Mannréttindabrot ekki vegna eurovision

Ulker ásamt Sevil, móður sinni í Aserbaídsjan 2010

Síðustu daga hefur mikið verið í umræðunni hvort Ísland eigi að taka þátt í eurovision sem haldin verður í Bakú í Aserbaídsjan í maí næstkomandi. Páll Óskar Hjálmtýsson hefur lýst því yfir að hann vilji að Ísland dragi sig úr keppni. Ástæðan fyrir því, er að hann vill meina að verið sé að hrekja fátæka borgara frá heimilum sínum. Húsin séu svo rifin til þess að búa til pláss fyrir kristalhöll, sem er í byggingu í landinu og á að hýsa keppnina. Netheimar og fjölmiðlar hafa logað vegna þessa máls og hefur landpósturinn, meðal annarra fjallað um það. Nú hefur komið fram önnur hlið á málinu.

Ulker Gasanova er asersk stúlka sem hefur búið á Íslandi síðan 2001. Landpóstur setti sig í samband við hana og fékk að heyra hvað hún hefði að segja um þetta mál. Hún er mjög ósátt við umræður síðustu daga og segir þær langt frá því að vera sannar.

 „Ég vil byrja á því að nefna að þar sem þessi blessaða kristalhöll er byggð, það er alveg við sjóinn, það hefur aldrei nokkurn tíma verið eitt einasta hús“. Hún segir að vissulega séu miklar framkvæmdir í Bakú, m.a. í íbúðarhverfum, en þær komi eurovision keppninni ekkert við. „Það hafa verið framkvæmdir í Baku alveg síðan um 2005. Þessar framkvæmdir eiga að standa til ársins 2015. Það á að fegra borgina. Ekki bara af því að það er eurovision núna í ár“. Samkvæmt Ulker er verið að rífa niður gömul hús og byggja ný í staðinn – á nákvæmlega sama stað. Þeir sem ekki vilja fara hafa fengið borgaðar 230 þúsund íslenskar krónur á fermetrann. „Og þarna í og nálægt miðbænum er ekki "bláfátækt" fólk eins og Páll vill meina!! Páll Óskar hefur ekki einu sinni verið í Aserbaídsjan og hefur ekki hundsvit á því hvernig lífið og allt er þarna úti!“

Þetta er Ulker mikið hitamál, enda verið að tala um heimaland hennar. „Ég vil taka það aftur fram að þessi hús sem eru rifin þau eru í borginni Baku - en ekki þar sem kristalhöllinn er byggð! Á þeim stað hefur aldrei nokkurn tíman verið eitt einasta hús“.

Hún bendir á að vissulega séu framin mannréttindabrot í landinu, eins og í lang flestum löndum. „Meira að segja hér á Íslandi er verið að brjóta á fólki aftur og aftur og aftur“, en hún þvertekur fyrir það að þessi mannréttindabrot tengist undirbúningi eurovision á nokkurn hátt.

Ulker hringdi í ættingja sína í Aserbaídsjan og sagði þeim frá þessum umræðum sem hafa verið í landinu, en ættingjarnir könnuðust ekki við neitt og fannst þetta bara hálfhlægilegt allt saman og sögðu að mikill spenningur væri í landinu fyrir eurovision keppninni.

Aðspurð hvort hún ætli að horfa á úrslit söngvakeppni sjónvarpsins á laugardagskvöld segir hún, „Já auðvitað fylgist ég með. Það verður gaman að sjá hver vinnur keppnina hér heima. Ég er eurovision sjúk og horfi á hverju ári“.

Á hún sér eitthvert uppáhalds lag? „Ef ég á að segja eins og er þá finnst mér blár opal með besta og skemmtilegasta lagið í ár. En ef það vinnur ekki þá vona ég svo innilega að hún Regína Ósk fari fyrir hönd Íslands“.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort Ísland dragi sig úr keppni, en samkvæmt Páli Magnússyni, útvarpsstjóra, er það raunhæfur möguleiki.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir