Flutti 4,5 tonna geimskip til Íslands

McConaughey í hlutverki sínu í Interstellar

Nýjasta kvikmynd leikstjórans Christopher Nolan sem ber nafnið Interstellar hefur undanfarið hlotið mikla umfjöllun í erlendum fjölmiðlum. Kvikmyndatímaritin Entertainment Weekly og Hollywood Reporter tóku stóran þátt í tökuferlinu en hið fyrrnefnda fylgdist með kvikmyndatökum sem stóðu yfir heilt ár og hið síðarnefnda ræddi ítarlega við stjörnurnar um myndina. Um er að ræða framtíðartrylli með Matthew McConaughey  og Anne Hathaway í aðalhlutverkum en með önnur hlutverk fara meðal annars Jessica Chastain, Michael Caine, Casey Affleck, Topher Grace, Ellen Burstyn og John Lithgow.

Myndin fjallar um verkfræðing, leikinn af McConaughey, sem er beðinn um að taka þátt í geimferð þar sem ætlunarverkið er að bjarga mannkyninu. Myndin er byggð á kenningum eðlisfræðingsins Kip Thorne um þyngdaraflssvæði í geimnum, ormagöng, tímaferðalög. Sem og um fleiri kenningar sem Albert Einstein náði aldrei að sanna.

Tökur á myndinni fóru fram á Íslandi á síðasta ári að hausti til og hvíldi mikil leynd yfir þeim. Skotið var í Hörgslandi við Kirkjubæjarklaustur í rúmar tvær vikur og greindi RÚV frá því á sínum tíma að notast var við sérstaka flutningavél til þess að koma öllum aukabúnaði til landsins.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Nolan hefur komið með mynd sína til Íslands en nokkur atriði úr fyrstu myndinni um Leðurblökumanninn voru tekin hér á landi.

Í nýlegu viðtali við Hollywood Reporter  upplýsti Nolan að flutningur á geimskipi til Íslands hefði verið eitt af stærstu vandamálunum við gerð myndarinnar en skipið vó 4,5 tonn eða tíu þúsund pund.

Þá upplýsti ein helsta stjarna myndarinnar, Anne Hathaway, í sama viðtali að hún hefði næstum því ofkældst hér á landi vegna lekandi geimbúnings sem hún klæddist í einu atriðanna. Ekki nóg með það þá gleymdist einnig að loka blautbúningnum hennar svo henni var ekki skemmt þegar hún stóð úti í ísköldu vatni.

„Öllum var kalt, ég var bara sú eina sem þjáðist. Ég spurði fólkið hvort það þekkti einkenni ofkælingar og útskýrði fyrir aðstoðarleikstjóranum hvað væri að. Hann kom þeim skilaboðum áleiðis til Nolans sem kinkaði bara kolli og sagði fólkinu að halda áfram.“

Interstellar verður frumsýnd þann 7. nóvember á Íslandi.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir