Matthías: Þetta verður geggjað!

Matthías - Mynd: ruv.is

„Ég hugsa að Sinfóníuhljómsveit Norðurlands sé alls ekki síðri en Sinfóníuhljómsveit Íslands. Það leynast margir snillingar þarna inná milli og ég hlakka mikið til þess að spila með þeim, þetta verður geggjað“ sagði Matthías Matthíasson söngvari og gítarleikari Dúndurfrétta um The Wall, væntanlega tónleika sem haldnir verða í Hofi á laugardagskvöldið.

Hljómsveitin Dúndurfréttir var upphaflega stofnuð til að spila uppáhalds tónlist Matthíasar og félaga. Þeir spila lög eftir hljómsveitir eins og Pink Floyd, Uriah Heep, Deep Purple og Led Zeppelin.  
„Við vorum aðallega að spila á litlum stöðum eins og Gauknum en síðan fór þetta að vinda upp á sig. Okkur langaði síðan að gera eitthvað meira og settum upp tónleikana Dark Side of the Moon en platan, sem Pink Floyd gerði, átti þá afmæli. Þær sýningar urðu fjórar í Borgarleikhúsinu og það seldist upp á þær allar. Síðan þá höfum við verið að gera þetta nánast árlega og það má segja að hápunkturinn hafi verið árið 2007 þegar við fluttum The Wall með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Laugardalshöll þar sem uppselt var á tvenna tónleika.  Við fórum einnig með það verk til Færeyja og spiluðum þar með sinfóníuhljómsveitinni þeirra.“

Þeir félagar settu The Wall upp fyrst árið 2002 í Borgarleikhúsinu og á Akureyri en þá var sýningin minni í sniðum. Nú verður auk Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, karlakór Dalvíkur og stúlknakór Tónlistarskóla Akureyrar með á sviðinu. Það verða því um 100 manns á sviðinu þegar mest lætur.

Hvernig komu þessir tónleikar til sögunnar? „Það er svolítið langt síðan ég minntist á það við Guðmund Óla að það væri skemmtilegt að setja eitthvað upp með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Nú er það loksins orðið að veruleika enda líka komið þetta flotta hús, Hof“ segir Matthías en hvað finnst honum um húsið?  „Ég er búinn að vera leika þar í Rocky Horror og mér finnst húsið alger snilld. Flottasta tónleikahús á Íslandi.“

Hvers vegna eru tónleikarnir hér en ekki í Reykjavík? „Okkur langaði að gera þetta aftur, hljómsveitin var til í þetta og glæsileg aðstaða komin. Þetta eru með skemmtilegri tónleikum sem við höfum haldið bæði með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Færeyja. Nú er ég fluttur aftur norður og maður verður auðvitað að koma með þetta aftur heim.“

Matthías er sá eini af þeim Dúndurfréttamönnum sem býr á Norðurlandi og því er ekki auðvelt mál að fá alla saman á æfingu.  „Það hittist þannig á að ég er búinn að vera mikið fyrir sunnan að undanförnu vegna forkeppni Eurovision. Ég er sá eini sem bý hérna fyrir norðan svo við gátum þá æft á meðan ég var í Reykjavík. Við erum hinsvegar að hitta sinfóníusveitina hérna fyrir norðan fyrst í kvöld (fimmtudag) og þó það virki eins og stuttur undirbúningur þá er það í raun ekki svo. Við tókum til dæmis bara tvær æfingar með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þetta snýst bara um að ná góðu sambandi við stjórnandann og ég er vanur því að vinna með Guðmundi Óla. Við höfum verið saman í sýningum með Karlakór Dalvíkur til dæmis. Þetta virkar í raun þannig að við spilum okkar músík og þau eru með sínar nótur fyrir framan sig. Stjórnandi sér síðan um það að þetta haldist allt í takti og gangi vel fyrir sig.“

Hvað með hljómsveitina sjálfa? Stefnið þið á að gera eitthvað meira úr hljómsveitinni eða ætlið þið bara að halda ykkur við tónleika sem þessa áfram?
„Dúndurfréttir er í raun bara eins og saumaklúbbur þar sem við hittumst bara vinirnir. Í staðinn fyrir að skiptast á sögum þá spilum við bara góða músík. Við eigum  þó til eitthvað af frumsömdu efni og það er alveg heil náma af möguleikum hjá Dúndurfréttum.“

Hér má sjá Dúndurfréttir taka lagið Another Brick in the Wall á tónleikum sínum the Wall árið 2007


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir