Menn sem láta ekki taka sig af lífi

Hljómsveitarmeðlimir Mínus
Nýjasta myndband hljómsveitarinnar Mínus sýnir aðstæður götubarna í Úkraínu. Myndbandið var sýnt í Kastljósi í gærkvöldi og var ekki talið hæfa viðkvæmum. Blaðamaður Landpóstsins hafði samband við trommuleikara hljómsveitarinnar, Björn Stefánsson, til að ræða myndbandið og ástæður þess að hljómsveitin fékk ekki að spila á unglingatónleikum í Laugardalshöll 27. febrúar sl.
    
Málavextir í sambandi við þátttöku hljómsveitarinnar Mínus á unglingatónleikum Samfés, Samtaka félagsmiðstöðva, voru með þeim hætti að þeir neituðu að skrifa undir sérstakan samning þess efnis að þeir hefðu aldrei neytt ólöglegra fíkniefna. Krafan, um undirritun samningsins, var gerð eftir að fram kom í fjölmiðlum, seinni hluta janúarmánaðar, að hljómsveitin markaðssetti sig í töffaraskap og ljóma ólöglegra fíkniefna. Aðspurður sagði Björn þá félaga alls ekki hafa skilið að ein hljómsveit, umfram aðrar, þyrfti að undirrita slíka samninga þar sem gengið hafi verið út frá túlkun fjölmiðla. Þeir sendu frá sér yfirlýsingu þess efnis að það hefði aldrei staðið til að koma fram undir áhrifum á Samfésballi og að þeir hefðu aldrei hvatt til neyslu fíkniefna. Það kom líka fram í yfirlýsingunni að þeim þætti lítið gert úr greind unglinga. 
     
Félagi þeirra hljómsveitarmeðlima hefur dvalið í Úkraínu í fjögur ár og hefur þar unnið að því að gera heimildarmynd um götubörn. Aðstæður þeirra eru með þeim hætti að óhætt er að segja að þau lifi eins og rottur. Þau búa, í ræsinu, í orðsins fyllstu merkingu, vakna til lífsins á nóttunni til þess að fá sinn skammt af eitri í þeim tilgangi að flýja raunveruleikann, ömurlegar aðstæður. Sum þeirra nota lím sem vímugjafa og getur þá farið svo, að víman og kuldinn leiki þau svo grátt, að þau leggi sig til svefns undir berum himni, og vakni aldrei aftur. Þegar blaðamaður spurði Björn hvort hann teldi að myndbandið hefði forvarnargildi þá svaraði hann því til að það mætti gjarnan líta svo á. Sannleikurinn væri jafnan sárastur. Blaðamanni lék einnig forvitni á að vita hvort þetta væri andsvar hljómsveitarinnar við umfjöllun fjölmiðla og samningsrof Samtaka félagsmiðstöðva. Björn sagði að það mætti alveg skoða það í því ljósi, það væri í það minnsta áhrifaríkari leið en að undirgangast forsjárhyggju þeirra sem vildu láta hlutina líta betur út á yfirborðinu. Hann sagði hljómsveitarmeðlimi í Mínus yfirleitt segja sína skoðun afdráttarlaust. Það má geta þess hér að lagið sem myndbandið er gert við heitir Throwaway Angel og er hægt að heyra það og sjá myndbandið á heimasíðu hljómsveitarinnar Myspace.com/minus. Auk þess skal vakin athygli á því að heimildamyndin um götubörnin í Úkraínu er í vinnslu og verður sýnd síðar.HB Mynd: af netinu

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir