Maskadagur í dag á Ísafirði í Ísafjarðarbæ

Maskar á Ísafirði 2011 - Mynd Ingibjörg Snorra
Haldið hefur verið upp á maskadaginn á Ísafirði allt frá siðaskiptum um 1870, en þessi danski siður  „fastelavn“ hefur flust frá bolludegi yfir á öskudag víðast hvar á landinu.  Í Hnífsdal í Ísafjarðarbæ, er t.d. maskað á öskudeginum, á Þingeyri í Ísafjarðarbæ ganga börn um grímuklædd á þrettándanum, á Ísafirði eru börn grímuklædd á maskadeginum og því óhætt að segja að misjafn sé siðurinn í hverjum „bæjarhluta“ í hinum víðfeðma Ísafjarðarbæ.

Okkur á Ísafirði dettur ekki í hug að vera með eitthvað sprell á sjálfum öskudegi í byrjun föstu og höfum haldið okkur við hinn upprunalega maskadag (bolludag) alveg síðan 1870. Er það í takt við aðrar þjóðir og aðra karnivalsiði að sprella áður en fastan byrjar en ekki við upphaf hennar.

Í mínu ungdæmi klæddust börn alls kyns fatnaði, útbjuggu gerfi, settu sig í karakter með „uppdiktuðum“ nöfnum að sjálfsögðu og í raun lítil leiksýning sett upp á hverju ári. Krakkar gengu síðan í hús, kynntu sig, breyttu röddum sínum eftir því „hver þau voru“ og þegar „rullan“ var búin var gaukað að manni góðgæti, ekkert þó í líkingu við það sem tíðkast í dag.

Nammi í öskupokana 
 Mynd Ingibjörg Snorra
Þó fátt hafi breyst í gegnum árin, hefur þó söngurinn orðið ofan á og leiklistin allt að því horfið. Eins er búið að „iðnvæða“ maskadaginn á Ísafirði, sem víðar að því leyti að mörg fyrirtæki eru farin að bjóða börnum sælgæti í skiptum fyrir söng, sem var ekki gert hér áður. Enn er þó haldið í þann sið að ganga einungis í hús eftir kl. 19 á kvöldin og hafa krakkar lært að best er að fara í blokkirnar, þá er ekkert veður að trufla og hægt að „slá margar flugur í einu höggi“.

Sjálf hef ég tekið þátt í þessum degi frá því ég man eftir mér, hlutverk mitt hefur reyndar breyst úr þiggjanda í gefanda og sauma ég nú öskupoka árlega og fylli af góðgæti, en því miður hefur sá siður, að hengja öskupoka í mann og annan að mestu dottið niður. Með þessu vil ég gera mitt til að slá tvær flugur í einu höggi, gefa börnunum nammi og útskýri í leiðinni hvað öskupoki er.
Öskupokar fylltir og skreyttir
 Mynd Ingibjörg Snorra 
Fyrir þremur árum heimsóttu mig tvíburasystur og sungu þær fyrir mig eins og englar, segi ég þeim að vara sig á nálinni í öskupokanum, sem sé fullur af nammi  og að þær skuli spyrja foreldra sína hvernig eigi að nota þá. Þær líta hvor á aðra, labba í burtu og önnur segir, „af hverju fáum við bara ruslapoka ? “, hin svaraði að bragði, „held það sé af því þeir eru fullir af nálum, við spyrjum bara pabba og mömmu“.

Ingibjörg Snorra

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir