Mastersnemi í markaðsfræði og málari sem er að gera það gott

Hildur Soffía, er 26 ára Akureyringur, hún er búsett í Reykjavík og er áhugamanneskja um málun. Hún er tæknilega séð ólærð fyrir utan að hafa farið í myndlistaskóla sem barn, fór á listabraut í skóla í Noregi og hefur sótt námskeið í Kvöldskóla Kópavogs, svo það má segja að hún sé nánast sjálflærður málari. Þrátt fyrir að hafa ekki helgað sig máluninni algjörlega, þá seljast myndirnar hennar grimt. Hún hefur verið með nokkrar sýningar, til að mynda hefur hún tekið þátt í Handverkssýningunni á Hrafnagili og núna um daginn var hún með sýningu í Reykjavík í fyrirtækinu Virtus. Þessi stelpa á greinilega framtíðina fyrir sér í listaheiminum. Núna er hún í mastersnámi í markaðsfræði og sækir tíma í Myndlistaskóla Reykjavíkur um helgar.
Blaðamaður Landpóstsins tók hana í stutt spjall.

Nú er ekki eins og þú hafir allan heimsins tíma til að einbeita þér af því að mála, hvernig ferðu að þessu?
Það getur nú alveg verið strembið, það koma tímabil sem ég er alveg að fara yfir um, en ég læt þetta bara ganga. Ég reyni að nýta tímann minn vel og skipuleggja mig vel. Það koma samt oft vinnutarnir fram á nótt.

Hefur þú alltaf haft áhuga á að mála?
Já það má segja það, mér hefur alltaf fundist það gaman en ég hef ekki alltaf gefið mér tíma í það. Þegar ég byrjaði að mála í alvöru sem var undir lok menntaskólans þá byrjaði boltinn að rúlla, penslarnir urðu alltaf fleiri og fleiri og úrvalið af málningu meira og meira, síðan þá hef ég ekki hætt.


Hvernig myndir þú lýsa þinni myndlist?
Ég mála það sem mér dettur í hug hverju sinni, mér finnst gaman að mála tré og tungl og leika mér að ólíkri framsetningu. Ég mála yfirleitt með Akryl en núna mála ég með olíu í myndlistaskólanum. Annars finnst mér alltaf gaman að prufa eitthvað nýtt og er óhrædd við prufa efni og aðferðir sem ég hef ekki heyrt um áður. 

Finnst þér góður markaður fyrir málverkin þín á Íslandi?
Já algjörlega, það er alltaf einhver sem á afmæli, er að koma sér fyrir í nýrri íbúð eða hreinlega langar bara í einhverja mynd á vegginn sinn.

Er fólk að kaupa minna útaf kreppunni?
Já mér finnst eins og það sé að dragast aðeins úr sölunni sem slíkri, þó fólk sé ennþá duglegt að koma og skoða og koma á sýningar, en þetta er ekki alveg það fyrsta sem fólk kaupir þegar það á lítinn pening. Fólk er farið að kaupa frekar minni myndir í staðinn.

Langar þig að fara út og reyna að meika það þar?
Mig langar klárlega að fara út og læra eitthvað meira, í haust mun ég sennilega flytja til Kanada, þó tilgangurinn sé nú ekki beint til að “meika það”. En þá væri gaman að skella sér í eitthvað listnám.

Stefnir þú á meira listnám seinna?
Jább, algjörlega. Mig langar til að skella mér í alvöru listnám, það er líka mjög margt sem mig langar til að læra og mun ég sennilega sækja ýmis námskeið í framtíðinni.

Ertu með fleiri áhugamál sem tengjast list heldur en málun?
Já mér finnst gaman að gera allt sem er skapandi og finnst mjög gaman að vinna í höndunum, ég hef unnið með gler, keramik, verið að þæfa ull og fleira. Þessa dagana er ég á prjónanámskeiði og er langt komin með að prjóna peysu J. Mér finnst líka gaman að taka ljósmyndir og hef sótt námskeið i því. Ég hef líka gaman af því að gera hluti upp.

Eitthvað spennandi á döfinni?
Já já, það er alltaf eitthvað um að vera, þessa dagana er ég með sýningu í Virtus, svo ætla ég að klára prófin áður en ég geri eitthvað meira. Í sumar mun ég sennilega vera með einhverjar sýningar og í haust er stefnan tekin á Kanada, þar sem ég mun hugsanlega fara í eitthvað listnám.

Þá kveður blaðamaður Landspóstins þessa hæfileikaríku og duglegu  stelpu og þakka henni kærlega fyrir spjallið.

  

 


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir