sunnudagar eru þar af leiðandi ekki vinnudagar og teljast þar af leiðandi að mjög takmörkuðu leyti með þegar reiknuð eru út laun þeirra sem eru í mýkjandi verkfalli.

Það er ótvíræð niðurstaða eftir skoðun á lögmálum reiknireglunnar og takmörkum hennar að þeir starfsmenn sem ekki vinna hinn hefðbundna vinnudag, þ.e.a.s. átta tíma á dag mánudaga til föstudaga eru verr settir en hinir, nema með einni undantekningu sjá aftast í pistli þessum. Vaktavinnufólk sem vinnu sjö daga vikunnar þegar mýkjandi verkföll eru eins og þau hafa verið að undanförnu fær ekki greitt nema að hluta til fyrir vinnuframlag sitt. Hins vegar fá þeir sem einungis áttu að vinna verkfallsdagana greitt að hluta til fyrir að vera heima í verkfalli og skila engu vinnuframlagi, svo öfugsnúið sem það kann að virðast, „Einn fyrir alla og allir fyrir einn“.

Launþegar sem fara í mildandi verkföll eiga þar af leiðandi ekkert á vísan að róa hvort þeir fá borgað fyrir sannanlegt vinnuframlag sitt. Það ræðst af því hvaða daga vikunar er farið í verkfall og hvaða daga starfsmaðurinn á að vinna samkvæmt vaktskrá. Mjög líklegt er að næst þegar til vinnudeilu kemur sem leiðir til verkfalls verði ekki um neinar mýkjandi aðgerðir að ræða heldur einfaldlega allsherjarverkfall hjá þeim hópum sem eru að vinna vaktavinnu. Ástæða þess er áðurnefndur dómur, hann einfaldlega segir ef stéttarfélag er í verkfalli þá séu í raun allir félagsmenn stéttarfélagsins í verkfalli. „Allir fyrir einn og einn fyrir alla“.

Svo er það stóra spurningin. Hverjar verða afleiðingar dómsins, varðandi samskipti og traust milli vinnuveitenda og starfsmanna? Þessi spurning varð áleitnari eftir að hafa talað við báða málsaðila og fengið þeirra rök og álit.

Samband starfsmanns og vinnuveitanda – Gagnkvæmt traust og virðing.

Til að starfsmaður getir blómstrað í vinnu, skilað hámarksafköstum og framlegð þarf honum að líða vel, finnast hann vera metinn að verðleikum og fá hrós með einhverjum hætt. Hvort hrósið er klapp á bakið, kauphækkun, frídagur eða jólagjöf skiptir í raun ekki höfuðmáli, heldur að honum sé umbunað. Þar af leiðandi þarf samband starfsmann og vinnuveitanda að byggast á gagnkvæmri virðingu og trausti á hvor öðrum. Næsti yfirmaður starfsmanns er í raun framhandleggur vinnuveitenda.

Þeir vinnustaðir sem hafa það að leiðarljósi að starfa samkvæmt hugmyndafræði á borð við þjónandi forystu þar sem hver yfirmaður er í raun um leið þjónn sinna undirmanna. Hann á að tryggja að þeim líði vel í vinnunni og þeir hafi allt það sem þarf til að ná sem bestum árangri í henni. Jafnframt er það hlutskipti yfirmannsins að stýra vinnustaðnum með farsælum hætti og hafa góða framtíðarsýn fyrir vinnustaðinn. Sömuleiðis þarf yfirmaðurinn að leggja sig allan fram um að morgundagurinn verði enn betri en dagurinn í dag, svo starfmennirnir og vinnustaðurinn haldi áfram að þróast og eflast.

Vinnustaðurinn í þessarri deilu er Landspítali Íslands nokkurskonar milliliður á milli þess sem kaupir þjónustuna, ríkið, og þess sem veit hana, starfsmennirnir. Milliliðurinn er yfirmaður starfsmannanna. En kaupandi þjónustunnar, ríkið, er sá sem borgar launin og er jafnframt samningaðili um kaup og kjör starfsmanna. Ekki reyndist unnt að fá álit yfirmanna Landsspítalans á málinu þrátt fyrir allnokkrar tilraunir og er það miður. Hins vegar þá kemur fram á heimasíðu mannauðsdeildar Landspítala Íslands eftir hvaða gildum hann starfar. Þau eru: „Mannauðsstefna spítalans byggir á gildum, umhyggju, fagmennsku, öryggi og framþróun en öryggi starfsmanna er forsenda öryggi sjúklinga“. Hvort þessi gildi vinnustaðarins smellpassa við títtnefndan dóm Félagsdóms verður ekki lagt mat á hér enda var Landspítalinn ekki aðili máls í sjálfu sér.

Í lýðræðisríki verðum við að sjálfssögðu að virða þá dóma sem falla. Vera löghlýðin og virða þær leikreglur sem lýðræðisríkið hefur sett sér. Dómur er alltaf dómur sem markar línunar rétt og rangt, en dómur hefur þann eiginleika að virka í báðar áttir. Þ.e.a.s. það ekki hægt að láta reikniregluna virki öðruvísi á morgun en í dag. Það er kominn dómur um hvernig hún virkar og það er af hinu góða, hversu sáttir eða ósáttir deiluaðilar eru með niðurstöðuna. Við skulum því leyfa okkur að horfa á dóminn frá alveg nýju sjónarhorni.

Nýtt sjónarhorn starfsmanna sem fara í verkföll? Á fullum launum í verkfalli!

NÆSTU MÝKJANDI VERKFÖLL VERÐA EINUNGIS LAUGARDAGA OG SUNNUDAGA vegna þess að samkvæmt dómi Félagsdóms í máli nr. 22/2015 þá fá launþegarnir mánaðarlaun sín að fullu greidd hvort sem þeir eru í verkfalli eða ekki þar sem þeir mæta vinnudaga reiknireglunnar. Jafnframt fá þeir sem kallaðir eru út til að vinna á undanþágu frá verkfalllinu viðbót við full mánaðarlaun sín þar sem greitt aukalega fyrir þær vaktir. Sjá meðfylgjandi mynd.

Þegar farið er í verkfall um helgar blasir önnur sjón við

Þar sem Félagsdómur klofnaði í afstöðu sinni til málsins þá óneytanlega kviknuðu efasemdaraddir um dóminn, en hann er endanlegur í málinu þar sem ekki er um neinn áfrýjunardómstóll að ræða.

Uppgjör deilumáls Ljósmæðrafélags Íslands og íslenska ríkisins.

Er alveg víst að öll mannanna verk og afleiðingar þeirra hafi verið hugsaðar til enda?

Er mögulegt að einhver eða einhverjir hafi í raun farið fram úr sér?

Er samkvæmt dómi Félagsdóms í máli nr. 22/2015 hægt að fara í verkfall, fá full laun og ef til vill viðbótargreiðslur vegna undanþáguvinnu, allt í boði dómsins?

Er mögulegt að vinna mál fyrir dómstólum, en í raun tapa því?

Í þessum fjórum pistlum sem borið hafa yfirskriftina „Er réttlætisvitund samstíga lögum eða eru lög samstíga réttlætisvitund?“ hefur verið reynt að fara eins hlutlægt yfir málefnið og mögulegt hefur verið. Ásamt því að fara sem rétt með staðreyndir. Því miður ekki náðist í alla þá aðila sem vonir stóðu til að ná í, verkföll og annað hafa hamlaði.

Eftir á að hyggja þá hefði líka verið réttara að yfirskriftin væri „Í UPPHAFI SKYLDI ENDIRINN SKOÐA, eða er það ekki?“

Oddur Sigurðarson


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir