Meiri nánd í staðarnámi

Háskólinn á Akureyri. (Mynd: Vísir)
Það er að mörgu að huga þegar kemur að því að velja sér nám. Hvað þú vilt læra og hvar eru helstu spurningar sem einstaklingur þarf að finna svör við. Í nútímasamfélagi eru ótal margir valmöguleikar í boði og oft reynist erfitt að henda reiður á hvað skal velja.
Eitt er þó víst, menntun er aldrei til einskis.

Það reyndist mér ekki auðvelt að velja háskólanám. Eftir miklar vangaveltur varð Háskólinn á Akureyri fyrir valinu. Það kom aldrei neitt annað til greina en að fara í staðarnám. Ég hef aldrei tekið fjarnámsáfanga á minni skólagöngu. Ég trúi því að svo fjarnám geti gengið upp þarf einstaklingur að búa yfir góðum skipulagshæfileikum og þónokkrum sjálfsaga. Hvorugum eiginleikum tel ég mig búa yfir. Einnig höfðu góð ummæli skólans mikil áhrif á val mitt.

Ég hafði rætt við þónokkra sem höfðu 
stundað nám hér og báru skólanum góða söguna. Þetta er tiltölulega lítill skóli og því forsenda fyrir meiri nánd við kennara og samnemendur sína. Það var fyrst og fremst sem heillaði mig. Ég vildi ekki vera í skóla þar sem ég myndi týnast í fjöldanum.

Óhjákvæmilega er sú ákvörðun að flytja frá fjölskyldu og vinum erfið. Það er helsti ókosturinn sem ég sé við þessa ákvörðun mína. Fjarveran frá fjölskyldunni venst þó nokkuð vel en tilhlökkunin að fara suður er alltaf jafn mikil.

Ég sótti um íbúð í stúdentagörðunum hér en hafði ekki erindi sem erfiði. Það er auðvitað takmarkaður fjöldi íbúða og ekki gengið að því vísu að komast þar að. Skortur á húsnæði dró úr ákvörðun minni um tíma. Fyrir rest fann ég mér þó íbúð fyrir tilstilli pabba míns.

Að eiga gott félagslíf og vera í góðum tengslum við samnemendur sína er auðvitað mikill kostur. Fjarnemar fara oft á mis við þennan part háskólanáms. Ég ætti mun erfiðara með mitt nám, hefði ég ekki fólk í kringum mig sem væri að gera svipaða hluti og ég. Það hefur myndast góður hópur innan námsins og ég hefði ekki viljað missa af því að kynnast honum.

Fjarnemar þurfa einnig að leggja út auka gjöld þegar kemur að lotum. Þeir þurfa að koma sér til Akureyrar og finna sér stað til að vera á, meðan lotu stendur. Það getur reynst kostnaðarsamt.

Ég sé svo sannarlega ekki eftir þeirri ákvörðun að velja Háskólann á Akureyri. Smæð skólans hentar mér vel og kennararnir eru hverjum öðrum almennilegri. Akureyri er fallegur og góður staður til þess að búa á. Ekki skemmir það heldur fyrir að bensínkostnaðurinn hefur hríðlækkað síðan ég flutti hingað.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir